Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúarleg böð Gyðinga — undanfari skírnarinnar?

Trúarleg böð Gyðinga — undanfari skírnarinnar?

Trúarleg böð Gyðinga — undanfari skírnarinnar?

JÓHANNES SKÍRARI „prédikaði iðrunarskírn“. Jesús bauð fylgjendum sínum einnig að gera menn að lærisveinum og skíra þá. — Markús 1:4; Matteus 28:19.

Biblían gefur til kynna að kristin skírn feli í sér algera niðurdýfingu í vatn. Í bókinni Jesus and His World er staðhæft að „svipaðar helgiathafnir þekkist í mörgum trúarbrögðum víða um lönd og í ólíkum menningarsamfélögum bæði fyrr og nú“. Þar er fullyrt að „kristin skírn eigi rætur að rekja . . . til gyðingdómsins“. Eru þessar fullyrðingar á rökum reistar?

Trúarlegar baðlaugar Gyðinga

Við fornleifauppgröft nálægt musterishæðinni í Jerúsalem hafa fundist næstum 100 trúarleg böð eða baðlaugar frá fyrstu öld f.Kr. og fyrstu öld e.Kr. Á áletrun í samkunduhúsi frá annarri eða þriðju öld e.Kr. er talað um að gestir hafi haft aðgang að slíkum böðum ef þeir „þurftu á því að halda“. Laugar af þessu tagi hafa einnig fundist í hverfum í Jerúsalem þar sem auðugar fjölskyldur og fjölskyldur af prestastétt bjuggu — næstum öll húsin voru með eigin baðlaug.

Baðlaugarnar voru rétthyrndar og höggnar í berg eða grafnar í jörðina og klæddar múrstein eða steinum. Þær voru múrhúðaðar til að koma í veg fyrir leka. Flestar voru um 2 metrar á breidd og tæpir 3 metrar á lengd. Regnvatn var leitt í laugarnar. Vatnið var að minnsta kosti 1,2 metrar að dýpt þannig að hægt var að fara alveg á kaf með því að hnipra sig saman. Stundum var tröppunum niður í laugina skipt með lágum skilvegg. Talið er að menn hafi gengið niður í hreinsunarlaugina öðrum megin þegar þeir voru óhreinir og farið upp úr henni hinum megin til að óhreinkast ekki aftur.

Gyðingar notuðu böðin til að fylgja helgisiðum sínum um hreinleika. Hvað fólst í þessum siðum?

Lögmálið og erfðavenjur Gyðinga

Í Móselögunum var lögð áhersla á að fólk Guðs væri hreint bæði andlega og líkamlega. Ísraelsmenn gátu orðið óhreinir af ýmsum ástæðum og þá þurftu þeir að hreinsa sig með því að baða sig og þvo föt sín. — 3. Mósebók 11:28; 14:1-9; 15:1-31; 5. Mósebók 23:10, 11.

Jehóva Guð er fullkomlega hreinn og heilagur. Prestar og levítar urðu því, að viðlagðri dauðarefsingu, að þvo sér um hendur og fætur áður en þeir gengu að altarinu. — 2. Mósebók 30:17-21.

Fræðimenn telja að á fyrstu öld e.Kr. hafi verið búið að útvíkka kröfur gyðingdómsins um hreinsun presta þannig að þær næðu einnig til þeirra sem voru ekki levítar. Bæði essenar og farísear stunduðu tíða viðhafnarþvotta. Í einni heimild segir um daga Jesú: „Gyðingur þurfti að vera trúarlega hreinn áður en hann fór upp á musterishæðina, áður en hann færði fórn, áður en hann naut góðs af fórn prestanna og við önnur slík tækifæri.“ Í Talmúð Gyðinga kemur fram að menn hafi átt að fara alveg í kaf þegar þeir böðuðu sig í trúarlegum tilgangi.

Jesús gagnrýndi faríseana fyrir að gera stífar kröfur um trúarlega hreinsun. Þeir stunduðu greinilega „ýmiss konar þvotta“ þar á meðal „að hreinsa bikara, könnur og eirkatla“. Jesús sagði að farísearnir hefðu gengið lengra en boðorð Guðs mæltu fyrir og komið á sínum eigin erfðavenjum. (Hebreabréfið 9:10; Markús 7:1-9; 3. Mósebók 11:32, 33; Lúkas 11:38-42) Í Móselögunum var þess aldrei krafist að menn færu alveg í kaf til að verða trúarlega hreinir.

Á kristin skírn rætur sínar að rekja til helgiþvotta Gyðinga? Nei.

Trúarleg böð og kristin skírn

Gyðingarnir stunduðu helgiþvotta. En skírnin, sem Jóhannes framkvæmdi, var ekki helgiþvottur eins og Gyðingar þekktu. Fyrst Jóhannes varð þekktur sem skírari gefur það til kynna að niðurdýfingin, sem hann framkvæmdi, hafi verið annars eðlis. Trúarleiðtogarnir sendu jafnvel menn til að spyrja hann: „Hvers vegna skírir þú?“ — Jóhannes 1:25.

Í hvert sinn sem tilbiðjandi Guðs varð óhreinn þurfti að endurtaka hreinsunina sem Móselögin kváðu á um. En það átti hvorki við um skírn Jóhannesar né skírn kristinna manna síðar. Skírn Jóhannesar táknaði iðrun og breytta lífsstefnu. Kristna skírnin var til tákns um að menn hefðu vígt sig Guði. Þetta gerðu þeir aðeins einu sinni en ekki aftur og aftur.

Trúarlegu böðin, sem menn tóku á heimilum prestanna og í almenningsböðunum við musterishæðina, líktust kristnu skírninni aðeins á yfirborðinu. Merking þessa tveggja var gerólík. Í The Anchor Bible Dictionary segir: „Það er samhljóða álit fræðimanna að Jóhannes [skírari] hafi ekki tekið upp eða aðlagað neina sérstaka skírn sem var stunduð fyrir,“ það er að segja í gyðingdómnum. Hið sama er að segja um skírnina sem stunduð er í kristna söfnuðinum.

Kristna skírnin er „bæn til Guðs um góða samvisku“. (1. Pétursbréf 3:21) Hún er til tákns um að maður hafi vígt sig Jehóva að fullu og öllu til að þjóna honum sem lærisveinn sonar hans. Alger niðurdýfing í vatn er viðeigandi tákn um slíka vígslu. Að fara á kaf í vatn táknar að deyja fyrri lífsstefnu. Að koma upp úr vatninu táknar að lifna á ný til að gera vilja Guðs.

Jehóva Guð veitir þeim góða samvisku sem víga sig honum og láta skírast. Pétur postuli sagði trúsystkinum sínum undir innblæstri: „[Skírnin] frelsar yður.“ Trúarleg böð Gyðinga gátu aldrei áorkað neinu slíku.