Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bók sem þú getur treyst — 3. hluti

Babýlon og biblíusagan

Bók sem þú getur treyst — 3. hluti

Þetta er þriðja greinin af sjö í tímaritinu „Vaknið!“ þar sem fjallað er um þau sjö heimsveldi sem koma við sögu í Biblíunni. Markmiðið er að sýna fram á að Biblían sé trúverðug, að hún sé innblásin af Guði og að boðskapur hennar veiti von um að endir verði á þeim þjáningum sem stafa af óstjórn manna.

BORGIN Babýlon stóð á frjósömu sléttlendi um 80 kílómetra suður af Bagdad. Þetta var mikilfengleg borg. Kringum hana var rammger, tvöfaldur múr ásamt síki. Borgin virtist óvinnandi. Hún var nafntoguð fyrir hengigarða sína, turna og tignarleg musteri. Babýlon var tvímælalaust ein stórfenglegasta borg fortíðar.

Í Biblíunni er hún kölluð „drottning konungsríkja“ og var höfuðborg þriðja heimsveldisins sem kemur við sögu í Biblíunni. (Jesaja 47:5) Heimsveldið Babýlon fór með stórt hlutverk í biblíusögunni, ekki síður en Egyptaland og Assýría höfðu gert. Við getum því borið saman lýsingar Biblíunnar og veraldlegar heimildir.

Trúverðug saga

Í Daníelsbók í Biblíunni segir frá því að Belsassar nokkur hafi um tíma verið konungur í Babýlon. (Daníel 5:1) Í sumum veraldlegum heimildum var því hins vegar haldið fram á árum áður að Belsassar hefði aldrei verið konungur, þótt voldugur væri. Fór Biblían þá með rangt mál? Fornleifafræðingar hafa fundið marga sívalninga úr leir í rústum borgarinnar Úr í Mesópótamíu. Í fleygrúnaáletrun á einum þeirra er bæn þar sem Nabónídus, konungur í Babýlon, biður fyrir ,Bel-sar-ússur, elsta syni sínum‘. Fleiri fornleifafundir hafa staðfest að Belsassar hafi verið „meðstjórnandi föður síns meira en hálfa stjórnartíð hans og hafi í reynd verið konungur á þeim tíma“. — New Bible Dictionary.

Söguheimildir sýna einnig fram á að trúarlífið blómstraði í Babýlon og gríðarleg áhersla var lögð á stjörnuspeki og forspár. Sem dæmi má nefna að í Esekíel 21:27 kemur fram að konungur Babýlonar hafi ,leitað goðsvars‘ til að ákveða hvort hann ætti að ráðast á Jerúsalem. Hann „skoðaði lifrina,“ segir í Biblíunni. Af hverju gerði hann það? Babýloníumenn voru vanir að nota þetta líffæri til að leita fyrirboða. Í bókinni Mesopotamian Astrology kemur fram að á einum stað í Babýlon hafi fornleifafræðingar fundið 32 lifrarlíkön úr leir sem rist voru fyrirboðum.

Hinn þekkti fornleifafræðingur Nelson Glueck sagði einu sinni: „Ég hef stundað uppgröft í 30 ár með Biblíuna í annarri hendi og múrskeið í hinni, og ég hef aldrei rekist á dæmi um sögulega skekkju í Biblíunni.“

„Ég hef stundað uppgröft í 30 ár . . . og ég hef aldrei rekist á dæmi um sögulega skekkju í Biblíunni.“ — Nelson Glueck

Áreiðanlegir spádómar

Hvernig myndirðu bregðast við ef þér væri sagt að stór og fjölmenn höfuðborg eins og Peking, Moskva eða Lundúnir myndi leggjast í eyði? Þú yrði efins og það með réttu. En þannig fór fyrir Babýlon. Jehóva Guð innblés hebreska spámanninum Jesaja að skrifa eftirfarandi spádóm um fall hinnar voldugu borgar. Það var árið 732 f.Kr., um 200 árum áður en borgin féll. Jesaja skrifaði: „Fyrir Babýlon, prýði konungsríkja . . . mun fara eins og Sódómu og Gómorru þegar Guð umturnaði þeim. Hún verður aldrei framar mönnum byggð, enginn sest þar að, kynslóð eftir kynslóð.“ — Jesaja 13:19, 20.

