Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getur þú haft stjórn á áfengisneyslu þinni?

Hvernig getur þú haft stjórn á áfengisneyslu þinni?

 Sumir drekka meira áfengi þegar þeir eru undir álagi, einmana eða bara þegar þeim leiðist. Drekkur þú meira en þú varst vanur áður? Hvernig geturðu þá passað upp á að áfengisneyslan fari ekki úr böndunum eða að þú verðir háður áfengi? Skoðaðu nokkur gagnleg ráð sem geta hjálpað þér að hafa stjórn á drykkjunni.

 Hvað er hófleg áfengisneysla?

 Í Biblíunni segir: „Vertu ekki í hópi þeirra sem drekka of mikið vín.“ – Orðskviðirnir 23:20.

 Hugleiddu þetta: Biblían fordæmir ekki að drekka áfengi í hófi. (Prédikarinn 9:7) En hún gerir greinarmun á hóflegri áfengisneyslu, ofdrykkju og því að drekka sig drukkinn. (Lúkas 21:34; Efesusbréfið 5:18; Títusarbréfið 2:3) Að drekka of mikið áfengi getur haft slæm áhrif á ákvarðanatöku þína, heilsu eða sambönd við aðra þó að þú verðir ekki drukkinn. – Orðskviðirnir 23:29, 30.

 Stjórnvöld á ýmsum stöðum gera greinarmun á áhættudrykkju og því að drekka í hófi út frá því hve marga drykki einstaklingur drekkur á einum degi og hve marga daga vikunnar hann drekkur áfengi. a En áfengi fer ekki eins í alla og stundum er best að halda sig alveg frá því. Eftirfarandi er haft eftir Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni:

 „Jafnvel einn eða tveir drykkir geta verið of mikið. Til dæmis …

  •   þegar þú vinnur við vélar eða ekur vélknúnu ökutæki.

  •   þegar þú ert barnshafandi eða með barn á brjósti.

  •   þegar þú tekur ákveðin lyf.

  •   ef þú ert með vissa sjúkdóma.

  •   ef þú hefur ekki hemil á drykkjunni.“

 Merki um að þú sért farinn að misnota áfengi

 Í Biblíunni segir: „Rannsökum breytni okkar og hugsum okkar gang.“ – Harmljóðin 3:40.

 Hugleiddu þetta: Þú getur varið þig gegn skaðlegum áhrifum áfengis ef þú rannsakar reglulega venjur þínar og breytir þeim ef þess er þörf. Vertu vakandi fyrir eftirfarandi vísbendingum um að þú sért að missa tökin:

  •   Þú reiðir þig á áfengi til að vera glaður. Þér finnst þú þurfa að drekka til að slaka á, blanda geði við fólk eða skemmta þér. Þú drekkur til að ráða við vandamál þín.

  •   Þú drekkur meira en þú varst vanur. Þú drekkur oftar. Drykkirnir eru sterkari og þú þarft meira magn til að finna sömu áhrif og áður.

  •   Drykkja þín hefur komið þér í klandur heima fyrir eða í vinnunni. Þú eyðir til dæmis meira í áfengi en þú hefur efni á.

  •   Þú tekur hættulegar ákvarðanir þegar þú ert búinn að drekka, eins og að keyra, synda eða vinna við vélar.

  •   Aðrir hafa áhyggjur af drykkju þinni. Þegar þeir segja þér frá því ferðu í vörn. Þú reynir að fela fyrir öðrum að þú sért að drekka eða hversu mikið þú drekkur.

  •   Þú átt erfitt með að hætta. Þú hefur reynt að drekka minna eða hætta því alveg, en þér tekst það ekki.

 Fimm ráð sem geta hjálpað þér að hafa stjórn á áfengisneyslu þinni

 1. Gerðu áætlun.

 Í Biblíunni segir: „Áform hins iðna leiða til góðs.“ – Orðskviðirnir 21:5.

 Prófaðu þetta: Veldu hvaða daga vikunnar þú munir drekka. Settu hóflegt takmark á það hve marga drykki þú megir drekka á þeim dögum. Taktu frá að minnsta kosti tvo daga í viku sem þú drekkur ekki.

 „Að taka sér reglulega pásu frá áfengi er besta leiðin til að minnka hættuna á að verða háður því,“ segir bresk góðgerðarstofnun sem stendur fyrir áfengisfræðslu.

 2. Fylgdu áætlun þinni.

 Í Biblíunni segir: „Ljúkið nú [því] sem þið hófust handa við.“ – 2. Korintubréf 8:11.

 Prófaðu þetta: Kynntu þér hver sé hefðbundin stærð drykkja svo að þú getir mælt og talið drykkina rétt. Finndu þér holla og óáfenga drykki sem þér finnst góðir og hafðu þá við höndina.

 „Smávægilegar breytingar geta gert gæfumuninn þegar kemur að því að minnka líkurnar á áfengisvanda,“ segir Bandaríska áfengis- og vímuvarnarstofnunin.

 3. Haltu þig við ákvarðanir þínar.

 Í Biblíunni segir: „Látið ‚já‘ ykkar merkja já og ‚nei‘ ykkar nei.“ – Jakobsbréfið 5:12.

 Prófaðu þetta: Vertu tilbúinn að segja „nei“ á vinsamlegan en ákveðinn hátt þegar einhver býður þér drykk sem passar ekki inn í áætlun þína.

 „Því fyrr sem þú afþakkar þessi boð því ólíklegra er að þú gefir eftir,“ segir Bandaríska áfengis- og vímuvarnarstofnunin.

 4. Einbeittu þér að því hvernig ákvarðanir þínar eru þér til góðs.

 Í Biblíunni segir: „Betri er endir máls en upphaf þess.“ – Prédikarinn 7:8.

 Prófaðu þetta: Gerðu lista yfir ástæðurnar fyrir því að þú vilt hafa stjórn á áfengisneyslu þinni. Taktu betri svefn, heilsu, fjárhag og sambönd með í myndina. Beindu athyglinni að gagninu frekar en áskorununum ef þú talar við aðra um ákvarðanir þínar.

 5. Leitaðu til Guðs til að fá stuðning.

 Í Biblíunni segir: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – Filippíbréfið 4:13.

 Prófaðu þetta: Biddu til Guðs um hjálp ef þú hefur áhyggjur af drykkju þinni. Biddu hann um styrk og sjálfsstjórn. b Og taktu þér tíma til að fræðast um þá hagnýtu visku sem er að finna í orði hans, Biblíunni. Þú getur haft stjórn á áfengisneyslu þinni þegar hann er með þér í liði.

a Til dæmis segir Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið í Bandaríkjunum áhættudrykkju vera „það að konur drekki 4 eða fleiri drykki á einum degi eða 8 eða fleiri drykki á viku og að karlar drekki 5 eða fleiri drykki á einum degi eða 15 eða fleiri drykki á viku“. Stærðir drykkja eru misjafnar eftir löndum og því væri skynsamlegt fyrir þig að tala við lækninn þinn til að staðfesta hvað sé talin hófleg neysla áfengis fyrir þig.

b Ef þú getur ekki haft stjórn á drykkju þinni gætirðu einnig þurft að fá aðstoð fagfólks.