Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ÞURFUM VIÐ Á GUÐI AÐ HALDA?

Við þurfum á Guði að halda

Við þurfum á Guði að halda

Sérfræðingar á sviði geðheilsu segja að fólk þurfi að fullnægja fleiru en líkamlegum þörfum sínum til að geta verið raunverulega hamingjusamt. Þetta sést glöggt á því að fólk reynir gjarnan að gera lífið innihaldsríkara með því að starfa að málefni sem það telur mikilvægt. Sumir nota því allan frítíma sinn í að huga að náttúrunni, listum, tónlist eða þar fram eftir götunum. En fæstir finna varanlega lífsfyllingu í slíku.

Guð vill að mennirnir séu hamingjusamir nú og um ókomna tíð.

Þeim sem lesa Biblíuna kemur ekki á óvart að fólk hafi meðfædda andlega þörf. Í fyrstu bók Biblíunnar kemur fram að eftir að Guð skapaði fyrstu hjónin talaði hann oft við þau og gerði þeim kleift að eiga náið samband við sig. (1. Mósebók 3:8-10) Guð skapaði ekki mennina til að þeir yrðu óháðir honum. Þeir hafa áskapaða þörf til að eiga samband við hann. Í Biblíunni er oft talað um þessa þörf.

Jesús sagði til dæmis: „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, New World Translation) Við getum dregið þá ályktun af þessum orðum að til að geta lifað hamingjusömu og innihaldsríku lífi þurfum við að fullnægja þessari eðlislægu löngun okkar að kynnast Guði. Hvernig förum við að því? Jesús benti á leiðina þegar hann sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Hvernig geta þessi orð Guðs, það er að segja hugsanir hans og leiðbeiningar sem ritaðar eru í Biblíuna, gert okkur kleift að lifa hamingjuríku lífi? Skoðum þrjár leiðir til þess.

Við þurfum góða leiðsögn

Nú til dags eru óteljandi sérfræðingar tilbúnir að gefa ráð um samband kynjanna, ástina, fjölskyldulífið, hamingjuna, friðsamleg samskipti og jafnvel tilgang lífsins. En hver er best til þess fallinn að láta okkur í té góðar og áreiðanlegar leiðbeiningar á öllum þessum sviðum? Er það ekki skapari okkar, Jehóva * Guð?

Líkt og handbók er Biblían leiðarvísir að farsælu lífi.

Tökum dæmi: Þegar þú kaupir þér nýtt tæki, eins og til dæmis myndavél eða tölvu, býstu við að því fylgi leiðarvísir eða handbók um hvernig tækið geti nýst þér sem best og þú fáir sem mest út úr kaupunum. Það má líkja Biblíunni við slíka handbók. Hún er handbók um lífið sem Guð, framleiðandinn, hefur látið okkur, notendunum, í té. Í þessari handbók er að finna upplýsingar um vöruna, hvernig hún er hönnuð og hvernig best sé að nota hana.

Eins og með allar góðar handbækur varar Biblían lesendur sína við hegðun sem getur stofnað öryggi þeirra og velferð í hættu. Aðrir gefa okkur kannski annars konar leiðbeiningar sem hljóma vel og virðist auðveldara að fara eftir. En er ekki rökrétt að álykta sem svo að okkur farnist best og að við komumst hjá vandamálum ef við förum eftir leiðbeiningunum sem við fáum frá skapara okkar?

„Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ – Jesaja 48:17, 18, Biblían 1981.

Í Biblíunni fáum við þá hjálp og leiðsögn sem við þörfnumst.

Þrátt fyrir að Guð gefi okkur leiðbeiningar og fyrirmæli þvingar hann okkur ekki til að fara eftir þeim. Á kærleiksríkan hátt biður hann okkur að fara eftir leiðbeiningum sínum vegna þess að hann elskar okkur og vill hjálpa okkur. Hann segir: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:17, 18, Biblían 1981) Í stuttu máli verður líf okkar farsælt ef við förum eftir leiðbeiningum Guðs. Með öðrum orðum þurfum við á Guði að halda til að vera raunverulega hamingjusöm.

Við þurfum svör við erfiðum spurningum

Sumum finnst margslungin vandamál lífsins bera vott um að Guð sé kærleikslaus og því þurfi þeir ekki á honum að halda. Þeim leikur kannski hugur á að vita hvers vegna gott fólk þarf að þjást, hvers vegna saklaus börn fæðast vansköpuð og af hverju lífið er svona óréttlátt. Þetta eru erfiðar spurningar og að fá fullnægjandi svör við þeim getur haft djúpstæð áhrif á líf fólks. Í stað þess skella skuldinni umsvifalaust á Guð skulum við skoða hvernig orð hans, Biblían, getur varpað ljósi á málin.

Í þriðja kafla fyrstu Mósebókar lesum við söguna af því þegar Satan, í gervi höggorms, reyndi að fá fyrstu hjónin til að brjóta gegn fyrirskipun Guðs og borða ávöxtinn af skilningstré góðs og ills. Satan sagði við Evu: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ – 1. Mósebók 2:16, 17; 3:4, 5.