En af hverju skyldi Guð hafa boðað að Babýlon myndi leggjast í eyði? Árið 607 f.Kr. hafði her Babýloníumanna eytt Jerúsalem. Þeir fluttu þá sem eftir lifðu til Babýlonar og fóru mjög illa með þá. (Sálmur 137:8, 9) Guð lét vita að þjóð hans þyrfti að gjalda vondra verka sinna og þola þessa illu meðferð í 70 ár. Síðan ætlaði hann að frelsa þjóðina og leyfa henni að snúa heim á nýjan leik. — Jeremía 25:11; 29:10.

Það fór eins og spáð var í orði Guðs. Sameinaður her Meda og Persa vann hina „ósigrandi“ Babýlon árið 539 f.Kr., rétt áður en 70 ára útlegð Júdamanna var á enda. Þegar fram liðu stundir varð borgin rústahaugar einir, alveg eins og spáð hafði verið. Menn eru ófærir um að segja fyrir svona óvenjuleg umskipti. Ljóst er að spádómsgáfan aðgreinir höfund Biblíunnar, hinn sanna Guð Jehóva, frá öllum öðrum guðum. — Jesaja 46:9, 10.

Loforð sem þú getur treyst

Annar spádómur er að rætast á athyglisverðan hátt nú á tímum. Þessi spádómur tengist Nebúkadnesari konungi í Babýlon og gríðarmiklu líkneski sem hann sá í draumi. Líkneskið skiptist í fimm hluta, höfuð, brjóst og handleggi, kvið og lendar, fótleggi og svo fætur, og var hver hluti úr ólíkum efnum. (Daníel 2:31-33) Líkamshlutarnir fimm táknuðu stjórnir eða ríki sem tóku við hvert af öðru, allt frá Babýlon fram að ensk-ameríska heimsveldinu en það er sjöunda heimsveldi biblíusögunnar. — Daníel 2:36-41.

Daníel upplýsir að í fótum og tám líkneskisins verði eftirtektarverð breyting á efnasamsetningunni. Þar tekur við blanda af járni og leir í stað hreinna málma eins og eru annars staðar í líkneskinu. Daníel gefur Nebúkadnesari þessa skýringu: „Þú sást að járni var blandað í leirinn. Það merkir að giftingar leiða til samrunans en ekki til samlögunar fremur en að járn og leir blandist saman.“ (Daníel 2:43) Það leiðir „ekki til samlögunar“ að blanda saman járni og leir. Fætur líkneskisins eru því brothættir. Þetta er óneitanlega nákvæm lýsing á hinni pólitísku sundrung sem er í heiminum núna.

Daníel bendir einnig á aðra þýðingarmikla framvindu. Í draumi sínum sá Nebúkadnesar stein sem losnaði úr stóru fjalli. Steininum var kastað og hann „lenti á fótum líkneskisins, gerðum úr járni og leir, og mölvaði þá“. (Daníel 2:34) Hvað merkir það? Daníel svarar: „Á dögum þessara konunga,“ það er að segja síðasta heimsveldisins, „mun Guð himnanna magna upp ríki sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“ (Daníel 2:44) Spádómurinn fjallar um ríki sem er ólíkt öllu öðru stjórnarfari sem menn þekkja. Konungur þess er Jesús Kristur, Messías. Eins og áður hefur komið fram í þessari greinaröð á Jesús eftir að útrýma Satan og fylgjendum hans, bæði mennskum og ómennskum, og koma á friði og einingu um allan alheim. — 1. Korintubréf 15:25.