Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Gerð var könnun í Bandaríkjunum og Kanada á 5.296 svokölluðum grænum afurðum. Í ljós kom að í 95 af hundraði tilvika voru „fullyrðingar um umhverfisáhrif ósannaðar“. – TIME, BANDARÍKUNUM.

Öryggisverði á alþjóðaflugvellinum í Bangkok „grunaði að eitthvað óeðlilegt væri á seyði“ þegar þeir gegnumlýstu ferðatösku konu einnar. Taskan var opnuð og í henni var lifandi tígrishvolpur en honum hafði verið gefið róandi lyf. – WORLD WILDLIFE FUND, TAÍLANDI.

Líffræðileg fjölbreytni á vatnasvæði Amason

Líffræðileg fjölbreytni er óvíða meiri en á vatnasvæði Amason. Á síðastliðnum áratug hafa fundist þar og verið flokkaðar rösklega 1.200 nýjar tegundir. Um er að ræða bæði jurtir og dýr – fiska, froskdýr, skriðdýr, fugla og spendýr. Þetta kemur fram í greinargerð frá náttúruverndarsamtökunum World Wildlife Fund. Að meðaltali hefur því fundist ný tegund á þessu svæði á þriggja daga fresti. Sarah Hutchison starfar hjá samtökunum í Brasilíu. Hún segir að það sé hreinlega „með ólíkindum hve margar nýjar tegundir hafi fundist, og þá séu ekki meðtaldir hinir mörgu tegundarhópar skordýra sem hafi fundist þar“.

Álag á vinnustað

Fimmtungur Finna telur að einbeitingarleysi og gleymska dragi úr afköstum þeirra við vinnu. Í skýrslu frá Vinnuverndarstofnun Finnlands segir að þessi vandi ágerist hjá fólki yngra en 35 ára en á þeim aldri ætti heilastarfsemin að vera upp á sitt besta. Nefnt hefur verið að óhóflegt upplýsingaflóð og sífelldar breytingar á tölvukerfum sé meðal þess sem veldur álagi. „Mörgum finnst upplýsingaflóðið svo mikið að erfitt sé að velja úr það sem skiptir máli vinnunnar vegna,“ segir prófessor Kiti Müller. Í vikublaðinu Helsinki Times segir: „Heilinn lagar sig að álaginu ef það er langvarandi og líkaminn hættir þá að gera okkur viðvart um að það sé óhóflegt. Það er að segja þangað til við veikjumst alvarlega.“

Verður fólk árásargjarnara við að hugsa um tölvuleiki?

Hve lengi varir árásargirnin eftir að manneskja hefur spilað ofbeldisfullan tölvuleik? Vísindamenn völdu karla og konur af handahófi til að spila tölvuleiki, með eða án ofbeldis, í 20 mínútur. Síðan var helmingur fólks í báðum hópum beðinn að hugsa um leikinn. Í skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar segir: „Daginn eftir kepptu þátttakendur við manneskju sem þeir töldu vera keppinaut sinn, og sá sem bar hærri hlut gat refsað hinum með sársaukafullum hávaða í heyrnartólum.“ Karlar, sem beðnir voru að hugsa um ofbeldisleikinn, voru árásargjarnari. „Þeir sem spila ofbeldisleiki gera það yfirleitt lengur en í 20 mínútur í senn og eru trúlega vanir að hugsa um leikinn eftir á,“ segja höfundar rannsóknarinnar en niðurstöður hennar voru birtar í tímaritinu Social Psychological and Personality Science. Enginn marktækur munur mældist hjá konum í hópnum en konur eru að jafnaði lítt hrifnar af ofbeldisfullum tölvuleikjum.