Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heiðvirð brúðkaup frammi fyrir Guði og mönnum

Heiðvirð brúðkaup frammi fyrir Guði og mönnum

Heiðvirð brúðkaup frammi fyrir Guði og mönnum

„Brúðkaup [var] í Kana. . . . Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.“ — JÓHANNES 2:1, 2.

1. Að hverju er athyglinni beint í frásögunni af Jesú í Kana?

 JESÚS, móðir hans og sumir lærisveinanna vissu hvað heiðvirt brúðkaup þjóna Guðs getur verið ánægjulegt. Kristur gerði eitt brúðkaup ógleymanlegt með því að framkvæma þar sitt fyrsta kraftaverk sem getið er um og það gerði viðburðinn enn ánægjulegri. (Jóhannes 2:1-11) Þú hefur ef til vill sótt brúðkaup fólks sem vill þjóna Jehóva í hamingjuríku hjónabandi. Þú gætir líka verið að undirbúa eigið brúðkaup eða hjálpa vini eða vinkonu að gera brúðkaup sitt ánægjulegt. Hvað er hægt að gera til að tryggja að svo verði?

2. Hvaða upplýsingar veitir Biblían um brúðkaup?

2 Kristnir menn hafa komist að raun um að ráðleggingar Biblíunnar eru mjög gagnlegar þegar maður og kona ákveða að ganga í hjónaband. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Að vísu segir Biblían ekki nákvæmlega hvernig kristið brúðkaup eigi að fara fram. Það er eðlilegt því að siðvenjur og jafnvel lög eru mismunandi eftir löndum og tíma. Í Ísrael til forna var til dæmis ekki höfð formleg hjónavígsluathöfn. Á brúðkaupsdaginn leiddi brúðguminn brúði sína inn á heimili sitt eða föður síns. (1. Mósebók 24:67; Jesaja 61:10; Matteus 1:24) Þessi opinberi atburður jafngilti hjónavígslu þó að formleg athöfn hafi ekki farið fram eins og algengt er í brúðkaupum nú á dögum.

3. Hvaða atburði tók Jesús þátt í þegar hann var í Kana?

3 Í augum Ísraelsmanna jafngilti þessi atburður hjónavígslu eða brúðkaupi. Síðan var kannski haldin veisla eins og sú sem nefnd er í Jóhannesi 2:1. Í mörgum biblíuþýðingum er versið þýtt svona: „Á þriðja degi var brúðkaup í Kana.“ En einnig er viðeigandi að þýða frummálsorðið ‚veisla‘ eða ‚brúðkaupsveisla‘. a (Matteus 22:2-10; 25:10; Lúkas 14:8) Í frásögunni má greinilega sjá að Jesús var viðstaddur veislu sem haldin var í tengslum við gyðingabrúðkaup og lagði sitt af mörkum til að gera veisluna ánægjulega. Aðalatriðið er hins vegar að brúðkaup á þeim tíma var ólíkt því sem almennt þekkist nú á dögum.

4. Hvernig kjósa sumir að ganga í hjónaband og hvers vegna?

4 Víða um heim verður kristið fólk, sem vill ganga í hjónaband, að uppfylla viss lagaleg skilyrði. Að því búnu getur hjónavígslan farið fram á hvern þann hátt sem samræmist lögum. Athöfnin gæti verið einföld og fámenn og framkvæmd af embættismanni eða löggiltum fulltrúa trúfélags. Sumir velja þennan kost og bjóða kannski nokkrum ættingjum og vinum að vera viðstaddir sem vitundarvottar eða til að samgleðjast þeim við þetta mikilvæga tilefni. (Jeremía 33:11; Jóhannes 3:29) Sumir kjósa sömuleiðis að halda ekki fjölmenna og kostnaðarsama brúðkaupsveislu sem útheimtir mikinn undirbúning. Í stað þess ákveða þeir ef til vill að bjóða nokkrum nánum vinum til málsverðar. Hvað svo sem við kjósum að gera ættum við að muna að sumir þroskaðir kristnir menn geta haft aðrar skoðanir en við. — Rómverjabréfið 14:3, 4.

