Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég staðist freistingu?

Hvernig get ég staðist freistingu?

 Páll postuli skrifaði: „Þegar ég vil gera það sem er rétt hef ég tilhneigingu til að gera það sem er illt.“ (Rómverjabréfið 7:21) Hefur þér liðið þannig? Ef svo er getur þessi grein hjálpað þér að standast freistinguna að láta undan röngum löngunum.

  •  Gott að vita

  •  Það sem þú getur gert

  •  Hvað segja jafnaldrarnir?

Gott að vita

 Freistingar eru oft nátengdar hópþrýstingi. Í Biblíunni segir: „Vondur félagsskapur spillir góðu siðferði.“ (1. Korintubréf 15:33, neðanmáls.) Þrýstingur frá öðru fólki eða fjölmiðlum getur kveikt löngun hjá þér til að gera eitthvað rangt og getur jafnvel fengið þig til að „fylgja meirihlutanum til illra verka“. – 2. Mósebók 23:2.

 „Löngunin í viðurkenningu getur fengið þig til að gera eins og aðrir, bara til að þeim líki við þig.“ – Jeremy.

 Til umhugsunar: Hvers vegna gæti verið erfiðara að standast freistingu ef þú hugsar of mikið um hvað öðrum finnst um þig? – Orðskviðirnir 29:25.

 Kjarni málsins: Láttu ekki þrýsting frá félögunum verða til þess að þú brjótir lífsreglur þínar.

Það sem þú getur gert

 Vertu með sannfæringu þína á hreinu. Ef þú veist ekki hverju þú trúir geturðu orðið eins og strengjabrúða í höndum annarra. Það er langtum betra að fylgja áminningu Biblíunnar: „Sannreynið allt, haldið fast við það sem er gott.“ (1. Þessaloníkubréf 5:21) Því betur sem þú skilur trúarskoðanir þínar þeim mun auðveldara verður að halda sér fast við þær og standast freistingar sem stangast á við þær.

 Til umhugsunar: Hvernig veistu að siðferðisreglur Guðs eru þér fyrir bestu?

 „Ég hef tekið eftir því að þegar ég held mig við trúarskoðanir mínar og læt ekki undan freistingu þá virða aðrir mig fyrir það. – Kimberly.

 Fyrirmynd í Biblíunni: Daníel. Hann „einsetti“ sér að hlýða lögum Guðs þegar hann var líklega enn þá unglingur . – Daníel 1:8.

Ef þú veist ekki hverju þú trúir geturðu orðið eins og strengjabrúða í höndum annarra.

 Vertu meðvitaður um veikleika þína. Í Biblíunni er talað um „girndir æskunnar“ – langanir sem eru sérstaklega sterkar þegar maður er ungur. (2. Tímóteusarbréf 2:22) Þarna er ekki bara verið að tala um kynhvöt heldur líka löngunina að falla í hópinn og vera sjálfstæður áður en maður er tilbúinn til þess.

 Til umhugsunar: Í Biblíunni segir: „Það er girnd hvers og eins sem reynir hann með því að lokka hann og tæla.“ (Jakobsbréfið 1:14) Hvað freistar þín mest?

 „Vertu hreinskilinn við sjálfan þig þegar þú hugleiðir hvað freistar þín mest. Rannsakaðu efni sem hjálpar þér að standast þessar freistingar og punktaðu hjá þér gagnleg ráð. Þá veistu hvernig þú getur staðist freistingu næst þegar hún verður á vegi þínum.“ – Sylvia.

 Fyrirmynd í Biblíunni: Davíð. Stundum lét hann undan þrýstingi frá öðrum og jafnvel eigin löngunum. En Davíð lærði af mistökum sínum og reyndi að gera betur. „Skapa í mér hreint hjarta,“ sagði hann í bæn til Jehóva, „og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ – Sálmur 51:12.

 Taktu stjórnina. Í Biblíunni segir: „Láttu ekki hið illa sigra þig.“ (Rómverjabréfið 12:21) Það þýðir að þú þarft ekki að láta undan freistingu. Þú getur valið að gera það sem er rétt.

 Til umhugsunar: Hvernig geturðu tekið stjórnina og ,endurskrifað útkomuna‘ í aðstæðum þar sem þér gæti fundist freistandi að gera rangt?

 „Ég velti fyrir mér hvernig mér liði ef ég léti undan freistingunni. Myndi ég finna til léttis? Kannski, en aðeins um stuttan tíma. Liði mér vel til lengri tíma? Nei, mér liði bara verr. Er það þess virði? Nei. – Sophia.

 Fyrirmynd í Biblíunni: Páll. Páll viðurkenndi að hann hafði rangar tilhneigingar en hann tók stjórnina. Hann skrifaði: „Ég aga sjálfan mig harðlega og geri líkamann að þræli mínum.“ – 1. Korintubréf 9:27, neðanmáls.

 Kjarni málsins: Þú ert við stýrið þegar kemur að því að bregðast við freistingum.

 Mundu að freistingar eru tímabundnar. „Margt sem var mjög freistandi þegar ég var í framhaldsskóla skiptir mig engu máli núna,“ segir Melissa sem er tvítug. „Þegar ég hugsa um það er ég fullviss um að það sem freistar mín núna er líka tímabundið og að það kemur að því að ég lít til baka og sé að það var betra að standast þær.“