Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvenær kemur endirinn? Svar Jesú

Hvenær kemur endirinn? Svar Jesú

Eins og fram kom í síðustu grein á Biblían ekki við endalok jarðarinnar eða mannkynsins þegar hún talar um heimsendi. Hún á öllu heldur við endalok þessa spillta heimskerfis sem við búum við og allra sem styðja það. En segir Biblían hvenær þetta illa heimskerfi tekur enda?

TAKTU EFTIR ÞVÍ SEM JESÚS SAGÐI UM ENDINN:

„Haldið því vöku ykkar því að þið vitið hvorki daginn né stundina.“ – MATTEUS 25:13.

„Hafið augun opin, verið vakandi, því að þið vitið ekki hvenær tíminn er kominn.“ – MARKÚS 13:33.

Enginn á jörðinni veit því nákvæmlega hvenær þetta heimskerfi tekur enda. En Guð hefur ákveðið tímann sem endirinn á að koma – „þann dag og stund“. (Matteus 24:36) Þýðir þetta að það sé engin leið að vita hvenær endirinn er nálægur? Alls ekki. Jesús sagði lærisveinum sínum að vera vakandi fyrir atburðum sem gæfu til kynna að endirinn væri nálægur.

TÁKNIÐ

Þessir atburðir yrðu tákn um „lokaskeið þessarar heimsskipanar“. Jesús sagði: „Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki. Það verða hungursneyðir og jarðskjálftar á einum stað eftir annan.“ (Matteus 24:3, 7) Hann sagði líka að það yrðu „drepsóttir“, eða faraldrar. (Lúkas 21:11) Sérð þú atburðina sem Jesús spáði fyrir eiga sér stað?

Hræðileg stríð, hungursneyðir og jarðskjálftar auk vægðarlausra sjúkdóma hafa leikið jörðina grátt á okkar dögum. Árið 2004 kom til dæmis gríðarstór jarðskjálfti í Indlandshafi af stað flóðbylgju sem varð um 225.000 manns að bana. Á þrem árum dró COVID-19 faraldurinn um 6,9 milljónir manna til dauða um allan heim. Jesús sagði að atburðir sem þessir myndu gefa til kynna að endir þessa heimskerfis væri nálægur.

,SÍÐUSTU DAGAR‘

Biblían kallar tímabilið rétt fyrir endalokin ,síðustu daga‘. (2. Pétursbréf 3:3, 4) Í 2. Tímóteusarbréfi 3:1–5 segir að síðustu dagar myndu einkennast af því að fólk hafnaði góðu siðferði. (Sjá rammann „ Rétt fyrir endalok þessa heims“.) Hefur þú tekið eftir að fólk nú á dögum sýnir af sér sjálfselsku, græðgi, grimmd og kærleiksleysi? Það er líka merki um að endir þessa heims sé mjög nálægur.

Hversu lengi standa hinir síðustu dagar? Samkvæmt Biblíunni standa þeir aðeins í „nauman tíma“. Síðan mun Guð „eyða þeim sem eyða jörðina“. – Opinberunarbókin 11:15–18; 12:12.

BRÁÐLEGA VERÐUR PARADÍS Á JÖRÐ

Guð hefur nú þegar ákveðið daginn og stundina sem hann bindur enda á þetta illa heimskerfi. (Matteus 24:36) En það eru fleiri góðar fréttir. Guð „vill ekki að neinn farist“. (2. Pétursbréf 3:9) Hann gefur mönnunum tækifæri til að laga sig að meginreglum hans. Hann gerir það vegna þess að hann vill að við lifum af endalok þessa heims og fáum að búa í nýjum heimi hans þegar jörðin verður gerð að paradís.

Guð sér til þess að allir fái tækifæri til að fræðast um hvernig þeir geti fengið að lifa í nýja heiminum undir stjórn ríkis hans. Jesús sagði að fagnaðarboðskapurinn um ríki Guðs yrði boðaður „um alla jörðina“. (Matteus 24:14) Vottar Jehóva um allan heim verja milljörðum klukkustunda í að segja fólki frá vonarboðskap Biblíunnar og kenna því. Jesús sagði að þetta boðunarátak yrði gert um allan heim áður en endirinn kæmi.

Mannlegar stjórnir fá ekki að standa mikið lengur. En góðu fréttirnar eru þær að þú getur lifað af endalok þessa heims og fengið að njóta paradísarinnar sem Guð hefur lofað. Næsta grein fjallar um hvernig þú getur fengið að lifa í þessum nýja heimi.

Spádómur Jesú um ,síðustu daga‘ veitir okkur von.