5. Hvers vegna vilja mörg kristin brúðhjón hafa brúðkaupsræðu við hjónavígsluna og hvert er inntak ræðunnar?

5 Flest kristin brúðhjón vilja hafa biblíulega ræðu við hjónavígsluna. b Þau vita að Jehóva er höfundur hjónabandsins og veitir viturlegar leiðbeiningar í orði sínu sem stuðla að farsælu hjónabandi. (1. Mósebók 2:22-24; Markús 10:6-9; Efesusbréfið 5:21-33) Flest brúðhjón vilja einnig að kristnir vinir og ættingjar séu viðstaddir þennan gleðilega viðburð. En hvernig eigum við að líta á öll þau mismunandi lög, viðhafnarsiði eða staðbundnar hefðir sem farið er eftir? Í þessari grein verður rætt um aðstæður í ýmsum löndum. Sumt gæti verið talsvert ólíkt því sem þú þekkir eða því sem almennt tíðkast í þínu byggðarlagi. En þrátt fyrir það geturðu tekið eftir almennum meginreglum eða sjónarmiðum sem eru mikilvæg í augum þjóna Guðs.

Heiðvirt hjónaband — löggilt hjónaband

6, 7. Hvers vegna ætti okkur að vera umhugað um að fylgja hjónavígsluskilyrðum yfirvalda og hvernig sýnum við það?

6 Þó að Jehóva sé höfundur hjónabandsins setja stjórnvöld hjónaefnunum viss skilyrði. Þetta er viðeigandi. Jesús sagði: „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Markús 12:17) Páll postuli gaf einnig svipaðar leiðbeiningar: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.“ — Rómverjabréfið 13:1; Títusarbréfið 3:1.

7 Í flestum löndum setur keisarinn, eða borgaraleg yfirvöld, reglur um hverjir séu hæfir til að ganga í hjónaband. Þegar kristinn maður og kona, sem eru biblíulega frjáls til að giftast, ákveða að ganga í hjónaband fara þau samviskusamlega að lögum landsins. Það gæti falið í sér að sækja um leyfi, fá löggiltan vígslumann til að gefa þau saman og kannski að lögskrá hjónabandið eftir vígsluna. Þegar Ágústus keisari bauð að „skrásetja skyldi alla“ fóru María og Jósef að þessum lögum og ferðuðust til Betlehem „til að láta skrásetja sig“. — Lúkas 2:1-5.

8. Hvaða siðvenjur viðhafa Vottar Jehóva ekki og hvers vegna?

8 Þegar kristin brúðhjón ganga í hjónaband á löglegan og viðurkenndan hátt er hjónabandið bindandi í augum Guðs. Þess vegna endurtaka vottar Jehóva ekki hjónavígslur með því að halda fleiri en eina vígsluathöfn og endurnýja ekki heldur hjúskaparheitin, til dæmis á 25 eða 50 ára brúðkaupsafmælinu. (Matteus 5:37) (Sumar kirkjur viðurkenna ekki borgaralegar hjónavígslur og halda því fram að slíkt sé ekki fullgilt nema prestur eða klerkur framkvæmi ákveðna helgiathöfn eða lýsi manninn og konuna hjón.) Í mörgum löndum veita yfirvöld umsjónarmanni í söfnuði Votta Jehóva umboð til að framkvæma hjónavígslur. Ef hægt er væri best að gefa hjónin saman þegar brúðkaupsræðan er flutt í ríkissalnum. Þar fer sönn tilbeiðsla fram og því er viðeigandi að nota þennan stað til að flytja ræðu um hjónabandið sem Jehóva Guð er höfundur að.

9. (a) Hvað gætu kristin brúðhjón ákveðið að gera ef hjónavígslan er borgaraleg? (b) Hvaða þátt gætu öldungarnir þurft að eiga í undirbúningi brúðkaupsins?

