Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Kynþáttamisrétti

Kynþáttamisrétti

Hvaðan koma kynþættir manna?

„Adam nefndi konu sína Evu því að hún varð móðir allra sem lifa.“ – 1. Mósebók 3:20.

HVAÐ SEGJA SÉRFRÆÐINGAR?

Í yfirlýsingu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) segir að „sérhver manneskja tilheyri sömu tegund og komi af sama stofni“. – Yfirlýsing um kynþætti og kynþáttafordóma, 1978.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Guð skapaði tvær manneskjur, Adam og Evu, og sagði þeim: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Síðar fórust nánast allir jarðarbúar í heimsflóði en fern hjón lifðu af – Nói og kona hans ásamt sonum þeirra þremur og eiginkonum þeirra. Samkvæmt Biblíunni eigum við öll ættir að rekja til þessara þriggja sona Nóa. – 1. Mósebók 9:18, 19.

Er einhver kynþáttur öðrum æðri?

„[Guð] skóp . . . af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“ – Postulasagan 17:26.

HVAÐ HAFA SUMIR SAGT?

Á tuttugustu öldinni tóku ákveðnir hópar upp kynþáttahyggju. Nasistar héldu því til dæmis fram að hugmyndin um yfirburði eins kynstofns yfir öðrum byggðist á líffræðilegum rökum. Á hinn bóginn staðfestir UNESCO-yfirlýsingin, sem vísað var í áður, að „mannkynið allt sé af sama stofni og því sé sérhver manneskja og sérhver þjóð jöfn öðrum að virðingu og réttindum“.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Postulasögunni 10:34, 35 stendur: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Þess vegna getur enginn með réttu talið einn kynþátt öðrum æðri.

Jesús sýndi fram á hvernig kristnir menn ættu að hugsa um þetta mál þegar hann sagði lærisveinum sínum: „Þér [eruð] öll bræður og systur.“ (Matteus 23:8) Hann vildi ekki að fylgjendur sínir væru sundraðir. Hann bað Guð þess að þeir væru sameinaðir og „fullkomlega eitt“. – Jóhannes 17:20-23; 1. Korintubréf 1:10.

Verður kynþáttamisrétti einhvern tíma úr sögunni?

„Það skal verða á komandi dögum að fjallið, sem hús Drottins stendur á, bifast ekki . . . Þangað munu allar þjóðir streyma.“ – Jesaja 2:2.

HVER ER SKOÐUN SUMRA?

Viðvarandi rígur milli kynþátta vekur efasemdir með fólki í mörgum löndum um að samfélagið hafi náð nokkrum marktækum árangri í baráttunni við kynþáttamisrétti. Sumir telja að þeir muni aldrei sjá jafnrétti ríkja milli kynþátta.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Guð umber ekki kynþáttahatur um alla framtíð. Öllu heldur munu karlar og konur „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“ þjóna honum í einingu undir stjórn Guðsríkis og bera ósvikinn kærleika hvert til annars. (Opinberunarbókin 7:9) Ríki Guðs er ekki óhlutbundið ástand innra með fólki. Það er stjórn sem á eftir að hafa gríðarleg áhrif hér á jörð, þar sem Guð ætlaði öllum þjóðum að búa án kynþáttamisréttis. *

^ gr. 15 Finna má fleiri upplýsingar í 3. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem er gefin út af Vottum Jehóva. Einnig fáanleg á www.ps8318.com/is.