Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er uppruni alheimsins og lífsins?

Hver er uppruni alheimsins og lífsins?

Hver er uppruni alheimsins og lífsins?

„Vísindin eru fötluð án trúarinnar og trúin er blind án vísindanna.“ — Albert Einstein.

VIÐ lifum tíma ótrúlegra nýjunga, meiri en áður hafa þekkst. Stjörnufræðingar eru að endurskoða hugmyndir sínar um uppruna alheimsins sökum nýrra uppgötvana um geiminn. Margir heillast af alheiminum og spyrja hinna ævafornu spurninga sem tilvist okkar kveikir: Hvernig varð alheimurinn til, hvernig kviknaði lífið og hvers vegna?

Ef við horfum í hina áttina — inn í mannslíkamann — vakna aðrar spurningar, meðal annars með hliðsjón af því að nú er búið að kortleggja erfðamengi mannsins: Hvernig urðu öll hin ólíku lífsform til? Og hver skapaði þau, ef einhver? Svo margslungnar eru „erfðateikningar“ mannsins að fyrrverandi forseta Bandaríkjanna varð að orði: „Við erum að læra tungumálið sem Guð notaði er hann skapaði lífið.“ Einn af fremstu vísindamönnum, sem unnið hefur að því að kortleggja genamengi mannsins, sagði auðmjúkur í bragði: „Við höfum séð fyrstu svipmyndina af handbók sjálfra okkar sem Guð einn þekkti áður.“ En stóru spurningunum er enn ósvarað — hvernig og hvers vegna?

„Tveir gluggar“

Sumir vísindamenn halda því fram að hægt sé að skýra starfsemi alheimsins frá upphafi til enda með rökgreiningu. Guðleg viska sé því óþörf. En margir, þeirra á meðal vísindamenn, eru ekki sáttir við þessa afstöðu. Þeir reyna að skilja veruleikann bæði með hliðsjón af trú og vísindum. Þeir líta svo á að vísindin geti frætt okkur um hvernig lífið og alheimurinn urðu til en trúin fjalli fyrst og fremst um spurninguna: Hvers vegna?

Eðlisfræðingurinn Freeman Dyson segir um þessa tvíþættu aðferð: „Vísindi og trú eru tveir gluggar sem fólk horfir út um til að reyna að skilja hinn mikla alheim fyrir utan.“

„Vísindin fást við hið mælanlega en trúin við hið ómælanlega,“ segir rithöfundurinn William Rees-Mogg. „Vísindin geta hvorki sannað né afsannað tilvist Guðs, ekkert frekar en þau geta sannað eða afsannað eitthvert siðferðilegt eða fagurfræðilegt gildi. Það eru engin vísindaleg rök fyrir því að elska náungann eða virða mannslíf . . . Það eru einhver stórkostlegustu mistök að halda því fram að ekkert sé til nema hægt sé að sanna það með vísindalegum aðferðum. Þá myndum við útiloka nálega allt sem við metum mikils í lífinu, ekki aðeins Guð eða mannsandann heldur einnig ást, ljóðlist og tónlist.“

„Trúarbrögð“ vísindanna

Kenningar vísindamanna virðast oft byggðar á forsendum sem útheimta vissa trú. Svo að dæmi sé tekið aðhyllast flestir þróunarsinnar hugmyndir um uppruna lífsins sem heimta trú á vissar „kenningar.“ Staðreyndum og kenningum er blandað saman. Og þegar vísindamenn ýta undir blinda trú á þróun lífsins í krafti myndugleika síns eru þeir í reynd að segja: ‚Þú ert ekki ábyrgur fyrir siðferði þínu því að þú ert bara afsprengi líf-, efna- og eðlisfræðilegra aðstæðna.‘ Líffræðingurinn Richard Dawkins segir að í alheiminum sé ‚engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, ekkert nema tilgangslaust afskiptaleysi.‘

Sumir vísindamenn kjósa að verja slíka trú með því að hunsa viðamiklar rannsóknir annarra vísindamanna sem stangast á við þær tilgátur sem kenningar þeirra um uppruna lífsins eru byggðar á. Sýnt hefur verið fram á að það sé stærðfræðilega óhugsandi að hinar flóknu sameindir, sem þarf til að mynda starfhæfa, lifandi frumu, hafi myndast af tilviljun, jafnvel þó að gert sé ráð fyrir milljörðum ára. * Það verður því að líta svo á að þær kreddukenndu kenningar um uppruna lífsins, sem finna má í ótal kennslubókum, fái ekki staðist.