9 Í öðrum löndum krefjast lögin þess að brúðhjón gangi í hjónaband á opinberri skrifstofu eins og til dæmis í ráðhúsi eða frammi fyrir borgaralegum embættismanni. Oft vilja hjónaefnin láta flytja brúðkaupsræðu í ríkissalnum í kjölfar vígslunnar, samdægurs eða næsta dag. (Þau ættu ekki að láta marga daga líða á milli borgaralegu vígslunnar og biblíuræðunnar því að þau eru gift frammi fyrir Guði og mönnum, þar með talið kristna söfnuðinum.) Þegar hjónavígslan er borgaraleg gætu brúðhjónin kosið að láta flytja ræðu í vissum ríkissal en þá ættu þau að fá leyfi fyrir fram hjá öldungunum í starfsnefnd safnaðarins. Umsjónarmennirnir ættu bæði að staðfesta að brúðhjónin hafi gott mannorð og gæta þess að brúðkaupið stangist ekki á við samkomur eða aðra dagskrá í salnum. (1. Korintubréf 14:33, 40) Þeir ættu einnig að kynna sér hvernig brúðhjónin óska eftir að salurinn verði undirbúinn og ákveða hvort það eigi að tilkynna um notkun hans.

10. Hvaða áhrif hefur það á brúðkaupsræðuna ef borgaraleg hjónavígsla þarf að fara fram?

10 Öldungurinn, sem flytur brúðkaupsræðuna, leggur sig fram um að hafa hana hlýlega, andlega uppbyggjandi og virðulega. Ef borgaraleg hjónavígsla hefur farið fram bendir hann á að brúðhjónin hafi þegar verið gefin saman samkvæmt lögum keisarans. Hafi þau ekki gefið hjúskaparheit við borgaralegu vígsluna gætu þau viljað gera það þegar ræðan er flutt. c En hafi þau skipst á heitum við borgaralegu athöfnina og vilja líka gera það frammi fyrir Jehóva og söfnuðinum ættu þau að fara með heitin í þátíð því að það sýnir að þau hafi þegar verið ‚tengd saman‘. — Matteus 19:6; 22:21.

11. Hvernig giftir fólk sig sums staðar og hvaða áhrif hefur það á brúðkaupsræðuna?

11 Sums staðar kveða lögin ekki á um neina hjónavígsluathöfn, ekki einu sinni hjá opinberum embættismanni. Hjónaefnin stofna til hjúskapar þegar þau afhenda embættismanni undirritaða hjónavígsluskýrslu. Þar með er hjónabandið lögskráð. Eftir það er litið á þau sem hjón og þennan dag sem brúðkaupsdaginn. Eins og bent var á hér á undan gætu brúðhjón, sem ganga í hjónaband með þessum hætti, kosið að láta andlega þroskaðan bróður flytja biblíuræðu í ríkissalnum strax á eftir löggildingunni. Hann upplýsir alla viðstadda um að brúðhjónin séu þegar gift þar sem hjónabandið hefur verið lögskráð. Ef þau gefa hjúskaparheit ættu þau að vera í samræmi við það sem kemur fram í grein 10 og meðfylgjandi neðanmálsathugasemd. Þeir sem mæta í ríkissalinn samgleðjast brúðhjónunum og njóta góðs af biblíulegu leiðbeiningunum sem gefnar eru. — Ljóðaljóðin 3:11.

Hjónavígslur samkvæmt ættflokkahefð og borgaralegar vígslur

12. Hvernig ber að líta á hjónavígslur samkvæmt ættflokkahefð og hvað er skynsamlegt að gera eftir slíka vígslu?

12 Þegar fólk gengur í hjónaband í sumum löndum er hjónavígslan haldin samkvæmt ættflokkahefð. Þetta er ekki sambærilegt við það þegar par býr bara saman eða er í skráðri sambúð sem nýtur vissrar lagalegrar viðurkenningar sums staðar en er ekki fullgilt hjónaband. d Þessi hjónavígsla fer fram samkvæmt hefð ættflokksins eða svæðisins og er opinberlega viðurkennd. Í brúðkaupinu gæti verið venja að greiða brúðarverðið að fullu og taka við því. Þar með eru brúðhjónin lagalega og biblíulega gift. Yfirvöld líta á slíkar hjónavígslur sem löggildar og bindandi. Eftir brúðkaupið er venjulega hægt að skrá hjónabandið og þá gætu hjónin fengið opinbert hjónavígsluvottorð. Sé hjónabandið skráð getur það verið til verndar fyrir hjónin, börnin sem þau kunna að eignast og eiginkonuna ef hún verður ekkja. Söfnuðurinn hvetur alla þá sem giftast samkvæmt ættflokkahefð til að skrá hjónabandið sem allra fyrst. Það er eftirtektavert að hjónabönd og barnsfæðingar voru opinberlega skráðar samkvæmt Móselögunum. — Matteus 1:1-16.

