Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er tilgangur lífsins?

Hver er tilgangur lífsins?

Hver er tilgangur lífsins?

AF HVERJU SKIPTIR ÞAÐ MÁLI? Fátt er erfiðara tilhugsunar fyrir manninn en að lífið hafi ekkert gildi og engan tilgang. Sá sem hefur skýran tilgang í lífinu er hins vegar þrautgóður og seigur. Taugasérfræðingurinn Viktor E. Frankl lifði af helför nasista. Hann skrifaði: „Ég leyfi mér að halda því fram að ekkert í heiminum geti verið manni meiri hjálp til að þrauka af verstu aðstæður en sú vitneskja að líf manns hafi tilgang.“

Skoðanir eru hins vegar æði skiptar um þetta mál. Margir telja að hver og einn verði að ákveða sjálfur hvaða tilgangi lífið þjóni. Og sumir sem trúa að lífið hafi þróast halda því jafnvel fram að lífið hafi í rauninni engan sérstakan tilgang.

En rökréttasta leiðin til að finna tilgang lífsins er auðvitað sú að leita til lífgjafans, Jehóva Guðs. Lítum á hvað stendur í orði hans, Biblíunni, um þetta mál.

Hvað segir Biblían?

Í Biblíunni kemur fram að Jehóva Guð hafi haft ákveðinn tilgang með manninn og konuna þegar hann skapaði þau. Hann gaf foreldrum mannkyns eftirfarandi fyrirmæli:

1. Mósebók 1:28. „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“

Það var ætlun Guðs að Adam, Eva og börn þeirra breyttu allri jörðinni í paradís. Hann ætlaði mönnunum ekki það hlutskipti að hrörna og deyja; og mennirnir áttu ekki að valda spjöllum á umhverfi sínu. Adam og Eva tóku hins vegar rangar ákvarðanir með þeim afleiðingum að við fengum synd og dauða í arf. (1. Mósebók 3:2-6; Rómverjabréfið 5:12) Jehóva hefur hins vegar ekki breytt fyrirætlun sinni. Jörðinni verður bráðlega breytt í paradís. — Jesaja 55:10, 11.

Jehóva áskapaði okkur bæði líkamsburði og vitsmuni til að gera hlutverki okkar skil. En við vorum ekki sköpuð til að vera óháð honum. Tökum eftir hvernig vilja Guðs með okkur er lýst í eftirfarandi ritningargreinum.

Prédikarinn 12:13. „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“

Míka 6:8. „Hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“

Matteus 22:37-39. „‚Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“

Hvernig geta svör Biblíunnar veitt okkur sannan hugarfrið?

Til að flókin vél starfi rétt þarf að nota hana í samræmi við það hlutverk sem hönnuðurinn ætlaði henni. Það þarf að nota hana á réttan hátt. Við þurfum sömuleiðis að nota líf okkar á þann hátt sem skaparinn ætlaðist til. Annars skemmum við sjálf okkur, hvort heldur það er andlega, hugarfarslega, tilfinningalega eða líkamlega. Könnum hvernig við getum fundið hugarfrið á eftirfarandi sviðum með því að þekkja vilja Guðs.

Þegar við forgangsröðum. Margir einbeita kröftum sínum að því að safna peningum. Biblían segir hins vegar: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

Þeir sem læra að elska Guð í stað peninga uppgötva hins vegar hve verðmætt það er að vera nægjusamur. (1. Tímóteusarbréf 6:7, 8) Þeir þekkja gildi þess að vera duglegir og vita að þeim ber að sjá sér farborða. (Efesusbréfið 4:28) En þeir taka líka alvarlega varnaðarorð Jesú: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ — Matteus 6:24.

Þeir sem elska Guð láta ekki vinnuna eða peningasöfnun sitja í fyrirrúmi í lífinu heldur hugsa fyrst og fremst um að gera vilja Guðs. Þeir vita að Jehóva annast þá ef þeir láta vilja hans ganga fyrir öðru í lífinu. Hann álítur sig meira að segja skuldbundinn til þess. — Matteus 6:25-33.

Í samskiptum við aðra. Á þessu sviði hugsa margir fyrst og fremst um sjálfa sig. Ein meginástæðan fyrir því að ekki er friður í heiminum er sú að allt of margir eru „sérgóðir [og] kærleikslausir“. (2. Tímóteusarbréf 3:2, 3) Þegar einhver veldur þeim vonbrigðum eða er ósammála þeim gefa þeir tilfinningum sínum útrás í „ofsa, reiði, hávaða og lastmæli“. (Efesusbréfið 4:31) Slíkt taumleysi er ekki til þess fallið að veita fólki hugarfrið heldur vekur það deilur og ófrið. — Orðskviðirnir 15:18.

Þeir sem hlýða fyrirmælum Guðs um að elska náungann eins og sjálfa sig eru hins vegar „góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir [og] fúsir til að fyrirgefa hver öðrum“. (Efesusbréfið 4:32; Kólossubréfið 3:13) Þeir gera sér far um að líkja eftir Jesú jafnvel þó að komið sé illa fram við þá, en hann „illmælti eigi aftur, er honum var illmælt“. (1. Pétursbréf 2:23) Þeir vita, líkt og Jesús, að það gefur lífinu gildi að þjóna öðrum, meira að segja þeim sem kunna ekki að meta það sem gert er fyrir þá. (Matteus 20:25-28; Jóhannes 13:14, 15; Postulasagan 20:35) Jehóva Guð gefur þeim anda sinn sem líkja eftir syni hans, og andi Guðs gefur þeim innri frið. — Galatabréfið 5:22.

En hvernig getur framtíðarsýn okkar veitt okkur hugarfrið?

[Innskot á blaðsíðu 6]

Við þurfum að hafa skýran tilgang í lífinu.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús kenndi fólki að finna hugarfrið.