Hoppa beint í efnið

„Trúðu á Jesú“ – er nóg að trúa á Jesú til að hljóta björgun?

„Trúðu á Jesú“ – er nóg að trúa á Jesú til að hljóta björgun?

Svar Biblíunnar

 Kristið fólk trúir því að Jesús hafi dáið fyrir syndir manna. (1. Pétursbréf 3:18) En það þarf að gera meira en að trúa á Jesú sem frelsara til að hljóta björgun. Illu andarnir vita að Jesús er „sonur Guðs“ en þeim verður eytt, ekki bjargað. – Lúkas 4:41; Júdasarbréfið 6.

 Hvað þarf ég að gera til að hljóta björgun?

  •   Þú verður að trúa því að Jesús fórnaði lífi sínu fyrir syndir okkar. (Postulasagan 16:30, 31; 1. Jóhannesarbréf 2:2) Það felur í sér að trúa að Jesús hafi verið raunveruleg manneskja og að allt sem segir um hann í Biblíunni sé rétt.

  •   Kynntu þér það sem Biblían kennir. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Í Biblíunni segir að Páll postuli og Sílas hafi sagt við fangavörð: „Trúðu á Drottin Jesú og þá muntu bjargast.“ Eftir það fóru þeir að kenna fangaverðinum „orð Jehóva“. a (Postulasagan 16:31, 32) Það gefur til kynna að fangavörðurinn hafi ekki getað trúað á Jesú í raun áður en hann skildi grundvallarsannindi orðs Guðs. Hann þurfti að fá nákvæma þekkingu byggða á Ritningunum. – 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

  •   Iðrastu. (Postulasagan 3:19) Þú þarft líka að iðrast, eða sjá virkilega eftir því ranga sem þú hugsaðir og gerðir áður. Aðrir taka eftir iðrun þinni þegar þú hættir að gera það sem Guði líkar ekki og vinnur „verk sem hæfa iðruninni“. – Postulasagan 26:20.

  •   Láttu skírast. (Matteus 28:19) Jesús sagði að þeir sem yrðu lærisveinar hans myndu skírast. Fangavörðurinn sem minnst var á áður lét skírast. (Postulasagan 16:33) Og eftir að Pétur postuli hafði kennt miklum mannfjölda sannleikann um Jesú ,létu þeir sem tóku fúslega við boðskap hans skírast‘. – Postulasagan 2:40, 41.

  •   Fylgdu fyrirmælum Jesú. (Hebreabréfið 5:9) Þeir sem „halda öll fyrirmæli“ Jesú sýna með lífsstefnu sinni að þeir eru fylgjendur hans. (Matteus 28:20) Þeir ,láta sér ekki nægja að heyra orðið heldur fara eftir því‘. – Jakobsbréfið 1:22.

  •   Vertu þolgóður allt til enda. (Markús 13:13) Lærisveinar Jesú ,þurfa að vera þolgóðir‘ til að hljóta björgun. (Hebreabréfið 10:36) Páll postuli hlýddi til dæmis öllum boðum Jesú og var Guði alltaf trúfastur. Hann gerði það frá því að hann varð kristinn allt þar til að hann dó. – 1. Korintubréf 9:27.

 Hvað um „bæn syndara“?

 Í sumum trúfélögum fer fólk með ákveðnar bænir eins og „bæn syndara“ og „hjálpræðisbænina“. Þeir sem fara með þessar bænir viðurkenna yfirleitt að þeir séu syndugir og að Jesús hafi dáið fyrir syndir þeirra. Þeir biðja Jesú einnig að koma inn í hjarta sitt eða líf. En Biblían minnist hvorki á né mælir með tilbúinni „bæn syndara“.

 Sumir halda að eftir að hafa farið með „bæn syndara“ sé fullvíst að þeir hljóti björgun. En engin ein bæn tryggir fólki björgun. Við erum ófullkomin og höldum því áfram að gera mistök. (1. Jóhannesarbréf 1:8) Þess vegna kenndi Jesús fylgjendum sínum að biðja reglulega um fyrirgefningu synda sinna. (Lúkas 11:2, 4) Þar að auki hafa sumir kristnir menn sem áttu eilífa björgun í vændum misst þá von vegna þess að þeir hættu að þjóna Guði. – Hebreabréfið 6:4–6; 2. Pétursbréf 2:20, 21.

 Hver er uppruninn að „bæn syndara“?

 Sagnfræðingar eru ekki allir sammála um upprunann að „bæn syndara“. Sumir telja að þessi hefð hafi byrjað að myndast við siðaskiptin. Aðrir vilja meina að fólk hafi byrjað að fara með „bæn syndara“ þegar nýjar trúarhugmyndir voru vinsælar á 18. og 19. öld. Hvað sem því líður er þessi hefð ekki byggð á Biblíunni – hún stangast meira að segja á við það sem Biblían kennir.

a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.