Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getur mér samið betur við systkini mín?

Hvernig getur mér samið betur við systkini mín?

Ungt fólk spyr

Hvernig getur mér samið betur við systkini mín?

Hvernig myndirðu lýsa sambandi þínu við systkini þín, hvert og eitt?

․․․․․ Bestu vinir

․․․․․ Kemur oftast vel saman

․․․․․ Umberum hvort annað

․․․․․ Alltaf að rífast

SUM systkini eru mjög náin. Til dæmis segir Felicia en hún er 19 ára: „Irena systir mín, sem er 16 ára, er ein besta vinkona mín.“ * Og Carly, sem er 17 ára, segir um Eric bróður sinn en hann er tvítugur: „Okkur kemur ótrúlega vel saman. Við rífumst aldrei.“

Aftur á móti eru sum systkini eins og Lauren og Marla. „Við erum alltaf að rífast,“ segir Lauren, „jafnvel um smávægilegustu hluti.“ Kannski líður þér eins og Alice sem er 12 ára. Hún segir um 14 ára bróður sinn: „Dennis fer svo í taugarnar á mér! Hann ryðst inn í herbergið mitt og fær ,lánaða‘ hluti án þess að spyrja. Hann hagar sér eins og smábarn.“

Áttu systkini sem fer í taugarnar á þér? Það er auðvitað hlutverk foreldra þinna að halda uppi aga á heimilinu en fyrr eða síðar þarftu að læra að láta þér lynda við aðra. Og þú getur lært það á meðan þú býrð enn heima.

Hver er helsta ástæðan fyrir því að þú rífst við bróður þinn eða systur? Skoðaðu listann hér að neðan og settu ✔ í viðeigandi reit eða skrifaðu niður það ágreiningsefni sem veldur þér mestri gremju.

Eigur. Systkini mitt fær hlutina mína „lánaða“ án þess að spyrja mig.

Árekstrar. Systkini mitt er eigingjarnt eða tillitslaust eða reynir að ráðskast með mig.

Einkalíf. Systkini mitt ryðst inn í herbergið mitt án þess að banka eða les tölvupóstinn minn eða SMS-skilaboð án þess að spyrja mig um leyfi.

Annað. ․․․․․

Ef systkini þitt er endalaust að skaprauna þér — skipar þér fyrir eða lætur þig ekki í friði — gæti verið erfitt að halda aftur af gremjunni. Orðskviður í Biblíunni segir: „Sé slegið á nasir blæðir, sé egnt til reiði vakna deilur.“ (Orðskviðirnir 30:33) Ef þú er sleginn á nefið er líklegt að þú fáir blóðnasir og á svipaðan máta er líklegt að það endi með reiðikasti ef þú byrgir inni gremju. Og það gerir bara illt verra. (Orðskviðirnir 26:21) Hvernig geturðu komið í veg fyrir að smávægilegur ágreiningur endi í hörkurifrildi? Fyrsta skrefið er að komast að því hvað liggur raunverulega að baki ágreiningnum.

Einstaka atvik eða undirliggjandi vandamál?

Ágreiningi systkina mætti líkja við bólur. Bóla sést á yfirborðinu sem lítið og óskemmtilegt útbrot á húð en ástæðan er sýking undir húðinni. Á svipaðan hátt er rifrildi systkina oft bara sýnilegt merki um vandamál sem liggur að baki ágreiningnum.

Þú gætir reynt að kreista bóluna en þá tækirðu einungis á sýnilegri orsök húðvandamálsins og þú gætir jafnvel fengið ör eða gert sýkinguna verri. Betra væri að meðhöndla sýkinguna undir húðinni og reyna þannig að koma í veg fyrir frekari útbrot. Það sama gildir um ágreining milli systkina. Lærðu að koma auga á vandamálið sem liggur að baki ágreiningnum. Þá geturðu frekar horft fram hjá leiðinlegu atviki og ráðist beint að rót vandans. Þá ertu líka að fylgja leiðbeiningum hins vitra konungs Salómons sem skrifaði: „Það er viska að vera seinn til reiði.“ — Orðskviðirnir 19:11.