13. Hvað ber að hafa í huga ef brúðkaupsræða er flutt eftir að hjónin hafa gifst samkvæmt ættflokkahefð?

13 Þegar maðurinn og konan eru gefin saman samkvæmt ættflokkahefð bindast þau hvort öðru lagalega og verða hjón. Eins og fram kom hér á undan gætu kristin brúðhjón, sem ganga með slíkum hætti í löglegt hjónaband, kosið að láta flytja brúðkaupsræðu og gefa hjúskaparheit í ríkissalnum. Ef þau gera það tekur ræðumaðurinn fram að þau séu þegar gift í samræmi við lög keisarans. Aðeins ætti að flytja eina slíka ræðu. Hér er um eina hjónavígslu að ræða — það er að segja löglega vígslu samkvæmt ættflokkahefð — og eina biblíulega ræðu. Æskilegt væri að sem stystur tími liði á milli þessara tveggja atburða og þeir ættu helst að fara fram sama dag. Þetta stuðlar að því að kristin hjónabönd njóti virðingar í samfélaginu.

14. Hvað gæti kristið fólk kosið að gera ef boðið er upp á hjónavígslur samkvæmt ættflokkahefð og borgaralegar vígslur?

14 Í sumum löndum, þar sem hjónavígslur samkvæmt ættflokkahefð eru viðurkenndar að lögum, er einnig boðið upp á borgaralegar vígslur. Opinberir embættismenn framkvæma yfirleitt borgaralegar hjónavígslur og þær gætu falið í sér að farið sé með hjúskaparheit og skrifað undir hjónavígsluskýrslu. Sum kristin brúðhjón velja þennan kost frekar en að giftast samkvæmt ættflokkahefð. Það er ekki þörf á hvoru tveggja þar sem báðar vígslurnar eru löggildar. Það sem sagt er um brúðkaupsræður og hjúskaparheit í greinum 9 og 10 á líka við hér. Aðalatriðið er að hjónaefnin séu gefin saman á heiðvirðan hátt frammi fyrir Guði og mönnum. — Lúkas 20:25; 1. Pétursbréf 2:13, 14.

Hjónabandið haldið í heiðri

15, 16. Hvernig ætti að sýna hjónabandinu virðingu?

15 Þegar persneskur konungur átti í hjónabandserfiðleikum lagði ráðgjafi hans að nafni Memúkan fram tillögu sem gat haft góð áhrif. Hún var á þá leið ‚að allar konur ættu að sýna mönnum sínum virðingu‘. (Esterarbók 1:20) Í kristnum hjónaböndum ætti ekki að þurfa neina konungsskipun í þessum efnum, eiginkonur vilja virða menn sína. Sömuleiðis veita kristnir eiginmenn konum sínum virðingu og hrósa þeim. (Orðskviðirnir 31:11, 30; 1. Pétursbréf 3:7) Virðing innan hjónabandsins ætti ekki aðeins að koma fram með árunum. Sýna ætti virðingu alveg frá byrjun — frá og með brúðkaupsdeginum.

