Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Að takast á við breytingar

Að takast á við breytingar

VANDINN

  • Fjölskyldan þarf að flytja vegna vinnu pabba þíns.

  • Besti vinur þinn er að flytja burt.

  • Eldra systkini er að flytja að heiman og gifta sig.

Hvernig myndir þú takast á við slíkar breytingar?

Tré, sem svignar undan vindi, brotnar síður í stormi. Þú getur á svipaðan hátt lært að vera sveigjanlegur þegar þú tekst á við breytingar sem þú hefur litla eða enga stjórn á. En áður en við ræðum það skulum við skoða nokkur atriði sem gott er að vita um breytingar.

GOTT ER AÐ VITA

Breytingar eru hluti af lífinu. Í Biblíunni er að finna þessa staðreynd um mennina: „Tími og tilviljun hittir þá alla fyrir.“ (Prédikarinn 9:11) Fyrr eða síðar áttu eftir að upplifa sannleikann í þessum orðum. Það eru auðvitað ekki allar breytingar slæmar. Og sumar breytingar, sem virðast í fyrstu vera slæmar, geta reynst vera til góðs. Flestum líður þó best þegar lífið er í föstum skorðum og allar breytingar, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, hrista upp í tilveru þeirra.

Breytingar geta verið sérlega stressandi fyrir unglinga. Hvers vegna? Ungur maður að nafni Alexander * segir: „Á þessum aldri er maður sjálfur að breytast heilmikið. Utanaðkomandi breytingar valda bara enn meiri streitu.“

Þegar fullorðnir takast á við breytingar geta þeir sótt í reynslubankann til að skoða hvernig þeir tókust á við svipaðar aðstæður áður. En unglingar hafa ekki jafn mikla reynslu að baki.

Þú getur lært að laga þig að breytingum. Þrautseigja er eiginleiki sem gerir okkur kleift að jafna okkur eftir áföll eða laga okkur að breytingum. Sá sem er þrautseigur afber ekki aðeins nýjar aðstæður heldur getur hann litið á breytingarnar sem verkefni til að takast á við og séð ný tækifæri í þeim. Unglingar, sem eru þrautseigir, leita síður í vímuefni eða áfengi þegar þeim finnst þeir vera að bugast.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Sættu þig við breytingar. Þótt þú myndir eflaust vilja hafa fullkomna stjórn á lífi þínu er það óraunhæft. Sumir vinir flytja burt eða giftast. Systkini vaxa úr grasi og flytjast að heiman. Fjölskyldan gæti þurft að flytja og þú að sjá á bak vinum þínum og öllu sem þú ert vanur. Betra er að sætta sig við breytingarnar en að láta neikvæðar hugsanir ná tökum á sér. – Ráðlegging Biblíunnar: Prédikarinn 7:10.

Horfðu fram á veginn. Að einblína á það sem er liðið er eins og að horfa sífellt í baksýnisspegilinn þegar maður keyrir á hraðbraut. Það er gott að líta í hann af og til en þú verður að beina athyglinni að veginum fram undan. Það sama á við þegar þú stendur frammi fyrir breytingum. Reyndu að horfa á það sem fram undan er. (Orðskviðirnir 4:25) Hugsaðu til dæmis um hvaða markmið þú getur sett þér fyrir næsta mánuð eða næsta hálfa árið.

Beindu athyglinni að því jákvæða. „Þrautseigja snýst um viðhorf,“ segir ung kona sem heitir Lára. „Reyndu að hugsa um hvað sé jákvætt við aðstæður þínar.“ Geturðu nefnt að minnsta kosti eitthvað eitt jákvætt við þessar nýju aðstæður? – Ráðlegging Biblíunnar: Prédikarinn 6:9, Biblían 1981.

Ung kona að nafni Viktoría segir að þegar hún var unglingur hafi allir bestu vinir hennar flust í burtu. „Ég var mjög einmana og óskaði þess að hlutirnir gætu orðið eins og þeir voru áður,“ segir hún. „En þegar ég lít til baka sé ég að ég þroskaðist heilmikið á þessum tíma. Ég gerði mér grein fyrir að breytingar stuðla að þroska. Ég uppgötvaði líka að ég gat eignast fullt að nýjum vinum.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 27:10.

Að einblína á það sem er liðið er eins og að horfa sífellt í baksýnisspegilinn þegar maður keyrir á hraðbraut.

Hjálpaðu öðrum. Í Biblíunni segir: „Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ (Filippíbréfið 2:4) Að hjálpa öðrum sem eiga við vandamál að glíma er gott mótefni við eigin vanda. Anna, sem er 17 ára, segir: „Eftir því sem ég varð eldri skildi ég að það er mjög gefandi að hjálpa öðrum sem eru að takast á við svipuð vandamál og ég, eða jafnvel verri.“

^ gr. 11 Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.