Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig koma má í veg fyrir bílslys

Hvernig koma má í veg fyrir bílslys

Hvernig koma má í veg fyrir bílslys

ÍSKUR í hjólbörðum, brak í málmi, brothljóð í gleri, æpandi fólk . . . Þessi hljóð eru eflaust kunnug hverjum þeim sem lent hefur í bílslysi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að um 1,2 milljónir manna láti lífið í umferðaslysum ár hvert og allt að 50 milljónir slasist. Samkvæmt skýrslu Umferðastofu létu 956 manns lífið í umferðaslysum á Íslandi á árunum 1966 til 2006.

Hægt er að koma í veg fyrir mörg slys með því að huga að öryggismálum og sýna almenna skynsemi. Við skulum skoða hvernig.

Hraðatakmarkanir, öryggisbelti og farsímar

Hámarkshraði á sumum vegum virðist stundum of lágur. En þó að þú akir hraðar en leyfilegt er hefur það oftast lítil áhrif á tímann sem það tekur að komast á áfangastað. Sem dæmi má nefna er ávinningur þess að auka hraðann úr 90 km/klst upp í 110 km/klst á 50 kílómetra vegkafla ekki nema um sex mínútur. Er það áhættunnar virði?

Öryggisbelti eru sérstaklega hönnuð með öryggi í huga. Opinber stofnun í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að á árunum 2005 til 2009 hefðu öryggisbelti bjargað meira en 72.000 mannslífum í Bandaríkjunum einum og sér. Koma líknarbelgir í stað öryggisbelta? Nei, líknarbelgir eru aðeins til þess að auka virkni þeirra. Ef þú notar ekki öryggisbelti missa líknarbelgirnir í raun allt gildi sitt og geta verið stórhættulegir. Hafðu það því fyrir venju að spenna alltaf beltið og láttu farþegana gera það líka. Notaðu heldur aldrei farsíma þegar þú ekur bifreið.

Ástand vega og viðhald

Veggrip minnkar ef vegur er blautur eða rykugur og er minna á malarvegum en á malbiki. Með því að hægja á ferðinni eru minni líkur á því að bíllinn renni til við hemlun. Ef þú þarft reglulega að aka á snæviþöktum vegum ættirðu að íhuga hvort ekki væri rétt að festa kaup á vetrardekkjum því að þau hafa dýpra mynstur sem veitir aukið veggrip.

Gatnamót eru hættuleg öllum ökumönnum. Sérfræðingur mælir með eftirfarandi: Farðu ekki strax af stað þegar ljósið verður grænt. Með því að staldra við í örstutta stund geturðu komið í veg fyrir árekstur við bíl sem ekur á móti rauðu ljósi.

Reglulegt viðhald bifreiðar er grundvöllur þess að koma í veg fyrir slys. Ímyndaðu þér hvað myndi gerast ef bremsurnar hættu skyndilega að virka í akstri. Sumir bíleigendur fara reglulega með bílinn á viðurkennt verkstæði til þess að koma í veg fyrir bilanir. Aðrir kjósa að sjá sjálfir um viðhaldið. Hvernig sem þú sinnir viðhaldi bílsins er alltaf mikilvægt að hafa í huga að það sé gert á fullnægjandi hátt og að bíllinn fari í allar lögbundnar skoðanir.

Akstur undir áhrifum áfengis

Ökumenn sem eru allajafna ábyrgir í umferðinni taka mikla áhættu ef þeir setjast undir stýri eftir að hafa neytt áfengis. Á árunum 1998 til 2007 dóu 244 einstaklingar í umferðarslysum á Íslandi. Í skýrslu Umferðarstofu segir að 38 þeirra hafi verið undir áhrifum áfengis. Sumir hafa einsett sér að drekka ekkert áfengi ef þeir koma til með að setjast undir stýri því að jafnvel minniháttar áfengisneysla getur haft áhrif á ökuhæfni þeirra.

Þú verndar líf þitt og annarra ef þú fylgir umferðarreglum, spennir öryggisbeltið, heldur bílnum vel við og sest ekki undir stýri eftir að hafa neytt áfengis. Með því að fara eftir þessum tillögum geturðu minnkað líkurnar á því að þú lendir í umferðarslysi, en aðeins ef þú fylgir þeim.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 11]

AKTU EKKI SYFJAÐUR

„Fólk verður að muna að það að aka bifreið syfjaður er ekki ólíkt því að vera drukkinn undir stýri.“ Þessi orð starfsmanns National Sleep Foundation í Bandaríkjunum lýsa hættunni sem fylgir því að aka bifreið syfjaður. Eftirfarandi einkenni gefa til kynna að það sé ekki óhætt fyrir þig að aka bifreið: *

Þér finnst erfitt að halda einbeitingu, blikkar augunum stöðugt eða átt erfitt með að halda þeim opnum.

Þú geispar hvað eftir annað.

Þú manst lítið eftir síðustu kílómetrunum.

Þér finnst erfitt að halda höfðinu uppi.

Þú tekur ekki eftir umferðarskiltum eða fráreinum.

Þú ekur of nálægt næsta bíl, ráfar inn á ranga akrein eða ekur út á vegrifflurnar.

Ef þú finnur fyrir þessum einkennum ættirðu að fá einhvern annan til að keyra eða leggja bílnum á öruggum stað og hvíla þig. Öryggi þitt og annarra er tafarinnar virði!

[Neðanmáls]

^ Listinn er frá National Sleep Foundation.