Tökum sem dæmi atvik sem minnst var á fyrr í greininni. Alice sagði um Dennis bróður sinn: „Hann ryðst inn í herbergið mitt og fær ,lánaða‘ hluti án þess að spyrja.“ Það er atvikið. En hvert heldurðu að raunverulega vandamálið sé? Málið snýst að öllum líkindum um virðingu. *

Alice gæti tekið á vandamálinu með því að segja Dennis að hann megi aldrei koma inn í herbergið hennar eða nota hlutina hennar. En sú aðferð myndi ekki leysa vandann heldur líklega leiða til frekari árekstra. Ef Alice gæti á hinn bóginn sannfært Dennis um að honum beri að virða eigur hennar og rétt á einkalífi myndi samband þeirra að öllum líkindum batna.

Lærðu að leysa ágreining eða koma í veg fyrir hann

Að koma auga á vandamálið sem liggur að baki ágreiningi ykkar systkinanna er aðeins eitt skref í rétta átt. Hvað geturðu gert til að leysa málið og koma í veg fyrir frekari árekstra? Reyndu að fylgja næstu sex skrefum.

1. Komist að samkomulagi um nokkrar grundvallarreglur. „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin,“ skrifaði Salómon konungur. (Orðskviðirnir 15:22) Til að koma í veg fyrir rifrildi skaltu rifja upp hvað lá að baki ágreiningnum á milli ykkar. Reynið að koma ykkur saman um reglur sem þið getið bæði verið sátt við og komast fyrir raunverulegar rætur vandans. Ef þið til dæmis rífist um eigur gæti regla númer eitt hljóðað svona: „Alltaf skal spyrja um leyfi áður en eigur annarra eru teknar.“ Regla númer tvö gæti verið: „Virða skal rétt systkinis til að segja: ,Nei, þú getur ekki fengið þetta að láni.‘“ Þegar þið semjið reglurnar skuluð þið hugsa um orð Jesú: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matteus 7:12) Þannig getið þið búið til reglur sem bæði geta verið sátt við. Ræðið síðan við foreldra ykkar og leitið samþykkis þeirra fyrir reglunum. — Efesusbréfið 6:1.

2. Fylgdu reglunum sjálf(ur). Páll postuli skrifaði: „Þú sem fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Þú prédikar að ekki skuli stela og stelur þó.“ (Rómverjabréfið 2:21) Hvernig geturðu fylgt þessu ráði? Ef þú vilt til dæmis að systkini þitt virði rétt þinn til einkalífs verður þú að gera hið sama. Ekki ryðjast inn í herbergi bróður þíns eða systur án þess að banka og biddu um leyfi áður en þú lest tölvupóst eða SMS-skilaboð hans eða hennar.

3. Vertu ekki uppstökk(ur). Hvers vegna er þetta gott ráð? Í Biblíunni segir: „Gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ (Prédikarinn 7:9) Ef þú æsist auðveldlega upp verður lífið ekki auðvelt. Auðvitað er ekki hægt að koma í veg fyrir að systkini þitt segi eða geri eitthvað sem kemur þér úr jafnvægi en spyrðu sjálfa(n) þig: Hef ég sagt eða gert eitthvað ámóta við hann eða hana? (Matteus 7:1-5) „Þegar ég var 13 ára,“ segir Jenny, „fannst mér mínar skoðanir vera mikilvægastar og að allir ættu að taka tillit til þeirra. Núna er yngri systir mín að ganga í gegnum sama þroskastig og ég reyni að æsa mig ekki yfir því sem hún segir.“

4. Fyrirgefðu og gleymdu. Alvarleg vandamál þarf að ræða og leysa. En þarftu að taka upp við systkini þitt öll þau mistök sem því verður á? Jehóva Guð kann að meta þá sem „láta rangsleitni ekki á sig fá“. (Orðskviðirnir 19:11) Alison, sem er 19 ára, segir: „Við Rachel systir mín getum vanalega leyst ágreining okkar. Við erum báðar fljótar til að biðjast fyrirgefningar og útskýrum síðan hvað okkur fannst koma missættinu af stað. Stundum læt ég einn dag líða áður en ég ræði ákveðið vandamál. Oft virðist það hafa gufað upp yfir nóttina og ég þarf ekki einu sinni að minnast á það.

5. Biddu foreldra þína um hjálp við að leysa ágreining. Ef þið systkinin getið ekki leyst úr mikilvægu máli geta foreldrar ykkar hjálpað til við að koma á sáttum. (Rómverjabréfið 14:19) Hafðu samt sem áður hugfast að þegar ykkur tekst að leysa málin án þess að biðja foreldra ykkar um hjálp sýnið þið ákveðið merki um þroska.

