Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 44

Höldum von okkar sterkri

Höldum von okkar sterkri

„Vonaðu á Jehóva.“ – SÁLM. 27:14.

SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin

YFIRLIT a

1. Hvaða von hefur Jehóva gefið okkur?

 JEHÓVA hefur gefið okkur þá stórkostlegu von að öðlast eilíft líf. Sumir hafa þá von að lifa að eilífu á himnum sem ódauðlegar andaverur. (1. Kor. 15:50, 53) Von flestra er hins vegar sú að lifa að eilífu á jörðinni við fullkomna heilsu og hamingju. (Opinb. 21:3, 4) Vonin er okkur einstaklega dýrmæt, hvort sem við hlökkum til að lifa að eilífu á himnum eða jörð.

2. Hverju er von okkar byggð á og hvernig getum við sagt það?

2 Orðið „von“, eins og það er notað í Biblíunni, má skilgreina sem það að vænta þess að eitthvað gott muni gerast. Von okkar um framtíðina er áreiðanleg vegna þess að það er Jehóva sem gefur hana. (Rómv. 15:13) Við vitum hverju hann hefur lofað og við vitum að hann stendur alltaf við það sem hann segir. (4. Mós. 23:19) Við erum algerlega sannfærð um að Jehóva hafi bæði löngun og mátt til að framkvæma allt sem hann hefur lofað að gera. Von okkar er því ekki byggð á ímyndun eða óskhyggju heldur traustum rökum.

3. Hvað skoðum við í þessari námsgrein? (Sálmur 27:14)

3 Faðir okkar á himnum elskar okkur og hann vill að við treystum sér. (Lestu Sálm 27:14.) Þegar við vonum á Jehóva í fullu trausti getum við staðist prófraunir og mætt framtíðinni hugrökk og glöð. Skoðum nú hvernig vonin getur verndað okkur. Fyrst skoðum við hvernig líkja má voninni bæði við akkeri og hjálm. Síðan ræðum við hvernig við getum styrkt von okkar.

VONIN ER EINS OG AKKERI

4. Hvernig er vonin eins og akkeri? (Hebreabréfið 6:19)

4 Í bréfi sínu til Hebrea líkti Páll postuli von okkar við akkeri. (Lestu Hebreabréfið 6:19.) Páll ferðaðist oft með skipi og vissi að akkeri kæmi í veg fyrir að skip bærist afleiðis. Eitt sinn var hann farþegi á skipi þegar brast á mikill stormur. Þá sá hann sjómenn varpa akkerum í sjóinn til að koma í veg fyrir að skipið ræki upp á hættuleg sker. (Post. 27:29, 39–41) Á svipaðan hátt og akkeri gefur skipi stöðugleika gefur vonin okkur stöðugleika svo að við berumst ekki frá Jehóva þegar við tökumst á við vandamál sem eru eins og óveður. Sterk von hjálpar okkur að sigla gegnum óveðurskafla lífsins vegna þess að við erum sannfærð um að betri tímar séu fram undan. Gleymum því ekki að Jesús sagði að við yrðum fyrir ofsóknum. (Jóh. 15:20) Að hugleiða blessunina sem bíður okkar í framtíðinni hjálpar okkur að vera staðföst í þjónustu Jehóva.

5. Hvernig gaf vonin Jesú styrk þegar hann stóð andspænis dauðanum?

5 Hugleiðum hvernig vonin hjálpaði Jesú að vera staðfastur þótt hann vissi að hann myndi deyja grimmilegum dauða. Á hvítasunnunni árið 33 vitnaði Pétur postuli í spádóm í Sálmunum sem lýsir svo fallega hversu rólegur og öruggur Jesús var: „Ég mun lifa í von því að þú skilur mig ekki eftir í gröfinni né leyfir að trúr þjónn þinn verði rotnun að bráð … Þú fyllir mig gleði þegar ég er nærri þér.“ (Post. 2:25–28; Sálm. 16:8–11) Þótt Jesús vissi að hann myndi deyja hafði hann þá bjargföstu von að Guð myndi reisa hann aftur upp og að hann fengi að njóta þess að fara aftur til föður síns á himnum. – Hebr. 12:2, 3.

6. Hvað segir bróðir um vonina?

6 Vonin hefur hjálpað mörgum bræðrum okkar og systrum að halda út í erfiðleikum. Skoðum reynslu trúfasts bróður að nafni Leonard Chinn sem bjó í Bretlandi. Hann var settur í fangelsi í fyrri heimstyrjöldinni vegna þess að hann neitaði að gegna herþjónustu. Hann var tvo mánuði í einangrun. Síðan var hann settur í þrælkunarvinnu um tíma. Hann skrifaði síðar: „Þessi reynsla sýndi mér hversu mikilvæg vonin er til að geta haldið út. Við höfum fordæmi Jesú, postulanna og spámannanna og við höfum dýrmæt loforð sem er að finna í Biblíunni. Allt veitir þetta okkur trausta von fyrir framtíðina og styrkir okkur til að halda út.“ Vonin var Leonard eins og akkeri og hún getur líka verið það fyrir okkur.

