Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Adam og Eva — sannsögulegar persónur?

Adam og Eva — sannsögulegar persónur?

Adam og Eva — sannsögulegar persónur?

MARGIR álíta frásögu 1. Mósebókar af Adam og Evu ekkert annað en skemmtilega sögu. „Stóru kirkjudeildirnar hafa lengi litið svo á að frásögur 1. Mósebókar, svo sem af Adam og Evu, séu líkingasögur,“ segir í lesendabréfi í dagblaðinu Time. Margir fræðimenn kaþólskra, mótmælenda og gyðinga eru sama sinnis. Þeir fullyrða að efni 1. Mósebókar sé að miklu leyti á skjön við sögulegar heimildir og vísindi.

Hvað heldur þú? Trúirðu að Adam og Eva séu sannsögulegar persónur? Eru einhverjar góðar vísbendingar um að þau hafi verið til? Og hvað hefur það í för með sér að líta á frásagnir 1. Mósebókar sem hreinar helgisögur?

Er sköpunarsagan trúverðug frá sjónarhóli vísinda?

Byrjum á því að líta á meginatriði frásagnarinnar af sköpun fyrsta mannsins. Í Biblíunni segir um Adam: „Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig varð maðurinn lifandi vera.“ (1. Mósebók 2:7) Er þetta trúverðug lýsing frá sjónarhóli vísinda?

Í bókinni Nanomedicine segir að mannslíkaminn sé gerður úr 41 frumefni. Þessi undirstöðuefni — kolefni, járn, súrefni og fleiri — er öll að finna í moldinni. Maðurinn er því vissulega myndaður „af moldu jarðar“ eins og segir í 1. Mósebók.

Hvernig var þessum lífvana einingum raðað saman í lifandi mannveru? Til að glöggva okkur á því hve gríðarlegt vandaverk það hefur verið skulum við til samanburðar líta á geimskutlu Bandaríkjamanna, einhverja flóknustu vél sem smíðuð hefur verið. Þetta tækniundur er samsett úr hvorki meira né minna en 2,5 milljónum hluta. Það tók fjölda verkfræðinga mörg ár að hanna hana og smíða. Lítum nú á mannslíkamann. Hann er samsettur úr 7.000 milljón milljón milljón milljón atómum, 100 billjónum frumna, tugum líffæra og að minnsta kosti 9 meginlíffærakerfum. * Hvernig varð þessi lífræna vél til, þessi óhemjuflókna snilldarsmíð? Gerðist það af hreinni tilviljun eða á hún sér viti borinn hönnuð og skapara?

Og hvað veldur því að mennirnir eru lifandi? Hvaðan kemur lífsneistinn? Vísindamenn viðurkenna að þeir viti það ekki. Þeir geta ekki einu sinni komið sér saman um viðunandi skilgreiningu á því hvað sé líf. Hjá þeim sem viðurkenna að til sé skapari er niðurstaðan hins vegar augljós. Það er Guð sem er uppspretta lífsins. *

Hvað um þá lýsingu 1. Mósebókar að Eva hafi verið mynduð af rifbeini Adams? (1. Mósebók 2:21-23) Áður en þú vísar frásögunni á bug sem goðsögn eða hreinni ímyndun ættirðu að hugleiða eftirfarandi: Í janúar 2008 tókst vísindamönnum í Kaliforníu að einrækta í fyrsta sinn fósturvísi úr húðfrumum fullorðinnar manneskju. Með svipuðum aðferðum hefur tekist að einrækta að minnsta kosti 20 dýr. Þekktust er ærin Dolly sem var einræktuð árið 1996 úr mjólkurkirtli fullvaxinnar ær. *

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvað kemur út úr þessum tilraunum. En kjarni málsins er þessi: Fyrst menn geta notað lífrænt efni úr einni lifandi veru til að búa til aðra lifandi veru sömu tegundar, ætti þá ekki alvaldur skapari að geta myndað mannveru úr lífrænu efni sem tekið er úr annarri manneskju? Það er reyndar athyglisvert að skurðlæknar nota gjarnan rifbein við lýtaaðgerðir vegna þess að þau geta endurnýjað sig og vaxið aftur.

Vitnisburður Biblíunnar sjálfrar

Það kemur sumum á óvart að heyra að það skuli vera minnst margoft á Adam og Evu í Biblíunni. Má draga einhverjar ályktanir af því um sögulegt gildi frásagnarinnar í 1. Mósebók?

Við skulum byrja á því að líta á ættarskrár Gyðinga í 1. til 9. kafla 1. Kroníkubókar og 3. kafla Lúkasarguðspjalls. Þessar ættarskrár eru ótrúlega ítarlegar. Sú fyrri nær yfir 48 kynslóðir en sú síðari yfir 75 kynslóðir. Í Lúkasarguðspjalli er rakin ættartala Jesú Krists en í 1. Kroníkubók ættarskrár presta Ísraels. Í báðum er að finna nöfn þekktra persóna. Þeirra á meðal eru Salómon, Davíð, Jakob, Ísak, Abraham, Nói og einnig Adam. Öll nöfnin í ættarskránum báðum eru nöfn sannsögulegra persóna. Adam, fyrsti maðurinn í ættarskránum, er sömuleiðis sannsöguleg persóna.

Adam og Eva koma margoft við sögu í Biblíunni og alltaf er talað um þau sem raunverulegt fólk, ekki goðsagnaverur. Lítum á nokkur dæmi:

• „[Guð] skóp og af einum allar þjóðir manna.“ — POSTULASAGAN 17:26.

• „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig . . . ríkti dauðinn frá Adam til Móse.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 5:12, 14.

• „Hinn fyrsti maður, Adam, varð lifandi sál.“ — 1. KORINTUBRÉF 15:45.

