Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Að sigrast á einmanaleika

Að sigrast á einmanaleika

VANDINN

„Ég átti tvær vinkonur sem gerðu margt saman án þess að bjóða mér að vera með. Ég fékk alltaf að heyra hvað hefði verið gaman hjá þeim. Einu sinni hringdi ég í vinkonu mína þegar hin stelpan var hjá henni. Einhver annar svaraði í símann og ég heyrði í þeim tveim tala saman og hlægja. Mér var ekki boðið heldur heyrði ég bara hvað var gaman hjá þeim og þá varð ég enn meira einmana.“ – Maria. *

Hefur þér einhvern tíma fundist þú vera út undan og einmana? Þá á Biblían góð ráð handa þér. En skoðaðu fyrst nokkur atriði sem gott er að vita um einmanaleika.

ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA

Langflestir verða einmana af og til. Þar á meðal er fólk sem virðist vinsælt. Hvernig stendur á því? Yfirleitt skiptir meira máli að eiga góða vini en marga vini. Sá sem virðist vinsæll getur verið með fólk í kringum sig öllum stundum án þess að eiga nána vini. Hann getur því verið einmana.

Einmanaleiki er heilsuspillandi. Sérfræðingar, sem tóku saman niðurstöður úr 148 rannsóknum, drógu þá ályktun að lítil félagsleg samskipti auki líkurnar á að fólk deyi fyrir aldur fram. Þeir segja að líkurnar séu „tvöfalt meiri en vegna offitu“ og „samsvari því að reykja 15 sígarettur á dag“.

Einmanaleiki getur gert þig berskjaldaðan. Sá sem er einmana gæti freistast til að sætta sig við hvaða vini sem er. Ungur maður að nafni Alan segir: „Þegar maður er einmana þráir maður athygli. Manni gæti fundist að öll athygli sé betri en engin athygli. Þá er voðinn vís.“

Tæknin bætir ekki alltaf úr einmanaleika. „Ég gæti sent mörg hundruð skilaboð eða tölvupósta á dag en samt verið mjög einmana,“ segir ung kona sem heitir Natalie. Unglingur að nafni Tyler hefur svipaða sögu að segja: „Textaskilaboð eru eins og skyndibiti en bein samskipti eins og alvöru máltíð. Skyndibitar eru góðir en maður þarf staðgóða máltíð til að líða vel.“

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Gerðu ráð fyrir því besta. Segjum að þú farir á myndasíðu á Netinu og sjáir myndir af vinum þínum í boði sem þú fékkst ekki að vita af. Þú hefur um tvennt að velja: Þú getur ákveðið með sjálfum þér að þú hafir viljandi verið skilinn út undan eða hugsað jákvætt um málið. Hvers vegna ættirðu að ímynda þér það versta þegar þú þekkir ekki allar hliðar málsins? Einbeittu þér frekar að því að finna betri skýringu á því hvers vegna þér var ekki boðið. Oft stafar einmanaleiki meira af viðhorfi manns en aðstæðum. – Meginregla: Orðskviðirnir 15:15, Biblían 1981.

Alhæfðu ekki. Þegar þú ert einmana gætirðu hugsað: „Mér er aldrei boðið neitt,“ eða „ég er alltaf sniðgenginn.“ En með slíkum alhæfingum sekkurðu bara dýpra í kviksyndi einmanaleikans. Þannig hugsanir geta orðið að vítahring. Þér finnst þú hafður út undan og þú einangrar þig. Þá verðurðu einmana og þér finnst þú hafður út undan. – Meginregla: Orðskviðirnir 18:1, New World Translation.

Vertu opinn fyrir því að eignast vini sem eru eldri en þú. Biblían segir sögu Davíðs, en hann var líklega á unglingsaldri þegar hann kynntist Jónatan sem var 30 árum eldri. Þrátt fyrir aldursmuninn urðu Davíð og Jónatan nánir vinir. (1. Samúelsbók 18:1) Þú gætir upplifað eitthvað svipað. „Ég er farin að kunna að meta að eiga eldri vini,“ segir Kiara sem er 21 árs. „Ég á yndislega vini sem eru mörgum árum og jafnvel áratugum eldri en ég. Stöðugleiki þeirra og þroskað lífsviðhorf er mér mjög dýrmætt.“ – Meginregla: Jobsbók 12:12, Biblían 1981.

Lærðu að meta kosti einveru. Sumir finna til einmanaleika um leið og þeir eru einir um stund. En einvera þarf ekki að vera einmanaleg. Jesús var til dæmis félagslyndur en hann naut þess líka að vera einn. (Matteus 14:23; Markús 1:35) Þú getur það líka. Notaðu rólegu stundirnar til að hugleiða allt sem þú getur verið þakklátur fyrir í stað þess að líta á einveru sem ókost. Það getur gert þig að enn ákjósanlegri vini í augum annarra. – Orðskviðirnir 13:20.

^ gr. 4 Sumum nöfnum í greininni er breytt.