Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva leyfir okkur að velja

Jehóva leyfir okkur að velja

Nálægðu þig Guði

Jehóva leyfir okkur að velja

5. Mósebók 30:11-20

„ÉG HEF oft þurft að glíma við þann órökrétta ótta að ég muni reynast Jehóva ótrú,“ segir ein kristin kona. Henni fannst að líf hennar væri dæmt til að mislukkast af því að hún varð fyrir neikvæðri lífsreynslu sem barn. En er svona hugsunarháttur á rökum reistur? Erum við bara hjálparlaus fórnarlömb þeirra aðstæðna sem við lendum í? Nei, Jehóva hefur gefið okkur frjálsan vilja svo að við getum valið hvernig við lifum lífinu. Hann vill að við veljum rétt og í orði hans Biblíunni er okkur sagt hvernig við förum að því. Skoðum orðin í 5. Mósebók kafla 30.

Er erfitt að komast að því hvaða kröfur Guð gerir til okkar og verða síðan við þeim? * Móse sagði: „Þetta boð, sem ég legg fyrir þig í dag, er ekki óskiljanlegt eða fjarlægt þér.“ (Vers 11) Jehóva er ekki að biðja um hið ómögulega. Kröfur hans eru sanngjarnar, það er hægt að vita hverjar þær eru og verða við þeim. Við þurfum ekki að „stíga upp í himininn“ eða „fara yfir hafið“ til að vita hvers Guð ætlast til af okkur. (Vers 12, 13) Í Biblíunni er okkur sagt skýrt og skilmerkilega hvernig við eigum að haga lífi okkar. — Míka 6:8.

En Jehóva neyðir okkur ekki til að hlýða sér. Móse sagði: „Hér með legg ég fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.“ (Vers 15) Okkur er frjálst að velja milli lífs og dauða og góðs og ills. Við getum valið að tilbiðja og hlýða Guði og uppskera blessun fyrir vikið eða kosið að hlýða honum ekki og tekið afleiðingunum af því. Hvað sem því líður þá er það okkar að velja. — Vers 16-18; Galatabréfið 6:7, 8.

Skiptir það Jehóva máli hvað við veljum? Að sjálfsögðu. Undir innblæstri frá Guði sagði Móse: „Veldu . . . lífið.“ (Vers 19) En hvernig veljum við lífið? Móse útskýrði það og sagði: „Með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann.“ (Vers 20) Ef við lærum að elska Jehóva viljum við hlusta á hann, hlýða og halda okkur fast við hann sama hvað gerist. Með því að velja slíka lífsstefnu veljum við lífið. Þetta er besti farvegur sem hægt er að velja lífi sínu og hann gefur okkur von um eilíft líf í nýjum heimi Guðs. — 2. Pétursbréf 3:11-13; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Í orðum Móse er að finna hughreystandi sannleika. Óháð því fyrir hverju þú hefur orðið í þessum vonda heimi þá ertu ekki hjálparlaust fórnarlamb og þú ert ekki fyrir fram dæmdur til að klúðra lífi þínu. Jehóva sýnir þér virðingu með því að gefa þér frjálsan vilja. Þú getur valið að elska hann, hlusta á hann og vera honum trúr. Ef þú velur það mun Jehóva blessa viðleitni þína.

Sú staðreynd að við getum sjálf valið að elska og þjóna Jehóva huggaði konuna sem minnst var á í upphafi greinarinnar. Hún segir: „Ég elska Jehóva. En stundum hef ég gleymt að það er einmitt það sem skiptir mestu máli. Ég get því verið honum trúföst.“ Og með hjálp Jehóva getur þú það líka.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sjá greinina „Draw Close to God — What Does Jehovah Ask of Us?“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. október 2009.