Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SAMRÆÐUR UM BIBLÍUNA

Er Guði sama þótt við þjáumst?

Er Guði sama þótt við þjáumst?

Hér á eftir fara fram dæmigerðar samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Við skulum gera okkur í hugarlund að vottur, sem heitir Margrét, hafi bankað upp á hjá konu sem heitir Sólveig.

AF HVERJU LÉT GUÐ ÞETTA GERAST?

Margrét: Sæl, ég heiti Margrét og ég hef verið að sýna fólki þetta smárit sem ber heitið Viltu vita svörin? Mætti ég fá að gefa þér það?

Sólveig: Er þetta eitthvað trúarlegt?

Margrét: Já, sjáðu þessar sex spurningar hér á forsíðunni. Hvaða spurningu myndir ...

Sólveig: Nei, veistu, það er alger tímasóun að tala við mig.

Margrét: Af hverju segirðu það?

Sólveig: Sannleikurinn er sá að ég efast um að Guð sé til.

Margrét: Þakka þér fyrir að vera svona hreinskilin. En mætti ég spyrja: Hefurðu alltaf haft þessa skoðun?

Sólveig: Nei, reyndar ekki. Þegar ég var yngri fórum við oft í kirkju. En það er langt síðan ég hætti því.

Margrét: Það er auðvitað ekki ætlun mín að þvinga trúarskoðunum mínum upp á þig. En mig langar til að spyrja: Var það eitthvað sérstakt sem olli því að þú misstir trúna á Guð?

Sólveig: Já. Móðir mín lenti í bílslysi fyrir 17 árum.

Margrét: Æ, það var leitt að heyra.

Sólveig: Hún hefur verið lömuð síðan þá.

Margrét: Það hlýtur að hafa verið alveg hræðileg upplifun.

Sólveig: Já, og þess vegna skil ég ekki af hverju Guð lét þetta gerast, ef hann er á annað borð til. Hvernig getur hann látið fólk þjást svona?

ER RANGT AÐ SPYRJA SLÍKRA SPURNINGA?

Margrét: Það er ósköp skiljanlegt að þér líði svona og að þú viljir fá svör við þessum spurningum. Þegar við verðum fyrir erfiðleikum er eðlilegt að spyrja sig af hverju það gerist. Í Biblíunni er jafnvel talað um trúaða menn og konur sem veltu því fyrir sér.

Sólveig: Nú?

Margrét: Já. Mætti ég fá að sýna þér dæmi um það í Biblíunni?

Sólveig: Allt í lagi.

Margrét: Mig langar til að sýna þér svolítið sem spámaðurinn Habakkuk spurði Guð um. Skoðum vers 2 og 3 í fyrsta kaflanum í Habakkuk. Hér segir: „Hve lengi á ég að hrópa, Drottinn, án þess að þú hlustir? Um ofbeldi hef ég hrópað til þín án þess að þú kæmir til hjálpar. Hví sýnirðu mér illskuna og horfir aðgerðalaus á ranglætið?“ Er þetta eitthvað svipað því sem þú hefur verið að velta fyrir þér?

Sólveig: Já, reyndar.

Margrét: Guð ávítti aldrei Habakkuk fyrir að spyrja slíkra spurninga eða sagði honum að hann hefði ekki næga trú.

Sólveig: Ég skil.

JEHÓVA HATAR ÞJÁNINGAR

Margrét: Í Biblíunni segir að Guð taki eftir erfiðleikum okkar og að honum standi ekki á sama um okkur.

Sólveig: Hvað áttu við?

Margrét: Ég skal sýna þér dæmi um það í 2. Mósebók 3:7. Myndir þú vilja lesa þetta vers?

Sólveig: Allt í lagi. Hér segir: „Þá sagði Drottinn: ,Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar.‘“

Margrét: Takk fyrir. Finnst þér þetta vers ekki segja okkur að Guð taki eftir þjáningum fólks?

Sólveig: Jú, það virðist vera.

Margrét: Og ekki nóg með það heldur segir Guð í síðari hluta versins: „Ég þekki þjáningu hennar.“ Gefur þetta til kynna að hann sé kaldlyndur eða standi á sama um okkur?

Sólveig: Nei, sennilega ekki.

Margrét: Það er auðvitað mikill munur á því að vita að aðrir eigi í erfiðleikum og því að finna til með þeim. Guði sárnar að sjá okkur þjást.

Sólveig: Þú segir nokkuð.

Margrét: Með þetta í huga skulum við grípa niður í aðra frásögu af því þegar fólk Guðs átti erfitt. Við finnum hana í Sakaría 2:12. Í seinni hluta versins segir: „Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt.Myndir þú segja að þjáningarnar sem fólkið varð fyrir hafi hreyft við Guði?

Sólveig: Já, greinilega.

Margrét: Staðreyndin er sú að Guð ber mikla umhyggju fyrir okkur og finnur til með okkur. Þegar við þjáumst þjáist hann einnig.

EFTIR HVERJU ER GUÐ AÐ BÍÐA?

Margrét: Mig langar til að sýna þér eitt biblíuvers í viðbót áður en ég fer.

Sólveig: Það er allt í lagi.

Margrét: Lítum á hvað Biblían segir um mátt eða kraft Guðs. Versið sem ég hef í huga er Jeremía 10:12. Myndir þú vilja lesa það?

Sólveig: Já, já. Hér segir: „Sá sem skapaði jörðina með krafti sínum, lagði grunn heimsins með speki sinni og þandi út himininn með þekkingu sinni.“

Margrét: Takk. Lítum aðeins nánar á þetta vers. Þurfti Guð ekki að búa yfir miklum mætti til að geta skapað alheiminn og allt sem í honum er?

Sólveig: Jú, að sjálfsögðu.

Margrét: Ef Guð hefur máttinn til að skapa allt sem við sjáum í kringum okkur er þá ekki ástæða til að ætla að hann hafi einnig mátt til að laga það sem miður fer.

Sólveig: Jú.

Margrét: Tökum móðir þína sem dæmi. Hvers vegna finnst þér erfitt að horfa upp á hana þjást?

Sólveig: Af því að hún er móðir mín og mér er annt um hana.

Margrét: Myndir þú ekki lækna hana strax ef þú hefðir máttinn til þess?

Sólveig: Jú, auðvitað myndi ég gera það.

Margrét: En hvað segir þetta okkur? Biblían kennir að Guð taki eftir þjáningum okkar, finni til með okkur og búi yfir miklum mætti. Geturðu ímyndað þér þá sjálfstjórn sem Guð þarf að sýna til að taka ekki í taumana og binda strax enda á þjáningar okkar?

Sólveig: Ég hef aldrei hugsað þetta svona.

Margrét: Gæti verið að Guð hafi ástæðu fyrir því að bíða með að grípa í taumana og taka burt erfiðleika okkar? *

Sólveig: Já, það hlýtur eiginlega að vera.

Margrét: Ég heyri að síminn er að hringja hjá þér. Mætti ég kannski fá nafnið þitt og koma aftur seinna til að ræða þetta betur?

Sólveig: Já, þakka þér fyrir, ég myndi gjarnan vilja það. Ég heiti Sólveig.

Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig til að vita meira um Votta Jehóva eða trú þeirra? Hikaðu þá ekki við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Vottum Jehóva væri sönn ánægja að svara spurningum þínum.

^ gr. 57 Nánari upplýsingar er að finna í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.