Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Að eiga tjáskipti við unglinginn

Að eiga tjáskipti við unglinginn

VANDINN

Meðan hann var barn talaði hann við þig um alla heima og geima. En nú er hann orðinn unglingur og það er varla hægt að draga orð upp úr honum. Þegar þú reynir að tala við hann eru svörin annaðhvort snubbótt eða þið farið að rífast og allt fer í bál og brand.

Þú getur lært að ræða við unglinginn. En áður en við skoðum það skulum við líta á tvennt sem getur átt sinn þátt í þessum vanda.

ÁSTÆÐAN

Sjálfstæðisþörfin. Til að verða ábyrgur einstaklingur þarf unglingurinn að færa sig smám saman úr farþegasætinu í bílstjórasætið, ef svo má að orði komast, og læra að aka um torfærur lífsins. Sumir unglingar vilja að sjálfsögðu fá meira frjálsræði en þeim er hollt, og sumir foreldrar mættu alveg veita krökkunum sínum meira frelsi. Þetta getur valdið mikilli togstreitu og innri baráttu bæði hjá foreldrum og unglingum. „Foreldrar mínir reyna að stjórna öllu sem ég geri, bæði smáu og stóru,“ segir Benni * en hann er 16 ára. „Ef þau gefa mér ekki meira frelsi flyt ég að heiman þegar ég verð 18 ára.“

Rökhugsun. Börn sjá hlutina gjarnan í svörtu og hvítu en þegar þau vaxa úr grasi átta þau sig á að það eru líka til margir gráir tónar. Þetta er mikilvægur þáttur í því að rökhugsa og hjálpar ungu fólki að þroska með sér góða dómgreind. Í huga barns er sanngirni ósköp einfalt mál: „Mamma braut köku í tvennt og gaf mér annan helminginn og bróður mínum hinn.“ Í þessu tilviki er sanngirnishugtakið bara reikningsdæmi. Unglingar gera sér hins vegar grein fyrir því að sanngirni er miklu flóknara mál en þetta. Sanngjörn meðferð merkir ekki alltaf sama meðferð og sama meðferð er ekki alltaf sanngjörn meðferð. Með því að rökhugsa lærir unglingurinn að kljást við flókin viðfangsefni af þessu tagi. En það getur dregið þann dilk á eftir sér að unglingurinn fari líka að kljást við þig.

 HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Grípið góðar stundir til að spjalla saman. Sumir foreldrar hafa komist að raun um að unglingarnir opna sig frekar þegar þeir vinna húsverkin við hlið foreldra sinna eða eru á ferð með þeim í bíl heldur en þegar þeir sitja augliti til auglitis við þá. – Ráðlegging Biblíunnar: 5. Mósebók 6:6, 7.

Talið ekki of lengi. Þið þurfið ekki að ræða öll mál til þrautar. Segðu það sem þú vilt koma til skila . . . og hættu svo. Unglingurinn „heyrir“ síðar flest af því sem þú sagðir, þegar hann er einn út af fyrir sig og getur velt því fyrir sér. Gefðu honum tækifæri til þess. – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 1:1-4.

Hlustaðu og vertu sveigjanlegur. Hlustaðu vel – án þess að grípa fram í – til að þú getir áttað þig fyllilega á um hvað málið snýst. Vertu sanngjarn þegar þú svarar. Ef þú rígheldur í reglur er hætta á að unglingurinn reyni að finna einhverja smugu til að komast fram hjá þeim. „Það er þá sem krakkar fara að lifa tvöföldu lífi,“ segir í bókinni Staying Connected to Your Teenager. „Þeir segja foreldunum það sem þeir vilja heyra en gera svo eins og þeim sýnist þegar foreldrarnir sjá ekki til.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Títusarbréfið 3:2.

Haltu rónni. „Þegar við mamma erum ósammála æsir hún sig yfir öllu sem ég segi,“ segir Kata. „Það fer virkilega í taugarnar á mér og áður en varir erum við farnar að rífast.“ Gættu þess að bregðast ekki of harkalega við því sem unglingurinn segir heldur reyndu að taka undir það. Í stað þess að segja: „Þetta er nú ekkert til að hafa áhyggjur af,“ skaltu svara: „Ég skil að þú hefur áhyggjur af þessu.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 10:19.

Leiðbeindu frekar en að skipa fyrir. Unglingurinn þarf að æfa sig í að rökhugsa eins og hann sé að þjálfa vöðva. Þú gerir unglingnum engan greiða með því að hugsa fyrir hann og taka „þjálfunina“ af honum. Ræðið vandann sem hann á í og leyfðu honum að stinga upp á lausnum. Eftir að þið hafið hent á milli ykkar fáeinum hugmyndum gætirðu sagt: „Þetta eru nokkrir valkostir. Veltu þeim fyrir þér í einn eða tvo daga. Síðan getum við rætt um lausnina sem þér finnst best og þú getur sagt mér hvers vegna þér finnst það.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Hebreabréfið 5:14.

^ gr. 7 Nöfnum er breytt í þessari grein.