Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Baráttan við brjóstakrabbamein

Baráttan við brjóstakrabbamein

Baráttan við brjóstakrabbamein

ANNA var ekki í hópi þeirra sem telst eiga á hættu að fá brjóstakrabbamein. * Hún stóð á fertugu, var heilsuhraust og enginn í hennar ætt hafði áður greinst með brjóstakrabbamein. Hún fór reglulega í brjóstamyndatöku og það hafði ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós. En dag nokkurn var hún að þreifa brjóstin í sturtu og fann þá hnút. Hnúturinn reyndist vera krabbamein. Anna og eiginmaður hennar sátu dofin á meðan læknirinn skýrði fyrir þeim hvaða úrræði væru í boði.

Ef kona greindist með brjóstakrabbamein hér áður fyrr var eina von hennar um bata yfirleitt fólgin í stórri skurðaðgerð. Aðgerðin hafði mikil líkamslýti í för með sér því að brjóstið var fjarlægt og með því eitlar í bringu og holhönd ásamt brjóstvöðvum. Þrekraunin hélt síðan oft áfram þegar lyfja- eða geislameðferð tók við. Skiljanlega kviðu margir sjúklingar meira fyrir „læknismeðferðinni“ en sjúkdómnum.

Baráttan við brjóstakrabbamein hefur annars vegar snúist um að berjast af öllu afli gegn lífshættulegum sjúkdómi og hins vegar að forðast óþörf líkamslýti og kvalafullar aukaverkanir. Líkt og Anna geta konur með brjóstakrabbamein valið á milli margvíslegra meðferðarúrræða. * Æ fleiri læknisfræðirannsóknir og greinar í fjölmiðlum vekja vonir um að ný og betri meðferðarúrræði, erfðarannsóknir og mataræði, sem styrkir ónæmiskerfið, geti að lokum sigrað í baráttunni við sjúkdóminn.

En þrátt fyrir framfarir í læknavísindum er brjóstakrabbamein enn þá ein helsta dánarorsök kvenna. * Brjóstakrabbamein er algengt í iðnríkjum Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Sjúkdómstilfellum fjölgar hins vegar í Asíu og Afríku þar sem þau hafa hingað til verið færri. Reyndar deyja hlutfallslega fleiri sem greinast með sjúkdóminn í Asíu og Afríku. Hvernig stendur á því? „Meinið er sjaldan greint nógu snemma,“ segir læknir í Afríku. „Flestir sjúklinganna leita til okkar þegar meinið er langt gengið.“

Áhættan eykst með aldrinum. Í 80 prósent tilvika greinist brjóstakrabbamein hjá konum sem komnar eru yfir fimmtugt. En góðu fréttirnar eru þær að brjóstakrabbamein er sú gerð krabbameins sem helst er hægt að lækna. Reyndar eru 97 prósent kvenna, sem hafa greinst með brjóstakrabbamein á frumstigi, enn á lífi fimm árum eftir greininguna. Það eru nú liðin meira en fimm ár síðan Anna fékk sjúkdómsgreininguna.

Brjóstakrabbamein í hnotskurn

Líkt og hjá Önnu kemur brjóstakrabbamein oft í ljós þegar hnútur finnst. Um 80 prósent þessara hnúta eru sem betur fer góðkynja og einangraðir. Margir þeirra eru einfaldlega blöðrur fullar af vökva.

Brjóstakrabbamein byrjar þannig að afbrigðileg fruma fer að skipta sér stjórnlaust og myndar smám saman æxli. Æxli verður illkynja, það er að segja krabbamein, þegar frumurnar byrja að brjóta sér leið inn í aðra vefi. Sum æxli stækka hratt, önnur vaxa í allt að tíu ár áður en þau finnast.

Til að komast að því hvort Anna væri með krabbamein tók læknirinn vefjasýni úr hnútnum með fínni nál. Í sýninu reyndust vera krabbameinsfrumur. Hún gekkst því undir skurðaðgerð og æxlið var fjarlægt ásamt umliggjandi vef. Þá var hægt að sjá á hvaða stigi krabbameinið væri (stærð, gerð og hvort það hefði dreift sér) og hve hratt það óx.