Það þarf meiri trú til að álíta að lífið hafi myndast af hreinni tilviljun heldur en að það hafi verið skapað. Stjörnufræðingurinn David Block segir: „Það þarf meiri trú til að afneita skapara en að trúa á hann. Sá sem staðhæfir að Guð sé ekki til er með rakalausa, almenna fullyrðingu — hann gefur sér forsendu byggða á trú.“

Vísindalegar uppgötvanir geta vakið djúpa lotningu með vísindamönnum. Albert Einstein viðurkenndi: „Það er sjaldgæft að mikill hugsuður í hópi vísindamanna ali ekki með sér einhverjar trúarhugmyndir. . . . Trúarhugmyndir hans birtast í hrifningu og undrun yfir samræmi náttúrulögmálanna sem vitna um slíka yfirburðavitsmuni að öll kerfisbundin hugsun og hegðun mannsins er eins og nauðaómerkileg eftirlíking.“ En þessi lotning gerir ekki endilega að verkum að vísindamenn trúi á skapara, á Guð sem persónu.

Takmörk vísindanna

Það er rétt að virða afrek vísindanna og þá þekkingu sem þau hafa veitt okkur. En margir eru jafnframt þeirrar skoðunar að vísindin séu ekki eina þekkingaruppsprettan, þó svo að þau veiti okkur verðmæta þekkingu. Tilgangur vísindanna er að lýsa fyrirbærum náttúrunnar og auðvelda okkur að finna svar við því hvernig þau eiga sér stað.

Vísindin dýpka skilning okkar á efnisheiminum, það er að segja öllu sem hægt er að rannsaka. En óháð því hve miklar framfarir verða í vísindum geta þau aldrei svarað spurningunni um tilgang — hvers vegna alheimurinn er yfirleitt til.

„Það eru ýmsar spurningar sem vísindamenn geta aldrei svarað,“ segir rithöfundurinn Tom Utley. „Það getur vel verið að Miklihvellur hafi átt sér stað fyrir 12 milljörðum ára. En hvers vegna? . . . Hvernig urðu öreindirnar til í upphafi? Hvað var til á undan þeim?“ Utley kemst að þeirri niðurstöðu að „það virðist . . . ljósara en nokkru sinni fyrr að vísindin nái aldrei að svala þorsta mannsins eftir svörum.“

Sú vísindaþekking, sem forvitni mannsins hefur aflað honum, hefur alls ekki afsannað tilvist Guðs heldur einungis staðfest í hve gífurlega flóknum, margbrotnum og mikilfenglegum heimi við lifum. Mörgu hugsandi fólki þykir það skynsamleg ályktun að eðlisfræðilögmálin og efnahvörfin, svo og erfðalykillinn og hin endalausa fjölbreytni lífsins, vitni um að til sé skapari. Það er engin óyggjandi sönnun fyrir hinu gagnstæða.

‚Trúin byggist á veruleika‘

Ef alheimurinn á sér skapara getum við ekki ætlast til þess að stjörnusjónaukar, smásjár eða önnur rannsóknartæki vísindanna geti gefið okkur skilning á honum og markmiðum hans. Tökum leirkerasmið og smíð hans sem dæmi. Við getum rannsakað leirkerið endalaust án þess að finna út hvers vegna það var búið til. Til að fá svar við því verðum við að spyrja leirkerasmiðinn sjálfan.

Sameindalíffræðingurinn Francis Collins bendir á hvernig trú og trúhneigð geti fyllt upp í það tómarúm sem vísindin skilja eftir: „Ég ímynda mér ekki að trúin sé rétta tækið til að raðgreina genamengi mannsins og að sama skapi ímynda ég mér ekki að vísindin séu rétta leiðin til að afla vitneskju um hið yfirnáttúrlega. En mér finnst vísindin ófullnægjandi til að svara áhugaverðustu og stærstu spurningunum eins og: ‚Hvers vegna erum við til?‘ eða ‚Af hverju stafar trúarþörf mannsins?‘ Alls konar hjátrúarhugmyndir hafa komið og farið en trúin ekki. Það bendir til þess að hún byggist á veruleika.“

Hvar er svörin að finna?

