Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum hughraust og hughreystum aðra

Verum hughraust og hughreystum aðra

Við erum ófullkomin og höfum því öll veikst einhvern tíma, sum okkar mjög alvarlega. Hvað getum við gert þegar slíkir erfiðleikar verða á vegi okkar?

Ættingjar, vinir og trúsystkini geta styrkt okkur og gert okkur kleift að takast á við það sem að höndum ber.

Hlýleg og vinsamleg orð góðs vinar geta verið eins og mýkjandi smyrsl sem græða og hressa. (Orðskv. 16:24; 18:24; 25:11) En sannkristnir menn hugsa ekki aðeins um að fá hughreystingu. Þeir leggja sig fram um að ,hughreysta alla aðra í þrengingum þeirra á sama hátt og aðrir hughreysta þá‘. (2. Kor. 1:4; Lúk. 6:31) Antonio kynntist því af eigin raun en hann er farandhirðir í Mexíkó.

Antonio varð angistarfullur þegar hann greindist með eitilfrumukrabbamein, sem er ein tegund hvítblæðis. Hann leitaðist þó við að hafa hemil á kvíðanum. Hann reyndi að muna ríkissöngvana og syngja þá til að heyra og hugleiða textana. Það var líka hughreystandi fyrir hann að biðja upphátt og lesa í Biblíunni.

En Antonio gerir sér grein fyrir því núna að einhver verðmætasta hjálpin var stuðningur trúsystkina. Hann segir: „Þegar við hjónin vorum niðurdregin báðum við ættingja okkar, sem er safnaðaröldungur, að koma í heimsókn og biðja með okkur. Það var hughreystandi og róandi fyrir okkur.“ Hann bætir við: „Svo er stuðningi ættingja og trúsystkina fyrir að þakka að við vorum frekar fljót að sigrast á depurðinni.“ Hann er innilega þakklátur fyrir að eiga svona ástríka og umhyggjusama vini.

Heilagur andi er önnur verðmæt hjálp í raunum. Pétur postuli sagði að heilagur andi Guðs væri gjöf. (Post. 2:38) Það sýndi sig þegar margir hlutu andasmurningu á hvítasunnu árið 33. En þessi gjöf er ekki aðeins fólgin í andasmurningu því að heilagur andi stendur okkur öllum til boða og án takmarkana. Hví ekki að biðja um að fá hann í ríkum mæli? – Jes. 40:28-31.

SÝNUM ÞEIM UMHYGGJU SEM ÞJÁST

Páll postuli gekk í gegnum margs konar þrengingar og var stundum í lífshættu. (2. Kor. 1:8-10) Hann var þó ekki óhóflega hræddur um líf sitt. Það var hughreystandi fyrir hann að vita að Guð studdi við bakið á honum. Hann skrifaði: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar sem hughreystir mig í sérhverri þrenging minni.“ (2. Kor. 1:3, 4) Páll sökk ekki niður í sjálfsvorkunn. Þrengingarnar hjálpuðu honum að hafa samkennd með öðrum þannig að hann var vel í stakk búinn til að hughreysta þá þegar á þurfti að halda.

Eftir að Antonio hafði náð bata gat hann snúið sér að farandstarfinu á ný. Hann hafði alltaf verið umhyggjusamur í garð trúsystkina sinna en núna lögðu þau hjónin sérstaka áherslu á að heimsækja sjúka og uppörva þá. Þegar Antonio heimsótti bróður, sem átti við alvarleg veikindi að stríða, komst hann að raun um að bróðurinn langaði ekki til að sækja samkomur. „Hann elskaði auðvitað Jehóva og trúsystkini sín,“ segir Antonio, „en veikindin höfðu haft þau áhrif á tilfinningalíf hans að honum fannst hann einskis nýtur.“

Eitt af því sem Antonio gerði, til að uppörva þennan veika bróður, var að biðja hann að fara með bæn þar sem hópur votta var saman kominn. Bróðirinn tók það að sér þó að honum fyndist hann varla þess verður. Antonio segir: „Hann fór með ákaflega fallega bæn og eftir það var hann allt annar maður. Honum fannst hann geta gert gagn á nýjan leik.“

Öll höfum við þurft að þola einhvers konar þjáningar þótt þær geti verið mismiklar. En eins og Páll sagði getur það kennt okkur að hughreysta aðra á erfiðum stundum. Við skulum því vera næm fyrir þjáningum trúsystkina okkar og líkja eftir Jehóva Guði með því að hughreysta aðra.