Eftir skurðaðgerðina tekur oft við frekari meðferð sem ætlað er að koma í veg fyrir að meinið taki sig upp aftur eða dreifi sér. Krabbameinsfrumur geta losnað frá æxlinu, ferðast um blóðrásina eða eitlakerfið og farið að skipta sér á nýjan leik. Þegar krabbameinið breiðist út til mikilvægra líffæra og vefja eins og heila, lifrar, beinmergjar eða lungna er sjúkdómurinn banvænn.

Anna fór bæði í geisla- og lyfjameðferð til að eyða krabbameinsfrumum sem kynnu að vera til staðar þar sem meinið greindist eða annars staðar í líkamanum. Krabbameinið, sem hún var með, nærðist á hormóninu estrógeni og því tók hún einnig inn móthormónalyf til að hindra að ný meinvörp mynduðust.

Meðferðarúrræði við brjóstakrabbameini eru í stöðugri þróun og því standa aðrir möguleikar sjúklingum til boða og fer það eftir aldri sjúklingsins, heilsu, sögu um krabbamein og meinið sem við er að glíma þá stundina. Kona að nafni Arlette greindist með krabbamein áður en það dreifði sér utan mjólkurrásanna. Hún gekkst undir fleygskurð og því þurfti ekki að fjarlægja brjóstið. Alice fór í lyfjameðferð fyrir skurðaðgerðina til að minnka æxlið. Læknir Janicear fjarlægði æxlið og næsta eitil sem veitti burt vökva frá æxlinu. Þar sem engar krabbameinsfrumur voru í þessum eitli voru aðrir eitlar látnir eiga sig. Það dró úr hættunni á að Janice fengi sogæðabjúg en það er slæm bólga sem myndast í handlegg þegar margir eitlar eru fjarlægðir.

Þótt mikið sé vitað um brjóstakrabbamein er einni grundvallarspurningu enn ósvarað: Hvernig og hvers vegna myndast brjóstakrabbamein?

Hverjar eru orsakirnar?

Orsakir brjóstakrabbameins eru enn ráðgáta. Gagnrýnisraddir segja að meira sé lagt upp úr því að rannsaka hvernig hægt sé að lækna og greina sjúkdóminn en að finna orsakir og forvarnir, enda skili hið fyrrnefnda miklum hagnaði. Vísindamenn hafa samt fundið mikilvægar vísbendingar um orsakirnar. Sumir álíta að brjóstakrabbamein sé afleiðing ferlis sem er bæði flókið og margþætt. Ferlið er talið hefjast þegar gallaðir erfðavísar valda því að fruma hegðar sér óeðlilega. Hún byrjar að skipta sér stjórnlaust, ræðst inn í aðra vefi, kemur sér undan ónæmisfrumum og ræðst síðan smám saman á mikilvæg líffæri.

Hvaðan koma gallaðir erfðavísar? Konur eru í 5-10 prósent tilfella með meðfædda erfðavísa sem auka líkurnar á að þær fái brjóstakrabbamein. Hins vegar virðast heilbrigðir erfðavísar í mörgum tilfellum verða fyrir skaðlegum áhrifum af umhverfinu og liggja geislun og eiturefni helst undir grun. Eflaust eiga fleiri rannsóknir eftir að renna stoðum undir það.

Einnig virðist hormónið estrógen stuðla að ákveðinni tegund brjóstakrabbameins. Þess vegna getur áhættan aukist hjá konum sem fara á blæðingar snemma, fara óvenjuseint úr barneign, og hjá konum sem ala sitt fyrsta barn seint eða ganga aldrei með barn og einnig hjá þeim sem hafa farið í hormónameðferð. Í ljósi þess að fitufrumur framleiða estrógen gæti offita aukið áhættuna hjá konum sem þegar hafa gengið í gegnum breytingaskeiðið og eggjastokkarnir hætt að mynda hormón. Aðrir áhættuþættir eru mikið af hormóninu insúlíni og skortur á svefnhormóninu melatóníni, sem hrjáir oft fólk í næturvinnu.

Má búast við að ný meðferðarúrræði við brjóstakrabbameini verði árangursríkari og valdi minni þjáningum? Vísindamenn eru að þróa meðferð sem felst í því að örva ónæmiskerfið og beita lyfjum til að stöðva á sameindastigi þau ferli sem ýta undir krabbameinsvöxt. Betri tækni á sviði myndgreiningar ætti líka að gera læknum kleift að veita nákvæmari og árangursríkari geislameðferð.

