Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þið unga fólk – hvernig getið þið búið ykkur undir skírn?

Þið unga fólk – hvernig getið þið búið ykkur undir skírn?

„Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi.“ – SÁLM. 40:9.

SÖNGVAR: 51, 58

1, 2. (a) Útskýrðu hvers vegna skírnin er alvarlegt skref. (b) Hvað þarftu að vera viss um áður en þú lætur skírast og hvers vegna?

ERTU ung manneskja og ertu að hugsa um að skírast? Ef svo er áttu í vændum mesta heiður sem nokkur getur hlotið. En eins og við ræddum um í greininni á undan er skírn alvarlegt skref. Hún táknar að þú hafir vígt þig Jehóva – gefið honum hátíðlegt loforð um að þjóna honum að eilífu og taka vilja hans fram yfir allt annað í lífinu. Þú ættir því ekki að skírast fyrr en þú hefur þroska til að taka þessa ákvörðun, langar í einlægni til þess og skilur hvað það þýðir að vera vígður Jehóva.

2 En segjum að þér finnist þú ekki tilbúinn að skírast. Eða segjum að þú viljir skírast en foreldrum þínum finnist að þú eigir að bíða og öðlast aðeins meiri reynslu í þjónustu Guðs. Misstu þá ekki móðinn. Líttu heldur á þetta sem tækifæri til að taka framförum og áður en langt um líður geturðu látið skírast. Hugleiddu hvaða markmið þú getur sett þér til að (1) vera sannfærður um sannleikann, (2) lifa í samræmi við sannleikann og (3) vera þakklátur.

SANNFÆRING

3, 4. Hvað getur ungt fólk lært af Tímóteusi?

3 Hvernig myndirðu svara eftirfarandi spurningum: Hvers vegna trúi ég að Guð sé til? Hvað sannfærir mig um að Biblían sé innblásin af Guði? Hvers vegna trúi ég að það sé betra að fylgja siðferðisreglum Guðs en að lifa eins og heimurinn gerir? Markmiðið með þessum spurningum er ekki að vekja efasemdir hjá þér. Þær geta öllu heldur hjálpað þér að sannfæra sjálfan þig um sannleikann, að ,læra að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna‘, eins og Páll postuli hvatti til. (Rómv. 12:2) En hvers vegna þurftu kristnir menn í Róm að sannfæra sjálfa sig um það sem þeir höfðu þegar meðtekið?

4 Tökum dæmi úr Biblíunni. Tímóteus þekkti Ritninguna vel. Hann hafði fengið kennslu hjá mömmu sinni og ömmu „frá blautu barnsbeini“. Engu að síður fékk hann þessa hvatningu frá Páli: „Halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á.“ (2. Tím. 3:14, 15) Gríska orðið, sem þýtt er „að festa trú á“, felur í sér „að vera sannfærður og viss um sannleiksgildi einhvers“, samkvæmt heimildarriti. Tímóteus hafði tileinkað sér sannleikann. Hann meðtók hann, ekki vegna þess að mamma hans og amma sögðu honum að gera það heldur hafði hann hugleitt málið og sannfærst. – Lestu Rómverjabréfið 12:1 [1]

5, 6. Hvers vegna er mikilvægt að læra að beita skynseminni snemma á ævinni?

5 Hvað með þig? Kannski hefurðu þekkt sannleikann lengi. Væri þá ekki ráð að skoða betur af hverju þú trúir Biblíunni? Það styrkir trú þína og sannfæringu og kemur í veg fyrir að þú látir undan hópþrýstingi, áróðri heimsins eða jafnvel eigin tilfinningum.

6 Lærðu að beita skynseminni snemma á ævinni. Þá ertu undir það búinn að svara jafnöldrum þínum skynsamlega þegar þeir koma með spurningar eins og: Hvernig geturðu verið viss um að það sé til Guð? Hvers vegna leyfir kærleiksríkur Guð hið illa? Hvernig getur það staðist að Guð hafi alltaf verið til? Ef þú ert viðbúinn munu þess konar spurningar ekki veikja trú þína heldur vera þér hvatning til að kafa dýpra í sjálfsnámi þínu.

7-9. Hvernig geturðu nýtt námsverkefnin „Hvað kennir Biblían?“ til að styrkja sannfæringu þína?

7 Sjálfsnám getur hjálpað þér að fá svör við spurningum, sigrast á efasemdum og styrkja sannfæringu þína. (Post. 17:11) Við höfum fengið mörg hjálpargögn til að gera það. Mörgum hefur fundist gagnlegt að kynna sér bæklinginn Var lífið skapað? og bókina Er til skapari sem er annt um okkur? Auk þess hefur margt ungt fólk haft gagn og gaman af námsverkefnunum „Hvað kennir Biblían?“ Þessi verkefni er að finna á jw.org. Leitaðu undir BIBLÍAN OG LÍFIÐ. Verkefnin fjalla um ýmis viðfangsefni Biblíunnar og eru til þess gerð að styrkja sannfæringu þína.