Sönn trú svarar ekki aðeins spurningunum hvers vegna lífið sé til og hver sé tilgangur þess heldur býður einnig upp á mælikvarða um siðferði og gildismat, auk þess að veita almenna leiðsögn um líf og líferni. Vísindamaðurinn Allan Sandage orðaði það þannig: „Ég fletti ekki upp í líffræðibók til að leita leiðsagnar í lífinu.“

Milljónir manna um heim allan telja sig hafa komist að raun um hvar eigi að leita leiðsagnar í lífinu. Og þeir telja sig hafa fengið fullnægjandi svör við spurningunum: Hvers vegna erum við til? Og hvað verður um okkur? Það eru til svör við þessum spurningum og þau er að finna í elsta og útbreiddasta helgiriti veraldar, Biblíunni.

Í Biblíunni er sagt frá því að Guð hafi gert jörðina sérstaklega fyrir manninn. Jesaja 45:18 segir um jörðina: „Guð . . . hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ Og hann gerði jörðina þannig úr garði að mennirnir gætu ekki aðeins lifað heldur jafnframt notið lífsins til hins ýtrasta.

Manninum var falin umsjón með jörðinni ‚til að yrkja hana og gæta hennar.‘ (1. Mósebók 2:15) Biblían segir jafnframt að þekking og viska séu gjafir Guðs og að okkur beri að elska hvert annað og vera réttsýn gagnvart öðrum. (Jobsbók 28:20, 25, 27; Daníel 2:20-23) Til að finna tilgang lífsins þurfum við mennirnir að kynna okkur vilja Guðs og viðurkenna þann tilgang sem hann hefur með okkur. *

Hvernig getur upplýstur nútímamaður brúað bilið sem virðist aðskilja trú og vísindi? Hvaða meginreglur getur hann haft að leiðarljósi til þess að gera það?

[Neðanmáls]

^ Sjá bókina Er til skapari sem er annt um okkur?, 3. kafla, „Hvernig varð lífið til?“ Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

^ Ítarlegri umfjöllun er að finna í bæklingnum Hver er tilgangur lífsins? Hvernig getur þú fundið hann? gefinn út af Vottum Jehóva.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 7]

Afstaða sumra vísindamanna

Sumir halda að vísindamenn forðist yfirleitt umræður um trú og guðfræði, enda séu þeir ekki trúaðir og vilji ekki blanda sér í deiluna um trú og vísindi. Sumir vísindamenn taka reyndar þessa afstöðu en hvergi nærri allir. Lítum á dæmi um sjónarmið nokkurra vísindamanna.

„Alheimurinn á sér upphaf en vísindamenn geta ekki skýrt hvers vegna. Svarið er Guð.“ „Ég álít Biblíuna bók sannleikans og innblásna af Guði. Lífið er svo margbrotið að það hljóta að búa vitsmunir að baki því.“ — Ken Tanaka, stjörnujarðfræðingur hjá U.S. Geological Survey.

„Gjáin milli ólíkra þekkingarsviða (vísinda- og trúarlegra) er að miklu leyti búin til af mönnum. . . . Þekking á skaparanum er nátengd þekkingu á sköpuninni.“ — Enrique Hernández, rannsóknarmaður og prófessor við deild eðlisfræði og fræðilegrar efnafræði við Universidad Nacional Autónoma de México.

„Er við vinnum úr öllum þessum upplýsingum [um genamengi mannsins] sýnum við fram á hve margbrotið allt þetta efni er og innbyrðis háð. Það mun benda á að upphafsins er að leita hjá viti bornum skapara, viti bornu afli.“ — Duane T. Gish, lífefnafræðingur.

„Trú og vísindi eiga fyllilega saman. Bæði eru að leita að sama sannleika. Vísindin sýna fram á að Guð er til.“ — D.H.R. Barton, prófessor í efnafræði í Texas.

[Credit lines]

NASA/U.S. Geological Survey

Ljósmynd: www.comstock.com

NASA og The Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

[Myndir á blaðsíðu 5]

Geta vísindarannsóknir leitt í ljós hvers vegna við erum til?

[Mynd credit line]

Með góðfúslegu leyfi Arecibo Observatory/David Parker/Science Photo Library.

[Mynd credit line á blaðsíðu 6]

Stjörnur á bls. 2, 3, 5 og efst á bls. 7: National Optical Astronomy Observatories