7. Hvernig styrkja prófraunir von okkar? (Rómverjabréfið 5:3–5; Jakobsbréfið 1:12)

7 Þegar við höfum haldið út í prófraunum og finnum að Jehóva hjálpar okkur skiljum við að við höfum velþóknun hans. (Lestu Rómverjabréfið 5:3–5; Jakobsbréfið 1:12.) Þetta styrkir von okkar. Hún verður þannig sterkari en þegar við tókum við fagnaðarboðskapnum. Satan vill að prófraunirnar gagntaki okkur en með hjálp Jehóva getum við tekist á við þær allar með góðum árangri.

VONIN ER EINS OG HJÁLMUR

8. Hvernig er vonin eins og hjálmur? (1. Þessaloníkubréf 5:8)

8 Í Biblíunni er von okkar einnig líkt við hjálm. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:8.) Hermaður ber hjálm til að verjast höggum sem óvinurinn reynir að koma á hann. Í andlegu stríði okkar verðum við að verja hugann fyrir árásum Satans. Hann lætur freistingar dynja á okkur og hugmyndir sem eru hannaðar til að spilla huga okkar. Rétt eins og hjálmur verndar höfuð hermanns verndar vonin huga okkar þannig að við getum verið Jehóva trúföst.

9. Hvað gerist þegar fólk á enga von?

9 Von okkar um eilíft líf hjálpar okkur að taka viturlegar ákvarðanir. Ef vonin dofnar hins vegar og við förum bara að hugsa um að fullnægja eigin löngunum getum við misst sjónar á takmarkinu – eilífa lífinu. Skoðum hvað gerðist hjá sumum þjónum Guðs sem bjuggu í Korintu til forna. Þeir misstu trú á mikilvægu loforði Guðs – loforðinu um upprisu. (1. Kor. 15:12) Páll skrifaði að þeir sem trúðu ekki á upprisuna lifðu bara til að fullnægja eigin löngunum. (1. Kor. 15:32) Nú á dögum lifa margir sem trúa ekki á loforð Guðs bara fyrir líðandi stund. Þeir gera allt sem þeir geta til að vera hamingjusamir núna. Við setjum traust okkar á hinn bóginn á þau loforð sem Guð hefur gefið um framtíðina. Vonin er eins og hjálmur sem verndar huga okkar og hjálpar okkur að hugsa ekki bara um okkur sjálf, en það myndi skaða samband okkar við Jehóva. – 1. Kor. 15:33, 34.

10. Hvernig getur vonin verndað okkur fyrir rangri röksemdafærslu?

10 Hjálmur vonarinnar getur verndað okkur fyrir því að hugsa að það hafi enga þýðingu að reyna að þóknast Jehóva. Sumir gætu til dæmis hugsað: „Ég gæti aldrei orðið meðal þeirra sem lifa að eilífu. Ég er einfaldlega ekki nógu góður. Ég get aldrei staðið undir kröfum Guðs.“ Gleymum ekki að Elífas falsvinur Jobs notaði sömu rök þegar hann talaði við Job. Elífas sagði: „Hvernig getur dauðlegur maður verið hreinn?“ Og hann sagði um Guð: „Hann treystir ekki sínum heilögu og jafnvel himnarnir eru ekki hreinir í augum hans.“ (Job. 15:14, 15) Þetta er hræðileg lygi. Gleymum því ekki að það er Satan sem vill að við hugsum þannig. Hann veit að von okkar dofnar ef við leyfum okkur að dvelja við slíkar hugsanir. Hafnaðu slíkum lygum og beindu athyglinni að loforðum Jehóva. Efastu aldrei um að hann vilji að þú lifir að eilífu og að hann hjálpi þér að ná því takmarki. – 1. Tím. 2:3, 4.

HÖLDUM VON OKKAR STERKRI

11. Hvers vegna ættum við að bíða þolinmóð eftir að von okkar rætist?

11 Það er ekki alltaf auðvelt að halda voninni sterkri. Við gætum orðið óþolinmóð að bíða eftir að Guð uppfylli loforð sín. En Jehóva er eilífur og tímaskyn hans er ólíkt okkar. (2. Pét. 3:8, 9) Hann stendur við loforð sín á besta mögulega máta en ekki endilega þegar við væntum þess. Hvað getur hjálpað okkur að halda von okkar sterkri meðan við bíðum þolinmóð eftir að Guð uppfylli loforð sín? – Jak. 5:7, 8.

12. Hvernig tengist vonin trúnni samkvæmt Hebreabréfinu 11:1, 6?

12 Við höldum von okkar sterkri ef við höldum okkur nálægt Jehóva vegna þess að það er hann sem lætur von okkar rætast. Biblían tengir reyndar vonina við trúna á að Jehóva sé til og að hann „launi þeim sem leita hans í einlægni“. (Lestu Hebreabréfið 11:1, 6.) Því raunverulegri sem Jehóva er okkur því betur treystum við að hann standi við öll loforð sín. Skoðum nokkrar leiðir til að styrkja sambandið við Jehóva og halda von okkar þannig sterkri.