16 Brúðhjónin eru ekki þau einu sem eiga að sýna virðingu á brúðkaupsdeginum. Ef öldungur í söfnuðinum flytur brúðkaupsræðu ætti hún líka að bera vott um virðingu. Ræðunni ætti að vera beint til brúðhjónanna. Ræðumaðurinn sýnir þeim þá virðingu að vera ekki með spaugsemi eða flétta inn í ræðuna veraldlegum spakmælum. Hann ætti ekki að vera með of persónulegar athugasemdir sem gætu gert brúðhjónin vandræðaleg og áheyrendur. Hann ætti að leitast við að vera hlýlegur og uppbyggilegur og leggja áherslu á höfund hjónabandsins og óbrigðular leiðbeiningar hans. Já, virðuleg ræða öldungsins stuðlar að brúðkaupi sem er Jehóva Guði til heiðurs.

17. Af hverju þarf að huga að lagalegu hliðinni í sambandi við kristin brúðkaup?

17 Þú hefur sennilega tekið eftir að í þessari grein hefur mikið verið rætt um lagalega hlið hjónabandsins. Sumt á ef til vill ekki við þar sem þú býrð. En við ættum öll að gera okkur grein fyrir því hve mikilvægt er að brúðkaup meðal votta Jehóva beri vott um virðingu fyrir landslögum — kröfum keisarans. (Lúkas 20:25) Páll hvatti okkur: „Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, . . . þeim virðing, sem virðing ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Já, það er viðeigandi, frá og með brúðkaupsdeginum, að kristin hjón beri virðingu fyrir því fyrirkomulagi sem Guð hefur í gildi núna.

18. Hverju öðru í tengslum við brúðkaup þarf að gefa gaum að og hvar er að finna leiðbeiningar í þeim efnum?

18 Oft er haldin brúðkaupsveisla eftir kristið brúðkaup. Þú manst kannski að Jesús var viðstaddur slíka veislu. Ef brúðkaupsveisla er haldin hvernig geta leiðbeiningar Biblíunnar þá tryggt að hún sé Guði til heiðurs og gefi góða mynd af brúðhjónunum og kristna söfnuðinum? Í næstu grein verður rætt um það. e

[Neðanmáls]

a Sama orð mætti nota um veislu sem tengdist ekki brúðkaupi. — Esterarbók 9:22, Sjötíumannaþýðingin.

b Vottar Jehóva nota uppkast að 30 mínútna ræðu sem ber stefið „Hjónaband sem er heiðvirt í augum Guðs“. Í uppkastinu er bent á góðar biblíulegar ráðleggingar sem finna má í bókinni Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn? og öðrum ritum Votta Jehóva. Þetta efni er mjög gagnlegt fyrir brúðhjónin og alla viðstadda.

c Eftirfarandi heit eru notuð nema landslög kveði á um annað. Brúðguminn er spurður: „Vilt þú, [fullt nafn mannsins], frammi fyrir Jehóva Guði og í viðurvist þessara votta, taka þér [fullt nafn konunnar] fyrir eiginkonu, og heitir þú að elska hana og annast í samræmi við lög Guðs fyrir eiginmenn eins og þau koma fram í Heilagri ritningu, svo lengi sem þið bæði lifið?“ [Maðurinn svarar: „Já.“] Brúðurin er spurð: „Vilt þú, [fullt nafn konunnar], frammi fyrir Jehóva Guði og í viðurvist þessara votta, taka þér [fullt nafn mannsins] fyrir eiginmann og heitir þú að elska hann og annast í samræmi við lög Guðs fyrir eiginkonur eins og þau koma fram í Heilagri ritningu, svo lengi sem þið bæði lifið?“ [Konan svarar: „Já.“]

d Finna má frekari umfjöllun um skráða sambúð í Varðturninum á ensku 1. maí 1962, bls. 287.

e Frekari upplýsingar er að finna í greininni „Increase the Joy and Dignity of Your Wedding Day“ í Varðturninum á ensku 15. október 2006, bls. 28.

Manstu?

• Af hverju ættum við að hafa áhuga á lagalegri og biblíulegri hlið brúðkaupa?

• Ef kristin hjónaefni eru gefin saman við borgaralega athöfn hvað gætu þau þá kosið að gera í framhaldi af því?

• Af hverju eru brúðkaupsræður fluttar í ríkissalnum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Þegar búðkaup var haldið í Ísrael til forna leiddi brúðguminn brúði sína inn á heimili sitt eða föður síns.