Vísindamenn heyja einnig harða baráttu á öðrum vígstöðvum. Þeir reyna til dæmis að skilja betur hvað býr að baki meinvörpum og leika á lyfþolnar krabbameinsfrumur, stöðva boðefni sem stýra frumuvexti og sníða meðferðina að hverju æxli fyrir sig.

Í heimi nútímans verður sjúkdómum þó aldrei eytt að fullu og dauðinn heldur áfram að taka sinn toll. (Rómverjabréfið 5:12) Enginn nema skaparinn getur stöðvað þennan sorglega veruleika. En ætlar hann sér það? Í Biblíunni kemur fram að hann ætli svo sannarlega að gera það. Brátt rennur upp sá tími þegar „enginn borgarbúi mun segja:,Ég er veikur.‘“ * (Jesaja 33:24) Verður það ekki mikill léttir?

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ Vaknið! mælir ekki með einni læknismeðferð umfram aðra.

^ Það er hlutfallslega sjaldgæft að karlmenn greinist með brjóstakrabbamein.

^ Ítarlegri umfjöllun um þetta loforð er að finna í biblíunámsritinu Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 24, 25]

VERTU VAKANDI FYRIR EINKENNUM

Það er fyrir öllu að krabbamein greinist snemma. Sumar rannsóknir leiða hins vegar í ljós að brjóstaskoðun og -myndataka geti verið ónákvæmari hjá yngri konum, og það getur haft í för með sér óþarfa læknismeðferð og áhyggjur. Sérfræðingar hvetja konur þó eindregið til þess að fylgjast með öllum breytingum sem verða á brjóstum og eitlum. Hér eru talin upp nokkur einkenni sem gott er að vera vakandi fyrir:

● Hnútur eða þykkildi einhvers staðar í holhönd eða brjósti.

● Útferð úr geirvörtu önnur en brjóstamjólk.

● Breyting á lit eða áferð húðarinnar.

● Geirvartan er aum eða óeðlilega innfallin.

[Rammi á blaðsíðu 25]

EF ÞÚ GREINIST MEÐ BRJÓSTAKRABBAMEIN

● Gerðu ráð fyrir að þú þurfir að einbeita þér að meðferðinni og því að ná bata næsta árið, eða rúmlega það.

● Veldu færa lækna sem virða þarfir þínar og trúarskoðanir, sé þess nokkur kostur.

● Taktu ákvörðun með fjölskyldunni um hverjum þið segið frá sjúkdómnum og hvenær. Þá fá vinir þínir tækifæri til að sýna þér væntumþykju sína og biðja með þér og fyrir þér. – 1. Jóhannesarbréf 3:18.

● Dragðu úr áhyggjum og streitu með því að lesa í Biblíunni, biðja til Guðs og hugsa um það sem er uppbyggilegt. – Rómverjabréfið 15:4; Filippíbréfið 4:6, 7.

● Ræddu við aðrar konur sem hafa glímt við brjóstakrabbamein og geta uppörvað þig. – 2. Korintubréf 1:7.

● Reyndu að taka aðeins einn dag í einu. Jesús sagði: „Hafið . . . ekki áhyggjur af morgundeginum,“ og bætti við: „Hverjum degi nægir sín þjáning.“ – Matteus 6:34.

● Sparaðu kraftana. Þú þarft næga hvíld.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 26]

ÞEGAR ÞÚ RÆÐIR VIÐ LÆKNINN

● Kynntu þér helstu heiti og hugtök læknisfræðinnar í tengslum við brjóstakrabbamein.

● Skrifaðu hjá þér spurningar áður en þú ferð til læknisins. Fáðu maka eða vin til að koma með þér og aðstoða þig við að skrifa niður svörin.

● Ef læknirinn segir eitthvað sem þú skilur ekki skaltu biðja hann um að útskýra það betur.

● Spyrðu lækninn hve marga sjúklinga hann hafi meðhöndlað með sömu gerð krabbameins og þú ert með.

● Fáðu álit annars læknis ef hægt er.

