Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Átt þú á hættu að fá tannholdsbólgu?

Átt þú á hættu að fá tannholdsbólgu?

TANNHOLDSBÓLGA er einn algengasti sjúkdómur í munnholi. En fólk finnur yfirleitt ekki nein einkenni á byrjunarstigi sjúkdómsins. Tannholdsbólga er hættuleg sökum þess hve lítið hún lætur yfir sér. Samkvæmt tímaritinu International Dental Journal eru bólgusjúkdómar í stoðvefjum tanna á meðal þeirra munnholssjúkdóma sem eru „alvarleg ógn við lýðheilsu“. Tímaritið bætir við: „Áhrif [munnholssjúkdóma] á einstaklinga og samfélög, hvað varðar verki og vanlíðan, líkamlega getu og lífsgæði, eru umtalsverð.“ Þú getur dregið úr hættunni á tannholdsbólgu með því að fræðast um þennan útbreidda sjúkdóm.

Staðreyndir um tannholdsbólgu

Bólgum í stoðvefjum tanna má skipta niður í tvö stig. Fyrra stigið kallast tannholdsbólga (gingivitis) en hún lýsir sér þannig að bólgur myndast í tannholdinu. Eitt einkenni þessa stigs er blæðing úr tannholdi við tannburstun, notkun tannþráðar eða án sjáanlegrar ástæðu. Ef blæðir úr tannholdinu við skoðun hjá tannlækni getur það einnig verið merki um tannholdsbólgu.

Tannholdsbólga, sem ekkert er gert við, getur orðið að tannvegsbólgu (periodontitis). Þá byrja bein, tannhold og annað sem heldur tönnunum föstum að eyðast. Einkenni tannvegsbólgu koma stundum ekki í ljós fyrr en hún er komin á alvarlegt stig. Meðal einkenna eru tannholdspokar, lausar tennur, andremma, blæðing úr tannholdi og bil sem myndast á milli tanna. Einnig getur tannholdið byrjað að hörfa frá tönnunum en þá virka tennurnar lengri.

Orsakir og afleiðingar

Nokkrir þættir geta aukið hættuna á tannholdsbólgu. Tannsýkla er algengasta orsökin, en hún er bakteríuskán sem myndast reglulega á yfirborði tanna. Ef sýklan er ekki fjarlægð geta bakteríurnar valdið bólgu í tannholdinu. Þegar bólgan ágerist byrjar tannholdið að losna frá tönnunum. Sýklan getur þá smeygt sér undir tannholdsbrúnina. Þar breiðist bólgan út og byrjar að eyða beinum og tannholdi. Sýklan getur harðnað og orðið að tannsteini, hvort sem hún er fyrir ofan eða neðan tannholdsbrúnina. Yfirborð tannsteinsins er líka þakinn bakteríum. Og þar sem hann er mjög harður og loðir fast við tönnina er erfiðara að fjarlægja hann en tannsýkluna. Þannig geta bakteríur haldið áfram valda skemmdum á tannholdinu.

Fleiri þættir geta ýtt undir tannholdsbólgu, til dæmis slæm tannhirða, ónæmisbælandi lyf, veirusýkingar, streita, ómeðhöndluð sykursýki, óhófleg áfengisneysla, tóbaksnotkun og hormónabreytingar á meðgöngu.

Tannholdsbólga getur haft margs konar fylgikvilla. Verkir í tannholdi eða tannlos geta gert manni erfiðara fyrir að tyggja og njóta þess að borða. Einnig getur hún komið niður á talfærni og útliti. Síðast en ekki síst hafa rannsóknir sýnt fram á að tannheilsa hefur mikil áhrif á almennt heilsufar.

Að greina og meðhöndla tannholdsbólgu

Hvernig geturðu vitað hvort þú sért með tannholdsbólgu? Kannski finnurðu fyrir einhverjum af einkennunum sem minnst er á í þessari grein. Ef svo er gæti verið gott að ráðfæra sig við tannlækni sem getur metið ástand tannholdsins.

Er hægt að meðhöndla tannholdsbólgu? Ef hún er enn á byrjunarstigi er oft hægt að lækna hana. Ef um er að ræða tannvegsbólgu má halda henni í skefjum og koma í veg fyrir að hún haldi áfram að eyða beini og vefjum umhverfis tennurnar. Tannlæknar nota sérstök verkfæri til að fjarlægja tannsýklu og tannstein sem hafa myndast við tannholdsbrúnir eða undir þeim.

Forvörn er besta leiðin til að minnka hættuna á þessum lúmska en skaðvæna sjúkdómi. Það á líka við ef maður hefur takmarkaðan eða engan aðgang að tannlæknaþjónustu. Góð og regluleg tannhirða er lykillinn að því að draga úr líkunum á tannholdsbólgu.