Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru trúarbrögð eins og hvert annað gróðafyrirtæki?

Eru trúarbrögð eins og hvert annað gróðafyrirtæki?

 Hefurðu veitt því athygli að mörg trúfélög eru einbeittari í fjáröflun heldur en að veita trúarlega leiðsögn? Þau markaðsetja og selja bæði þjónustu og vörur. Margir trúarleiðtogar eru hátt launaðir og lifa í munaði. Skoðum nokkur dæmi:

  •   Rannsókn leiddi í ljós að kaþólskur biskup notaði sjóði kirkjunnar til að fjármagna næstum 150 ferðir með einkaþotu og um 200 ferðir með glæsivagni á 13 ára tímabili. Hann notaði líka meira en fjórar milljónir bandaríkjadala til að endurnýja kirkjubústað sinn.

  •   Trúarleiðtogi í Afríkuríki heldur reglulegar samkomur sem tugþúsundir manna sækja. Stóra kirkjusamsteypan hans selur alls kyns varning, allt frá „kraftaverkaolíu“ til merktra handklæða og bola. Flest sóknarbarna hans eru fátæk en hann er vellauðugur.

  •   Í Kína eru fjögur heilög fjöll samkvæmt trú búddista, tvö þeirra eru skráð sem opinber fyrirtæki. Hið fræga Shaolin-musteri tekur þátt í alls kyns ábatasömum verkefnum og ábótinn gengur undir nafninu „Forstjóra munkurinn“.

  •   Fyrirtæki í Bandaríkjunum eru farin að ráða dulspeki ráðgjafa. Samkvæmt einni skýrslu hafa þeir tekið upp helgisiði trúabragðanna til að bjóða viðskiptavinum sínum þjónustu sína.

 Hvað finnst þér um trúarbrögð sem eru á kafi í viðskiptum? Hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hvaða augum Guð lítur þá sem reyna að græða á trúarlegum athöfnum?

Hvað finnst Guði um það að blanda saman trú og viðskiptum?

 Guð er andsnúinn því að menn blandi saman trú og viðskiptum. Biblían sýnir að forðum daga þegar prestar sem sögðust vera fulltrúar hans en voru að „fræða gegn greiðslu“ hafi hann verið mjög óánægður með þá. (Míka 3:11) Guð fordæmdi græðgina í viðskiptaháttum sem höfðu breytt tilbeiðslustað hans í „ræningjabæli“. – Jeremía 7:11.

 Jesú fannst þeir sem notuðu trúna til að græða jafn andstyggilegir. Á hans dögum græddu trúarleiðtogarnir á gráðugum kaupmönnum sem þeir leifðu að eiga viðskipti í musterinu í Jerúsalem. Þar arðrændu þeir einlægt fólk sem kom þangað til að tilbiðja Guð. Jesús sýndi hugrekki þegar hann rak þessa óheiðarlegu kaupmenn úr musterinu og sagði: „Hættið að nota hús föður míns sem sölumarkað!“ – Jóhannes 2:14–16.

 Jesús endurspeglaði líka huga Guðs í því hvernig hann hagaði þjónustu sinni. (Jóh. 8:28, 29) Hann tók aldrei greiðslu fyrir að fræða fólk um Guð. Hann bað ekki um greiðslu fyrir að gera kraftaverk eins og að fæða hungraða, lækna sjúka og reisa upp dána. Jesús notaði aldrei þjónustu sína til að auðgast – hann átti ekki einu sinni heimili. – Lúkas 9:58.

Hvernig héldu frumkristnir menn tilbeiðslunni aðgreindri frá viðskiptum?

 Jesús sagði fylgjendum sínum að þeir mættu aldrei reyna að græða á trúarlegri starfsemi sinni. Hann sagði: „Gefins hafið þið fengið, gefins skuluð þið láta í té.“ (Matteus 10:8) Þessir fyrstu fylgjendur hans, sem síðar voru kallaðir kristnir menn, hlýddu fyrirmælum Jesú. Skoðum fáein dæmi.

  •   Pétri postula, sem hafði fylgt Jesú meðan á þjónustu hans stóð, varð boðið fé í skiptum fyrir valda og áhrifastöðu. Það var maður að nafni Símon sem bauð honum þetta. Pétur var ekki seinn á sér að hafna boði Símonar og sagði staðfastlega: „Megi silfur þitt farast með þér fyrst þú hélst að þú gætir fengið gjöf Guðs fyrir peninga.“ – Postulasagan 8:18–20.

  •   Páll postuli var vel þekktur þjónn orðsins og ferðaðist víða vegna þjónustunnar. Þó svo að hann hafi lagt hart að sér svo árum skipti í mörgum kristnum söfnuðum, þá reyndi hann aldrei að fá fjárhagslegan ábata fyrir erfiði sitt. Hvorki hann né kristnir samverkamenn hans gerðu „orð Guðs að söluvöru eins og margir gera“. (2. Korintubréf 2:17) Þvert á móti skrifaði Páll: „Við unnum dag og nótt til að íþyngja engu ykkar fjárhagslega þegar við boðuðum ykkur fagnaðarboðskap Guðs.“ – 1. Þessaloníkubréf 2:9.

 Það gefur auga leið að þessir frumkristnu menn þurftu einhverja fjármuni til að standa straum að umfangsmiklum boðunarferðum og hjálparstarfi. En þeir rukkuðu aldrei fyrir trúarathafnir. Fólki var frjálst að gefa ef það vildi, en það byggði á eftirfarandi meginreglum:

  •   2. Korintubréf 8:12: „Ef viljinn er fyrir hendi er Guð ánægður og metur gjöfina eftir því sem hver og einn á en ekki eftir því sem hann á ekki.“

     Hvað þýðir það? Hugurinn bak við gjöfina er mikilvægari en upphæðin sem gefin er.

  •   2. Korintubréf 9:7: „Hver og einn gefi eins og hann hefur ákveðið í hjarta sínu, ekki tilneyddur eða með tregðu, því að Guð elskar glaðan gjafara.“

     Hvað þýðir það? Guð vill ekki að neinn finni sig tilneyddan til að gefa. Hann er ánægður með gjöf sem kemur af fúsu geði.

Hvað verður bráðlega um ágjörn trúarbrögð?

 Biblían segir skýrt að Guð viðurkenni ekki öll trúarbrögð og tilbeiðsluform. (Matteus 7:21–23) Í Biblíunni er að finna sláandi spádóm sem líkir öllum fölskum trúarstofnunum við vændiskonu vegna þess að þau mynda bandalög við stjórnvöld í ábataskini og til að njóta forréttinda og á sama tíma græða þau á almenningi víða um heim. (Opinberunarbókin 17:1–3; 18:3) Áframhald þessa spádóms sýnir að Guð muni bráðlega fullnægja dómi á falstrúarbrögðum. – Opinberunarbókin 17:15–17; 18:7.

 Meðan þetta ástand varir vill Guð ekki að vond verk falskra trúarbragða blekki fólk og geri það fjarlægt honum. (Matteus 24:11, 12) Hann hvetur einlægt fólk til að læra að þjóna sér á þann hátt sem hann hefur velþóknun á og að flýja fölsk trúarbrögð. – 2. Korintubréf 6:16, 17.