Með þessum orðum hélt Satan því ekki aðeins fram að Guð væri lygari heldur einnig að stjórnarhættir hans væru óréttlátir. Djöfullinn fullyrti að ef mannkynið hlustaði á sig myndi því farnast betur. Hvernig yrðu þessi mál leyst? Jehóva kaus að grípa ekki inn í framvindu mála heldur leyfa þeim að hafa sinn gang svo að allir gætu séð með tímanum hvort ásakanirnar gegn honum væru sannar eða ekki. Guð var í raun að gefa Satan og þeim sem vilja fylgja honum tækifæri til að sýna hvort mönnunum myndi farnast betur án sín.

Hvert er svarið við ásökunum Satans að þínu mati? Geta menn átt farsælt líf og stjórnað sér sjálfir óháð Guði? Allar þær þjáningar, óréttlæti, veikindi og dauði ásamt glæpum, hnignandi siðferði, styrjöldum, þjóðarmorðum og öðrum grimmdarverkum, sem þjakað hafa mannkynið um aldaraðir, margsanna að tilraunir mannsins til að vera óháður Guði og stjórna sér sjálfur hafa mistekist hrapalega. Biblían sýnir fram á að Guð ber ekki ábyrgð á ógæfu mannanna en bendir á eina aðalástæðu hennar. Hún segir: „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ – Prédikarinn 8:9.

Er ekki ljóst miðað við þetta að við þurfum að snúa okkur til Guðs bæði til að fá svörin við þessum erfiðu spurningum og lausn á vandamálum mannkynsins? Hvað hefur Guð í hyggju?

Við þurfum hjálp frá Guði

Menn hafa um aldir þráð lausn undan sjúkdómum, öldrun og dauða. Þeir hafa notað meiri hluta lífs síns, krafta og efnislegra eigna í leit að slíkri lausn en án mikils árangurs. Sumir hafa trúað því að ef þeir drykkju ákveðna drykki, finndu æskubrunninn eða byggju á ákveðnum stað gætu þeir verið ungir að eilífu. En allar slíkar vonir hafa þó brugðist.

Guð vill að mönnunum farnist vel og að þeir séu hamingjusamir. Það var upprunalegur tilgangur hans þegar hann skapaði mennina og hann hefur ekki skipt um skoðun. (1. Mósebók 1:27, 28; Jesaja 45:18) Jehóva Guð lofar að allt sem hann hefur ákveðið að gera bregðist ekki. (Jesaja 55:10, 11) Biblían segir frá því að Guð lofi að endurreisa paradísarumhverfið sem fyrstu hjónin glötuðu. Í síðustu bók Biblíunnar er að finna þessi orð: „Hann [Jehóva Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) Hvernig ætlar Guð að innleiða þessar dásamlegu breytingar og hvernig getum við notið góðs af loforði hans?

Jesús Kristur, sonur Guðs, kenndi fylgjendum sínum að biðja um að vilji Guðs yrði gerður. Margir þekkja eða fara með þessa bæn sem sumir kalla faðirvorið. Bænin hljómar svona: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Já, Jehóva Guð lofar að útrýma öllu því illa sem stjórnarfar manna hefur haft í för með sér og koma á fót réttlátum nýjum heimi fyrir tilstuðlan ríkis síns. * (Daníel 2:44; 2. Pétursbréf 3:13) Hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af loforði Guðs?

Jesús Kristur útskýrir á einfaldan hátt hvað við þurfum að gera: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Með hjálp Guðs getum við öðlast eilíft líf í nýjum heimi sem hann hefur lofað okkur. Það gæti sannfært þig um að til séu fleiri ástæður fyrir því að við þurfum á Guði að halda.

Nú er tíminn til að leita Guðs

Fyrir tvö þúsund árum stóð Páll postuli á Aresarhæð í Aþenu og talaði við forvitna Aþeninga um Guð. Páll sagði: „Hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti. Í honum lifum, hrærumst og erum við. Svo hafa og sum skáld ykkar sagt: Því að við erum líka hans ættar.“ – Postulasagan 17:25, 28.

Það sem Páll sagði Aþeningum er jafn áreiðanlegt í dag og það var þá. Skapari okkar sér okkur fyrir loftinu sem við öndum að okkur, matnum sem við borðum og vatninu sem við drekkum. Við gætum einfaldlega ekki lifað án þessara góðu gjafa sem Jehóva gefur okkur til viðurværis. En af hverju heldur hann áfram að gefa mönnunum slíkar gjafir hvort sem þeir leiða hugann að honum eða ekki? Páll sagði að það væri til þess að allir menn „leituðu Guðs“ og „þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ – Postulasagan 17:27.

Myndi þig langa til að kynnast Guði betur? Viltu læra meira um fyrirætlanir hans og hvernig leiðbeiningar hans geta bætt lífið núna og um ókomna tíð? Ef þú hefur áhuga á því hvetjum við þig til að ræða við þann sem færði þér þetta blað eða hafa samband við útgefendur þess. Þeir myndu með ánægju aðstoða þig.

^ gr. 7 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.

^ gr. 20 Finna má frekari upplýsingar um það hvernig ríki Guðs á eftir að framkvæma vilja hans hér á jörð í áttunda kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og er fáanleg á rafrænu formi á www.ps8318.com/is.