Postulasagan 17:1–34

  • Páll og Sílas í Þessaloníku (1–9)

  • Páll og Sílas í Beroju (10–15)

  • Páll í Aþenu (16–22a)

  • Ræða Páls á Areopagushæð (22b–34)

17  Þeir fóru nú um Amfípólis og Apollóníu og komu til Þessaloníku en þar áttu Gyðingar samkunduhús.  Eins og Páll var vanur fór hann þangað inn og þrjá hvíldardaga rökræddi hann við þá út frá Ritningunum.  Hann skýrði þær og vísaði í þær til að sanna að Kristur þurfti að þjást og rísa upp frá dauðum og sagði: „Þessi Jesús sem ég boða ykkur, hann er Kristur.“  Sumir þeirra tóku þá trú og gengu til liðs við Pál og Sílas og sömuleiðis allmargar áhrifakonur og mikill fjöldi Grikkja sem tilbað Guð.  En Gyðingar fylltust öfund og hóuðu saman illmennum sem slæptust á torginu, fengu í lið með sér múg manna og ollu uppþoti í borginni. Þeir réðust inn í hús Jasonar og vildu færa Pál og Sílas fyrir æstan múginn.  En þegar þeir fundu þá ekki drógu þeir Jason og nokkra aðra bræður fyrir stjórnendur borgarinnar og hrópuðu: „Þessir menn, sem hafa umturnað* heimsbyggðinni, eru líka komnir hingað  og Jason hefur boðið þeim inn á heimili sitt. Allir þessir menn brjóta gegn tilskipunum keisarans og segja að annar sé konungur og það sé Jesús.“  Múgurinn og stjórnendurnir urðu skelkaðir þegar þeir heyrðu þetta  og eftir að hafa látið Jason og hina leggja fram fullnægjandi tryggingu létu þeir þá fara. 10  Strax um nóttina sendu bræðurnir bæði Pál og Sílas til Beroju. Þegar þeir komu þangað gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga. 11  Gyðingar þar voru göfuglyndari en þeir sem bjuggu í Þessaloníku því að þeir tóku við orðinu af mesta áhuga og rannsökuðu Ritningarnar daglega til að kanna hvort það sem þeir heyrðu væri rétt. 12  Margir þeirra tóku því trú og einnig allmargar virtar grískar konur og nokkrir grískir karlar. 13  En þegar Gyðingar í Þessaloníku fréttu að Páll væri einnig að boða orð Guðs í Beroju komu þeir þangað til að æsa upp fólkið og valda ólgu. 14  Bræðurnir sendu Pál samstundis af stað til sjávar en Sílas og Tímóteus urðu báðir eftir. 15  Þeir sem fylgdu Páli fóru með honum alla leið til Aþenu en sneru svo til baka með boð frá honum um að Sílas og Tímóteus skyldu koma til hans eins fljótt og hægt væri. 16  Meðan Páll beið eftir þeim í Aþenu angraði það hann mjög að sjá að borgin var full af skurðgoðum. 17  Hann tók því að rökræða í samkunduhúsinu við Gyðinga og aðra sem tilbáðu Guð og ræddi daglega við þá sem urðu á vegi hans á torginu. 18  En nokkrir heimspekingar, bæði epíkúringar og stóumenn, fóru að þræta við hann og sumir þeirra sögðu: „Hvað er það sem þessi kjaftaskur vill segja?“ Aðrir sögðu: „Hann virðist boða framandi guði.“ Það stafaði af því að hann boðaði fagnaðarboðskapinn um Jesú og upprisuna. 19  Þeir tóku hann með sér á Areopagushæð og sögðu: „Getum við fengið að vita hver þessi nýja kenning er sem þú boðar? 20  Það sem þú flytur okkur hljómar undarlega í eyrum okkar og við viljum vita hvað það merkir.“ 21  Aþeningar og útlendingar sem dvöldust meðal þeirra* notuðu reyndar allar frístundir til að segja frá eða hlusta á einhverjar nýjungar. 22  Páll steig nú fram á miðri Areopagushæð og tók til máls: „Aþeningar, mér sýnist að þið séuð á allan hátt trúhneigðari* en aðrir. 23  Þegar ég gekk um og virti fyrir mér það sem þið dýrkið* fann ég meira að segja altari sem á var letrað: ‚Helgað ókunnum guði.‘ Ég boða ykkur einmitt þann Guð sem þið tilbiðjið en þekkið ekki. 24  Sá Guð sem gerði heiminn og allt sem í honum er, hann sem er Drottinn himins og jarðar, hann býr ekki í musterum sem menn hafa gert. 25  Hann þarf ekki heldur á þjónustu manna að halda eins og hann þarfnaðist einhvers því að sjálfur gefur hann öllum líf og andardrátt og alla hluti. 26  Og hann gerði af einum manni allar þjóðir til að byggja allt yfirborð jarðar og hann tiltók ákveðna tíma og setti því mörk hvar menn myndu búa. 27  Þetta gerði Guð til að þeir leituðu hans og vonaði að þeir þreifuðu sig til hans og fyndu hann en reyndar er hann ekki langt frá neinum okkar. 28  Það er honum að þakka að við lifum, hreyfum okkur og erum til, rétt eins og sum af skáldum ykkar hafa sagt: ‚Við erum líka börn* hans.‘ 29  Fyrst við erum börn* Guðs megum við ekki halda að guðdómurinn sé líkur smíði úr gulli, silfri eða steini sem menn hafa upphugsað og búið til. 30  Guð hefur vissulega umborið vanþekkingu liðinna tíma en nú boðar hann mönnum alls staðar að allir skuli iðrast 31  því að hann hefur ákveðið dag þegar hann ætlar að láta mann sem hann hefur valið dæma heimsbyggðina með réttvísi. Og hann hefur gefið öllum tryggingu fyrir því með því að reisa hann upp frá dauðum.“ 32  Þegar menn heyrðu minnst á upprisu frá dauðum gerðu sumir gys að en aðrir sögðu: „Við viljum heyra meira um þetta seinna.“ 33  Páll fór nú leiðar sinnar 34  en nokkrir fylgdu honum og tóku trú. Þeirra á meðal voru Díónýsíus, sem var dómari við Areopagusdóminn, kona að nafni Damaris og fleiri.

Neðanmáls

Eða „valdið vandræðum í“.
Eða „komu þangað“.
Eða „þið óttist guðina meira á allan hátt“.
Eða „helga muni ykkar“.
Eða „afkvæmi“.
Eða „afkvæmi“.