8 Þar sem þú ert vel inni í efni Biblíunnar ertu sennilega fljótur að svara sumum spurningunum í þessum námsverkefnum. En hvers vegna ertu viss um svörin? Í námsverkefnunum eru ritningarstaðir sem þú ert hvattur til að velta fyrir þér og skrifa svo niður hugleiðingar þínar. Þannig geturðu búið þig undir að útskýra trú þína fyrir öðrum. Námsverkefnin „Hvað kennir Biblían?“ hafa hjálpað mörgu ungu fólki að fá sterkari sannfæringu. Væri ekki þjóðráð að nýta þau í sjálfsnáminu ef þú hefur aðgang að Netinu?

9 Þegar þú styrkir sannfæringu þína stígurðu mikilvægt skref í átt til skírnar. Systir á unglingsaldri segir: „Áður en ég ákvað að skírast rannsakaði ég Biblíuna og sannfærðist um að þetta væri hin sanna trú. Og sannfæring mín verður sterkari með hverjum degi sem líður.“

VERK

10. Hvers vegna er eðlilegt að skírður kristinn maður sýni trú sína í verki?

10 Biblían segir: „Eins er líka trúin ein og sér dauð vanti hana verkin.“ (Jak. 2:17) Ef þú hefur sterka sannfæringu er eðlilegt að hún komi fram í verkum þínum. Hvers konar verkum? Biblían talar um að lifa „heilögu og guðrækilegu lífi“. – Lestu 2. Pétursbréf 3:11.

11. Hvað merkir það að ,lifa heilögu lífi‘?

11 Til að ,lifa heilögu lífi‘ verðurðu að vera siðferðilega hreinn. Hvernig stendurðu þig á því sviði? Líttu til baka yfir síðastliðið hálft ár. Hvernig hefurðu sýnt að þú hafir „agað hugann til að greina gott frá illu“? (Hebr. 5:14) Manstu eftir ákveðnum tilvikum þar sem þú stóðst freistingar eða hópþrýsting? Er hegðun þín í skólanum góður vitnisburður um trú þína? Ertu óhræddur að verja trú þína í staðinn fyrir að reyna að falla inn í hópinn svo að skólafélagarnir geri ekki grín að þér? (1. Pét. 4:3, 4) Auðvitað er enginn fullkominn. Jafnvel sumir sem hafa þjónað Jehóva lengi eru stundum feimnir að verja trú sína fyrir öðrum. En sá sem er vígður Jehóva getur verið stoltur af því að bera nafn hans og hann sýnir það í verki.

12. Hvað er fólgið í því að ,lifa guðrækilegu lífi‘ og hvernig ættirðu að hugsa um það?

12 En hvað merkir það að ,lifa guðrækilegu lífi‘? Meðal annars er átt við það sem maður gerir í söfnuðinum, eins og að sækja samkomur og boða trúna. Það felur líka í sér ýmislegt annað sem aðrir sjá ekki, eins og bænir og sjálfsnám. Sá sem hefur vígt Jehóva líf sitt lítur ekki á þetta sem byrði. Hann hugsar eins og Davíð konungur en hann sagði: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi og lögmál þitt er innra með mér.“ – Sálm. 40:9.

13, 14. Hvað getur hjálpað þér að ,lifa guðrækilegu lífi‘ og hvernig hefur sumt ungt fólk nýtt sér það?

13 Vinnublaðið á bls. 308 og 309 í bókinni Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 2. bindi, er góð hjálp til að setja sér markmið. Á vinnublaðið geturðu skrifað svör þín við spurningum eins og: Hversu hnitmiðaðar eru bænir þínar og hvað segja þær um kærleika þinn til Jehóva? Hvað lestu í sjálfsnámi þínu? Ferðu í boðunarstarfið þótt foreldrar þínir fari ekki? Á vinnublaðinu er líka pláss til að skrifa niður markmið sem þú vilt setja þér í sambandi við bænir þínar, sjálfsnám og boðunina.

14 Mörgu ungu fólki, sem hugleiðir skírn, finnst þetta vinnublað vera mjög gagnlegt. Ung systir, sem heitir Tilda, segir: „Ég notaði vinnublaðið til að setja mér markmið. Ég náði þeim koll af kolli og um ári síðar var ég tilbúin að skírast.“ Ungur bróðir að nafni Patrick hefur svipaða sögu að segja: „Ég hafði markmið,“ segir hann, „en eftir að ég skrifaði þau niður lagði ég mig enn betur fram við að ná þeim.“

Myndirðu halda áfram að þjóna Jehóva þótt foreldrar þínir hættu því? (Sjá 15. grein.)