● Ef læknunum ber ekki saman skaltu vega og meta reynslu þeirra og biðja þá um að bera saman bækur sínar.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 27]

GLÍMAN VIÐ AUKAVERKANIR

Sumar krabbameinsmeðferðir geta haft aukaverkanir eins og ógleði, hármissi, mikla þreytu, verki, dofa í útlimum og breytingu á húð. Hér á eftir eru nokkur einföld ráð sem geta dregið úr aukaverkunum:

● Borðaðu nóg af hollum mat til að styrkja ónæmiskerfið.

● Haltu dagbók yfir styrk og úthald og viðbrögð líkamans við ýmiss konar mat.

● Finndu út hvort lyf, nálastungumeðferð eða nudd geti dregið úr ógleði og verkjum.

● Stundaðu hóflega hreyfingu til að auka þrek, viðhalda réttri þyngd og bæta ónæmiskerfið. *

● Hvíldu þig oft en hafðu samt í huga að langar rúmlegur geta aukið þreytu.

● Haltu húðinni rakri. Varastu þröng föt. Farðu í heitt bað.

[Neðanmáls]

^ Krabbameinssjúklingar ættu að hafa samráð við lækni áður en þeir byrja í líkamsrækt.

[Rammi á blaðsíðu 28]

EF ÁSTVINUR FÆR KRABBAMEIN

Hvernig geturðu stutt ástvin sem fær krabbamein? Farðu eftir þessari meginreglu í Biblíunni: „Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.“ (Rómverjabréfið 12:15) Sýndu kærleika og umhyggju með því að hringja í ástvin þinn, skrifa honum bréf, kort eða tölvupóst eða líttu stuttlega í heimsókn. Biðjið saman og lesið hughreystandi biblíuvers. Beryl segir: „Talaðu ekki um þá sem hafa látist úr krabbameini heldur um þá sem hafa sigrað í glímunni við krabbamein.“ Janice hefur barist við krabbamein og ráðleggur: „Farðu bara til vinkonu þinnar og faðmaðu hana. Ef hún vill ræða málin gerir hún það.“ Eiginmaður þarf sérstaklega að fullvissa konu sína um að hann elski hana.

„Við höfðum reglulega krabbameinslausan dag,“ segir Geoff. „Við ákváðum að við skyldum ekki minnast á krabbameinið í heilan dag. Konan mín var ákveðin í að láta ekki allt snúast um heilsu hennar. Þess í stað einbeittum við okkur að hinu góða í lífi okkar. Það var eins og að taka frí frá sjúkdómnum.“

[Rammi á blaðsíðu 28]

HUGLEIÐINGAR

Um greininguna

Sharon: Líf mitt breyttist í einni svipan. Ég sagði: „Þetta eru endalokin.“

Um erfiðasta kaflann

Sandra: Hugarkvölin er verri en læknismeðferðin.

Margaret: Eftir seinni meðferðina hugsar maður: „Ég get ekki meira.“ En maður lætur sig samt hafa það.

Um vini

Arlette: Við sögðum vinum okkar frá svo að þeir gætu beðið fyrir okkur.

Jenny: Við létum ekki eitt einasta bros, kveðju eða vingjarnlegt augnaráð fram hjá okkur fara.

Um stuðning eiginmannsins

Barbara: Ég ákvað að raka af mér hárið áður en það færi að detta af. Þá sagði Colin, maðurinn minn: „Þú ert með mjög fallegt höfuðlag.“ Hann kom mér til að hlæja.

Sandra: Við horfðum saman í spegilinn. Ég horfði framan í Joe og sá í augum hans að hann myndi styðja mig og styrkja.

Sasha: Karl sagði við fólk: „Við erum með krabbamein.“

Jenny: Geoff elskaði mig takmarkalaust og andlegur styrkur hans róaði mig.

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 27]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Krabbameinsfrumur óhlýðnast hefðbundnum reglum um frumuskipti með því að vaxa og margfaldast og brjóta sér leið inn í aðra vefi.

[Skýringarmynd]

Mjólkurgangur með heilbrigðum frumum.

Staðbundið mein í mjólkurgangi.

Ífarandi mein frá mjólkurgangi.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Það er mikilvægur hluti krabbameinsmeðferðar að fjölskylda og vinir sýni sjúklingnum kærleika og stuðning.