Hoppa beint í efnið

Eru öll trúarbrögð eins? Leiða þau öll til Guðs?

Eru öll trúarbrögð eins? Leiða þau öll til Guðs?

Svar Biblíunnar

 Nei, það eru ekki öll trúarbrögð eins. Í Biblíunni eru mörg dæmi um trúarbrögð sem Guð hefur vanþóknun á. Þau falla undir tvo meginflokka.

Flokkur 1: Að tilbiðja falsguði

 Í Biblíunni er falsguðadýrkun kölluð „vindgustur“ og „vindur sem engum hjálpar“. (Jeremía 10:3–5; 16:19, 20) Jehóva a Guð gaf Ísraelsmönnum til forna þessi fyrirmæli: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ (2. Mósebók 20:3, 23; 23:24) Þegar Ísraelsmennirnir tilbáðu aðra guði „blossaði reiði Drottins [Jehóva] upp“. – 4. Mósebók 25:3; 3. Mósebók 20:2; Dómarabókin 2:13, 14.

 Guð hefur enn sama viðhorf til tilbeiðslu á þessum ‚svonefndu guðum‘. (1. Korintubréf 8:5, 6; Galatabréfið 4:8) Hann gefur þeim sem vilja tilbiðja hann fyrirmæli um að hætta að umgangast þá sem iðka falstrú. Hann segir: „Farið því burt frá þeim og aðgreinið ykkur.“ (2. Korintubréf 6:14–17) Hvers vegna myndi Guð gefa slík fyrirmæli ef öll trúarbrögð eru eins og leiða til hans?

Flokkur 2: Að tilbiðja hinn sanna Guð eftir hætti sem hann hefur ekki velþóknun á

 Stundum tilbáðu Ísraelsmennirnir Guð með trúarathöfnum sem tengdust falsguðadýrkun, en Jehóva hafnaði þessum tilraunum til að blanda saman sannri og falskri trú. (2. Mósebók 32:8; 5. Mósebók 12:2–4) Jesús fordæmdi trúarleiðtoga síns tíma fyrir það hvernig þeir tilbáðu Guð. Þeir þóttust vera trúaðir en sýndu hræsni og ‚vanræktu það sem meira máli skipti í lögunum, það er að segja réttlæti, miskunn og trúfesti‘. – Matteus 23:23.

 Það er eins nú á dögum. Aðeins trú sem byggist á sannleika leiðir fólk til Guðs. Þennan sannleika er að finna í Biblíunni. (Jóhannes 4:24; 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Trúarbrögð sem halda á lofti kenningum sem stangast á við það sem segir í Biblíunni leiða fólk í raun í burtu frá Guði. Margar kenningar sem fólk heldur að komi frá Biblíunni – þar á meðal um þrenningu, ódauðleika sálarinnar og helvíti – koma í raun frá þeim sem tilbáðu falsguði. Tilbeiðsla sem kemur slíkum kenningum á framfæri er „til einskis“ vegna þess að hún skiptir kröfum Guðs út fyrir trúarlegar hefðir. – Markús 7:7, 8.

 Guð hatar trúarhræsni. (Títusarbréfið 1:16) Til að hjálpa fólki að nálgast Guð þarf trúin að hafa áhrif á daglegt líf þess en ekki bara vera fólgin í trúarsiðum eða hátíðasiðum. Í Biblíunni segir til dæmis: „Ef einhver heldur að hann sé trúaður en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir hann sjálfan sig og tilbeiðsla hans er til einskis. Sú trú sem er hrein og óspillt frá sjónarhóli Guðs föður okkar er þessi: að annast ekkjur og munaðarlausa í erfiðleikum þeirra og halda sér óflekkuðum af heiminum.“ – Jakobsbréfið 1:26, 27, neðanmáls.

a Jehóva er nafn hins sanna Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.