6. Lærðu að meta systkini þín. Systir þín eða bróðir hafa mjög líklega til að bera eiginleika sem þú dáist að. Skrifaðu niður eitt af því sem þú kannt að meta í fari þeirra.

Nafn Það sem ég kann að meta

․․․․․ ․․․․․

Í stað þess að einblína á galla bróður þíns eða systur væri þá ekki ráð að leita færis að segja þeim að hverju þú dáist í fari þeirra? — Sálmur 130:3; Orðskviðirnir 15:23.

Staðreynd: Eftir að þú flytur að heiman þarftu stundum að umgangast fólk sem fer í taugarnar á þér — vinnufélaga og aðra sem eru ókurteisir, tillitslausir og eigingjarnir. Á meðan þú býrð enn heima geturðu lært hvernig á að halda friðinn við slíkar aðstæður. Ef þú átt bróður eða systur sem er erfitt að láta sér lynda við skaltu líta á jákvæðu hliðina. Systkini þitt hjálpar þér að rækta með þér góða eiginleika sem þú hefur not fyrir síðar meir.

Biblían viðurkennir að bróðir eða systir séu ekki endilega nánustu vinir manns í lífinu. (Orðskviðirnir 18:24) En þú getur styrkt samband þitt við systkini þín ef þú sýnir umburðarlyndi jafnvel þótt þú ,hafir sök á hendur þeim‘. (Kólossubréfið 3:13) Ef þú gerir það munu systkini þín að öllum líkindum fara minna í taugarnar á þér. Og þú jafnvel minna í taugarnar á þeim!

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ Frekari leiðbeiningar er að finna í rammanum hér að neðan.

TIL UMHUGSUNAR

● Hvers vegna er mikilvægt að koma auga á vandamálið sem liggur að baki ágreiningi?

● Hverju þarftu sérstaklega að vinna í af þeim sex skrefum sem minnst var á hér að ofan?

[Rammi á bls. 27]

AÐ KOMA AUGA Á RÓT VANDANS

Áttu stundum í erjum við systkini? Viltu verða færari í að koma auga á rót vandans? Lestu þá dæmisögu Jesú af syninum sem fór að heiman og sóaði föðurarfinum. — Lúkas 15:11-32.

Skoðaðu vel hvernig eldri bróðirinn brást við þegar sá yngri sneri aftur heim. Svaraðu síðan eftirfarandi spurningum.

Hvaða atvik varð til þess að eldri bróðirinn brást við eins og hann gerði?

Hvað heldurðu að hafi raunverulega legið að baki þessum viðbrögðum?

Hvernig reyndi faðirinn að leysa vandann?

Hvað hefði eldri bróðirinn þurft að gera til að leysa vandann?

Rifjaðu nú upp nýlegt rifrildi sem þú hefur lent í við systkini þitt. Skrifaðu síðan svörin við spurningunum hér að neðan.

Hvað kom rifrildinu af stað?

Hvaða vandamál heldurðu að liggi að baki þessum ágreiningi?

Hvaða grundvallarreglur gætuð þið komið ykkur saman um sem taka á þessum vanda og koma í veg fyrir frekari árekstra?

[Rammi/myndir á bls. 28, 29]

HVAÐ SEGJA JAFNALDRARNIR?

„Ég vil eiga systur mínar að vinkonum alla ævi, svo að það er eins gott að byrja á því verkefni strax.“

„Við gerum ýmislegt saman sem fjölskylda og það sameinar okkur. Það hefur orðið til þess að við rífumst ekki eins mikið og áður.“

„Að sumu leyti erum við jafn ólíkar og dagur og nótt. En systir mín er samt alveg einstök og ég vildi ekki vera án hennar!“

„Án systkina minna ætti ég ekki jafn dýrmætar minningar. Skilaboð mín til þeirra sem eiga systkini eru þessi: ,Ekki líta á þau sem sjálfsagðan hlut!‘“

[Myndir]

Tia

Bianca

Samantha

Marilyn

[Mynd á bls. 27]

Ágreiningi systkina mætti líkja við bólur — til að vinna bug á þeim þarf að meðhöndla sýkinguna undir húðinni — það er ekki nóg að kreista bóluna.