Bæn og hugleiðing halda von okkar sterkri. (Sjá 13.–15. grein.) b

13. Hvernig getum við nálgast Guð?

13 Biðjum til Jehóva og lesum í orði hans. Þótt við getum ekki séð Jehóva getum við nálgast hann. Við getum verið viss um að hann hlustar á okkur þegar við tölum við hann í bæn. (Jer. 29:11, 12) Við getum hlustað á Guð með því að lesa í orði hans og hugleiða það. Von okkar styrkist þegar við lesum um það hvernig Jehóva annaðist þá sem voru honum trúfastir áður fyrr. Allt sem stendur í Biblíunni var „skrifað til að við gætum lært af því og haldið voninni vegna þolgæðis okkar og þeirrar huggunar sem Ritningarnar veita“. – Rómv. 15:4.

14. Hvers vegna ættum við að hugleiða það sem Jehóva hefur gert fyrir aðra?

14 Hugleiðum hvernig Jehóva hefur haldið loforð sín. Skoðum hvað Guð gerði fyrir Abraham og Söru. Þau voru öldruð og komin úr barneign. En Guð lofaði þeim að þau myndu eignast barn. (1. Mós. 18:10) Hvernig brást Abraham við? Biblían segir: „Hann trúði … að hann yrði faðir margra þjóða.“ (Rómv. 4:18) Þótt þetta virtist ómögulegt frá mannlegum sjónarhóli var Abraham sannfærður um að Jehóva myndi uppfylla loforð sitt. Þessi trúfasti maður varð ekki fyrir vonbrigðum. (Rómv. 4:19–21) Frásögur eins og þessi kenna okkur að við getum alltaf reitt okkur á Jehóva. Við getum treyst að hann uppfylli loforð sín hversu ómögulegt sem það virðist vera.

15. Hvers vegna ættum við að rifja upp það sem Guð hefur gert fyrir okkur?

15 Hugleiðum það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Veltum fyrir okkur hvernig við höfum nú þegar notið góðs af þeim loforðum sem hafa ræst og greint er frá í Biblíunni. Jesús hefur til dæmis lofað því að faðir hans sjái okkur fyrir nauðsynjum lífsins. (Matt. 6:32, 33) Hann hefur líka fullvissað okkur um að Jehóva gefi okkur heilagan anda þegar við biðjum um hann. (Lúk. 11:13) Jehóva hefur staðið við þessi loforð. Við getum eflaust rifjað upp fleiri loforð sem Jehóva hefur staðið við og hafa verið okkur til góðs. Hann hefur til dæmis lofað að fyrirgefa okkur, hugga okkur og gefa okkur það sem við þurfum til þess að eiga gott samband við sig. (Matt. 6:14; 24:45; 2. Kor. 1:3) Þegar við hugleiðum það sem Guð hefur gert fyrir okkur hingað til styrkjum við von okkar um að hann muni standa við loforð sín í framtíðinni.

GLEÐJUMST Í VONINNI

16. Hvers vegna er vonin dýrmæt gjöf?

16 Vonin um eilíft líf er dýrmæt gjöf frá Guði. Við hlökkum til dásamlegrar framtíðar og erum fullviss um að hún verði að veruleika. Hún er eins og akkeri sem gefur okkur stöðugleika til að halda út í prófraunum, standast ofsóknir og jafnvel vera trúföst frammi fyrir dauðanum. Hún er eins og hjálmur sem verndar huga okkar svo að við getum hafnað því sem er rangt og haldið fast í það sem er rétt. Vonin sem Biblían gefur hjálpar okkur að kynnast Guði betur og sýnir hversu heitt hann elskar okkur. Það gerir okkur mjög gott að halda von okkar sterkri.

17. Hvers vegna gefur vonin okkur gleði?

17 „Gleðjist í voninni,“ hvatti Páll postuli í bréfi sínu til Rómverja. (Rómv. 12:12) Páll gat glaðst vegna þess að hann vissi að hann myndi öðlast eilíft líf á himnum ef hann væri trúfastur. Við getum líka glaðst í voninni vegna þess að við erum viss um að Jehóva mun halda loforð sín. Sálmaskáldið skrifaði: ,Sá er hamingjusamur sem setur von sína á Jehóva Guð sinn, hann sem er alltaf trúfastur.‘ – Sálm. 146:5, 6.

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

a Jehóva hefur gefið okkur dásamlega von. Hún léttir okkur lífið og hjálpar okkur að sjá að erfiðleikarnir sem við glímum við núna taka enda. Hún gefur okkur styrk til að vera trúföst, hvaða erfiðleika sem við glímum við. Og hún getur forðað okkur frá því að verða fórnarlömb hugmynda sem gætu spillt huga okkar. Eins og við munum sjá í þessari námsgrein höfum við mjög góðar ástæður til að halda von okkar sterkri.

b MYND: Von okkar verndar hugann og gefur okkur stöðugleika í erfiðleikum rétt eins og hjálmur verndar höfuð hermanns og akkeri heldur skipi stöðugu. Systir biður til Jehóva í fullu trausti. Bróðir hugleiðir hvernig Guð hélt loforð sín við Abraham. Annar bróðir hugleiðir hvernig Jehóva hefur blessað hann.