15. Hvers vegna ætti vígsla að vera persónuleg ákvörðun?

15 Á vinnublaðinu er ein spurning sem þarf að hugleiða sérstaklega vel: Myndirðu halda áfram að þjóna Jehóva þótt foreldrar þínir og vinir hættu því? Mundu að sem vígður og skírður kristinn maður berðu ábyrgð á sambandi þínu við Jehóva. Þjónusta þín við hann ætti ekki að vera háð því hvað aðrir gera, ekki einu sinni foreldrar þínir. Ef þú lifir heilögu og guðrækilegu lífi er það merki um að þú hafir tileinkað þér sannleikann og verðir fljótlega tilbúinn til að skírast.

ÞAKKLÆTI

16, 17. (a) Af hvaða hvötum ætti fólk að gerast kristið? (b) Hvernig er hægt að lýsa þakklæti fyrir lausnargjaldið með dæmi?

16 Maður, sem var vel lesinn í Móselögunum, spurði Jesú: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matt. 22:35-37) Jesús benti á hver ástæðan ætti að vera fyrir því að fólk gerist kristið og lætur skírast. Hún ætti að vera einlægur kærleikur til Jehóva. Ein besta leiðin til að styrkja kærleikann til Jehóva er að hugleiða lausnargjaldið, mestu gjöf sem hann hefur gefið. (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 19.) Ef þú hugleiðir lausnargjaldið og hvað það þýðir fyrir þig finnurðu þig knúinn til að sýna þakklæti.

17 Það mætti lýsa viðbrögðum þínum við lausnargjaldinu með eftirfarandi dæmi: Ímyndaðu þér að einhver bjargi þér frá drukknun. Myndirðu bara fara heim, þurrka þér og gleyma síðan því sem hann gerði fyrir þig? Að sjálfsögðu ekki. Þér fyndist þú örugglega standa í þakkarskuld við bjargvætt þinn. Þegar allt kemur til alls áttu honum lífið að launa. Við stöndum í miklu meiri þakkarskuld við Jehóva Guð og Jesú Krist. Án lausnargjaldsins myndum við drukkna í syndinni og dauðanum, ef svo má að orði komast. En vegna þessa mikla kærleiksverks höfum við þá óviðjafnanlegu von að fá að lifa að eilífu í paradís á jörð.

18, 19. (a) Hvers vegna ættirðu ekki að vera smeykur við að tilheyra Jehóva? (b) Hvernig verður líf þitt betra ef þú þjónar Jehóva?

18 Kanntu að meta það sem Jehóva hefur gert fyrir þig? Þá er rétt af þér að vígja honum líf þitt og skírast. Mundu að með því að vígjast Jehóva ertu að gefa honum hátíðlegt loforð um að gera vilja hans að eilífu, sama hvað gerist. Ættirðu að vera smeykur við að skuldbinda þig svona? Alls ekki! Hafðu í huga að Jehóva vill þér alltaf það besta og hann ,umbunar þeim er leita hans‘. (Hebr. 11:6) Að vígjast Jehóva og skírast hefur ekki neikvæð áhrif á líf þitt. Þvert á móti verður líf þitt betra þegar þú þjónar Jehóva. Bróðir, sem var ekki orðinn unglingur þegar hann skírðist, sagði þegar hann var 24 ára: „Ég hefði kannski skilið margt betur ef ég hefði verið aðeins eldri. En sú ákvörðun að vígjast Jehóva verndaði mig gegn því að sækjast eftir veraldlegum gæðum.“

19 Jehóva er gerólíkur Satan sem er eigingjarn og er algerlega sama um þig. Satan hefur ekkert gott að bjóða þeim sem standa hans megin, enda er ekki við því að búast. Hann getur ekki gefið það sem hann á ekki. Satan hefur engan gleðiboðskap til að flytja og enga bjarta framtíðarvon handa þér. Hann getur aðeins boðið þér sömu ömurlegu framtíðina og bíður hans sjálfs. – Opinb. 20:10.

 20. Hvað getur ungt fólk gert til að verða tilbúið að vígjast Jehóva og skírast? (Sjá einnig rammann „ Hjálp til að styrkja sambandið við Jehóva“.)

20 Að vígja Jehóva líf þitt er greinilega besta ákvörðun sem þú getur tekið. Ertu tilbúinn til þess? Þá skaltu ekki hika við það. En ef þú þarft meiri tíma skaltu notfæra þér tillögurnar í þessari grein til að styrkja sambandið við Jehóva. Páll skrifaði kristnum mönnum í Filippí: „Við skulum fyrir alla muni ganga þá götu sem við höfum komist á.“ (Fil. 3:16) Ef þú fylgir þessu ráði verðurðu bráðum tilbúinn til að vígja Jehóva líf þitt og skírast.

^ [1] (4. grein.) Rómverjabréfið 12:1 (New World Translation): „Þess vegna hvet ég ykkur, bræður, vegna miskunnar Guðs að bjóða fram líkama ykkar að lifandi fórn, heilagri og Guði þóknanlegri, að nota skynsemina til að þjóna honum.“