• „Adam var fyrst myndaður, síðan Eva.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:13.

• „Um þessa menn spáði Enok líka, sjöundi maður frá Adam.“ — JÚDASARBRÉFIР14.

Síðast en ekki síst viðurkenndi Jesús að Adam og Eva hefðu verið til, og varla er hægt að draga trúverðugleika hans í efa. Einu sinni var hann spurður um hjónaskilnaði og svaraði þá: „Frá upphafi sköpunar gerði Guð þau karl og konu. Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður . . . Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja.“ (Markús 10:6-9) Varla hefði Jesús bent á líkingasögu sem lagalega bindandi fordæmi. Nei, hann vitnaði í frásögn 1. Mósebókar sem staðreynd.

Í biblíuhandbókinni The New Bible Dictionary segir eftirfarandi um hin biblíulegu rök: „Nýja testamentið staðfestir sögugildi frásögunnar í fyrstu köflum 1. Mósebókar.“

Ef sagan er ekki sönn

Margt einlægt og trúrækið fólk telur að það sé ekki nauðsynlegt að trúa á tilvist Adams og Evu til að vera góð, kristin manneskja. Það kann að virðast rétt við fyrstu sýn. En skoðum aðeins hvaða afleiðingar það hefur að hugsa þannig.

Tökum sem dæmi biblíukenningu sem er mörgu trúræknu fólki kær — kenninguna um lausnargjaldið. Samkvæmt henni gaf Jesús Kristur fullkomið mannslíf sitt sem lausnargjald til að leysa mennina frá syndum þeirra. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Lausnargjald er, eins og við vitum, verðmæti sem látin eru af hendi til að leysa út eða endurheimta eitthvað sem hefur glatast. Þess vegna er komist svo að orði í Biblíunni að Jesús hafi gefið sjálfan sig „til lausnargjalds“. (1. Tímóteusarbréf 2:6) Hvað átti þetta lausnargjald að leysa? Svar Biblíunnar er: „Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“ (1. Korintubréf 15:22) Jesús fórnaði fullkomnu lífi sínu til að endurleysa hlýðna menn og það samsvarar fullkomnu lífi Adams sem hann glataði þegar hann syndgaði í Eden. (Rómverjabréfið 5:12) Ef Adam hefði ekki verið til væri lausnarfórn Krists algerlega tilgangslaus.

Ef frásögu 1. Mósebókar af Adam og Evu er hafnað eða lítið gert úr henni hefur það keðjuverkandi áhrif því að það setur næstum allar helstu kenningar Biblíunnar í uppnám. * Eftir situr aragrúi af ósvöruðum spurningum og grundvellinum er kippt undan trúnni. — Hebreabréfið 11:1.

Hefur lífið einhvern tilgang?

Að síðustu skulum við líta á þessa grundvallarspurningu: Ef við tökum þá afstöðu að frásagan í 1. Mósebók sé uppspuni getum við þá fullnægt þeirri þörf okkar að lífið hafi eitthvert gildi og tilgang? Richard Dawkins er virtur þróunarfræðingur og trúleysingi. Hann heldur því fram að í alheiminum sé „engin áætlun, enginn tilgangur og hvorki illt né gott, ekkert nema blint og miskunnarlaust afskiptaleysi“. Þetta er skelfing kaldranalegt sjónarmið og stríðir illilega gegn mannlegu eðli.

Í Biblíunni er aftur á móti að finna fullnægjandi svör við áleitnustu spurningum lífsins: Hvaðan komum við? Hver er tilgangur lífsins? Af hverju er svona mikil illska og þjáningar í heiminum? Tekur illskan einhvern tíma enda? Og svo mætti lengi telja. Ef við trúum á lausnarfórn Krists getum við auk þess átt von um eilíft líf í paradísarumhverfi, ekki ósvipuðu og var í Eden sem Guð gaf fyrstu hjónunum, þeim Adam og Evu, að heimili. (Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3-5) Þetta eru unaðslegar framtíðarhorfur. *

Þó svo að frásagan af Adam og Evu passi ekki við þá kenningu að lífið hafi þróast kemur hún heim og saman við þekktar vísindalegar staðreyndir. Og hún er í fullu samræmi við Biblíuna í heild sinni, við innblásið orð Guðs sem gefur lífinu raunverulegt gildi.

Væri ekki þjóðráð að kynna sér Biblíuna betur? Vottar Jehóva eru reiðubúnir að aðstoða þig eftir þörfum.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Fyrri talan er 7 með 27 núllum á eftir en sú síðari 100 með 12 núllum á eftir.

^ gr. 8 Nánari upplýsingar er að finna í bókunum Er til skapari sem er annt um okkur? og Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? Bækurnar eru gefnar út af Vottum Jehóva.

^ gr. 9 Með einræktun er auðvitað ekki verið að skapa líf heldur vinna vísindamenn úr efni frumna sem eru nú þegar lifandi.

^ gr. 25 Nefna má kenningarnar um æðsta vald Guðs, ráðvendni mannsins, gott og illt, frjálsan vilja, eðli dauðans, hjónaband, hinn fyrirheitna Messías, paradís á jörð, ríki Guðs og margar aðrar.

^ gr. 28 Nánari upplýsingar er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían?, 3. kafla sem heitir „Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?“ og 5. kafla sem nefnist „Lausnargjaldið — mesta gjöf Guðs“. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 30]

Ef Adam hefði ekki verið til væri lausnarfórn Krists algerlega tilgangslaus.

[Myndir á blaðsíðu 29]

Mannslíkaminn er hannaður ekki síður en geimskutlan.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Jesús viðurkenndi að Adam og Eva hefðu verið til.